Biskupstungur Framkvæmdir við Reykjaveginn hafa staðið yfir síðan í fyrra, en þá var þessi mynd tekin, séð frá Biskupstungnavegi.
Biskupstungur Framkvæmdir við Reykjaveginn hafa staðið yfir síðan í fyrra, en þá var þessi mynd tekin, séð frá Biskupstungnavegi. — Ljósmynd/JGR
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Verktaki og eftirlitsmenn Vegagerðarinnar kanna nú orsakir ójafna í nýjum vegi um Reykjaheiði í Biskupstungum, sem lagður var síðasta sumar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Verktaki og eftirlitsmenn Vegagerðarinnar kanna nú orsakir ójafna í nýjum vegi um Reykjaheiði í Biskupstungum, sem lagður var síðasta sumar. Þegar frost kom í jörðu í haust sem leið mynduðust bylgjur í veginum sem þykja hafa lyftst meira en eðlilegt getur talist. „Þetta er meira en eðlilegt sig í nýjum vegi,“ sagði Illugi Þór Gunnarsson hjá Vegagerðinni á Selfossi í samtali við Morgunblaðið í gær.

Hvað ástæðum viðvíkur beinast sjónir að efninu sem notað var í veginn, en það var tekið úr skeringum nærri vegstæði.

Of mikill leir?

Vegurinn á Reykjaheiði er 8,4 kílómetra langur og liggur frá Torfastöðum að Efri-Reykjum – og tengir saman Reykholtssvæðið og svonefnda Hlíðabæi, þar sem í grennd er Brúarárfoss. Þetta er fjölfarin leið og fyrri vegur annaði ekki lengur álagi. Framkvæmdir hófust fyrir einu og hálfu ári og á að ljúka í sumar.

„Efnið sem við tókum í veginn átti að vera mjög gott, en nú velta menn fyrir sér hvort of mikill leir hafi verið í því,“ segir Ólafur Einarsson, framkvæmdastjóri Þjótanda hf. sem lagði veginn. „Sýni hafa verið tekin og send til greiningar á verkfræðistofu. Við bíðum niðurstaðna svo bregðast megi við og gera ráðstafanir. Hjá Þjótanda höfum við mikla reynslu af vegagerð en höfum aldrei lent í neinu þessu líku og mikilvægt fyrir alla, bæði verktaka og Vegagerðina, að vita hvað veldur.“

Frágangur er eftir

Búið er að setja neðra lag kæðningar á veginn nýja. Endanlegur frágangur er eftir svo sem að setja á efra lag klæðningar, sem verður þó ekki gert fyrr en skýringar á lyftingunum eru fengnar.