Ástbjörg Stefanía Gunnarsdóttir fæddist 22. júní 1929. Hún lést 3. mars 2021.

Útförin fór fram 15. mars 2021.

Elsku Adda amma mín kvaddi þetta líf miðvikudaginn 3. mars, orðin næstum 92 ára. Mig langar að kveðja hana með nokkrum orðum. Ég er mjög þakklát fyrir allar góðu stundirnar sem ég átti hjá henni og Jóa afa í Sævó, amma og afi pössuðu mig oft og stundum vorum við líka saman uppi í sumarbústað. Eftir að Jói afi dó og amma flutti á Brúnaveginn þá áttum við amma áfram mjög margar góðar stundir saman. Amma var mjög skipulögð og það var alveg öruggt að hún átti alltaf til djöflatertu og sprauturjóma með kaffinu handa okkur. Við spiluðum oft lúdó eða fórum í keiluleik í spjaldtölvunni, og spjölluðum líka mikið um allt mögulegt. Ég tók upp margt af því sem hún sagði mér, og get núna hlustað á það aftur og aftur. Amma söng líka stundum fyrir mig uppáhaldslögin sín, bæði „Blueberry Hill“ og „Í apríl fer að vora“.

Síðasta árið sem hún lifði var hún mikið á spítala, og vegna þess að hún fékk Covid-19 þá var hún talsverðan tíma í einangrun. Við gátum því ekki hist eins mikið og áður, en ég heyrði í henni á hverjum degi og alltaf buðum við hvor annarri góða nótt á kvöldin og hún sagði þá alltaf „góða nótt og Guð geymi þig, besta mín“. Ég veit að amma var alveg tilbúin að fara, og hún er núna á góðum stað hjá afa. Takk fyrir allt elsku besta amma mín, þín verður sárt saknað og ég elska þig mest.

Kveðja, besta þín

Eyrún.

Kær vinkona og samstarfsmaður er fallin frá.

Ég kynntist Ástbjörgu fyrst árið 1950 þegar ég var sendur í Íþróttaskóla Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu þar sem hann rak sjúkraleikfimiskóla. Þar var Ástbjörg kennari og tók á móti unga piltinum sem var slæmur í baki. þarf ekki að orðlengja það, hún snarlagaði það og síðan höfum við verið vinir.

Næst lágu leiðir okkar saman hjá Fimleikasambandi Íslands árið 1970 er við vorum bæði kjörin í stjórn sambandsins, ég sem formaður og hún varaformaður. Ástbjörg tók síðan við formennsku árið 1977. Stjórnin hafði það verkefni m.a. að byggja upp kunnáttu og getu í áhaldafimleikum, standa fyrir keppnum og sýningum. Ástbjörg var formaður námskeiðanefndar öll þessi ár og leysti hún það starf af frábærum dugnaði.

Fimleikasambandið var aðili að norræna fimleikasambandinu. Árið 1972 á aðalfundi þess var ákveðið að halda norrænt fimleikamót á Íslandi fyrir alla aldurshópa árið eftir. Ástbjörg, ásamt fjölmörgu samstarfsfólki, átti stóran þátt í að þetta verkefni tókst frábærlega. Átti hún m.a. sýningarflokk á mótinu.

Ástbjörg var frumkvöðull á sviði kvennaleikfimi á Íslandi, hún stofnaði og kenndi hópum í 56 ár. Hún var frábær og vinsæll kennari að mati þeirra fjölmörgu sem nutu kennslu hennar, þar á meðal konu minnar sem sótti tíma í mörg ár.

Á þessum árum tengdumst við Sirrý þeim Ástbjörgu og Jóhanni, manni hennar, vináttuböndum. Áttum við margar góðar stundir með þeim ásamt öðrum góðum vinum.

Við Sirrý minnumst yndislegrar og glæsilegrar vinkonu með þakklæti og virðingu og sendum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Ásgeir Guðmundsson.