Fjöldi erlendra leikmanna í íslenskum körfubolta er áhyggjuefni

Vægi erlendra leikmanna í körfubolta á Íslandi hefur aukist verulega á undanförnum misserum. Þótt tekjur liðanna hafi skerst verulega vegna þess að að deildin lá niðri um tíma í vetur og þau hafi í kjölfarið þurft að leika fyrir auðum áhorfendastúkum keppast liðin um að ráða til sín erlenda leikmenn.

Þessi þróun virðist ætla að hafa afgerandi áhrif á möguleika innlendra leikmanna á að öðlast leikreynslu. Í úttekt á íþróttasíðum Morgunblaðsins í vikunni kom fram að aðeins 35% leikmanna í byrjunarliðum í úrvalsdeild karla eru íslensk og í úrvalsdeild kvenna er hlutfallið í kringum 40%.

Þór á Akureyri er mest sláandi dæmið um þetta. Enginn Íslendingur er í byrjunarliði Þórs og á sunnudag fyrir viku skoruðu erlendu leikmennirnir fimm 97 af 100 stigum liðsins.

Íslenskur körfubolti hefur verið hátt skrifaður undanfarinn ár. Í tvígang tókst íslenska karlalandsliðinu að tryggja sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í körfubolta. Íslendingar í atvinnumennsku erlendis geta sér nú gott orð og standa sig vel. Þar er um að ræða leikmenn, sem fengu reynslu í íslenskum körfubolta þegar takmörk voru sett við fjölda útlendinga í hverju liði.

Nú vaknar sú spurning hvort fjöldi erlendra leikmanna muni binda enda á þessa þróun. Leikmenn, sem lítið fá að leika, munu eiga erfitt með að vekja athygli á sér erlendis. Þeir munu líka eiga erfitt með að bæta sig og læra að leika undir pressu. Það er lítil hvatning fyrir unga og efnilega leikmenn ef þeir sjá að í meistaraflokki bíði þeirra það hlutverk helst að verma varamannabekkinn.

Þróun af þessum toga er ekki bara áhyggjuefni á Íslandi. Víða erlendis hafa verið settar reglur um að ákveðinn fjöldi leikmanna þurfi að vera uppalinn hjá félögum.

Á ársþingi Körfuknattleikssambands Íslands um liðna helgi var gerð tilraun til þess að koma böndum á fjölda erlendra leikmanna í íslenskum félagsliðum. Breytingin var felld. Það er hins vegar spurning hvaða áhrif það mun hafa á íslenskan körfubolta verði ekkert að gert og full ástæða til að hafa áhyggjur.