Sveinn Sigmarsson kann vel við sig sem tuskukaupmaður enda fær hann næringu og kraft úr því að hitta fólk.
Sveinn Sigmarsson kann vel við sig sem tuskukaupmaður enda fær hann næringu og kraft úr því að hitta fólk. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveinn Dal Sigmarsson er að eigin sögn tuskusali og rekur vefnaðarvöruverslun. Hann er með djúpar rætur í faginu en byrjaði þó ekki sjálfur að sauma fyrr en fyrir nokkrum mánuðum.

Sveinn Dal Sigmarsson er að eigin sögn tuskusali og rekur vefnaðarvöruverslun. Hann er með djúpar rætur í faginu en byrjaði þó ekki sjálfur að sauma fyrr en fyrir nokkrum mánuðum. Margt hefur á daga Sveins drifið en hann menntaði sig í fjármálum og starfaði lengi erlendis. Ungur slapp hann með skrekkinn úr löndunarslysi og varð sjálfur valdur að alvarlegu bátaslysi. Þá eignaðist hann óvænt nýfermda dóttur og er hálfbróðir hins ástsæla aflraunamanns Jón Páls Sigmarssonar. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Í Sjálfsbjargarhúsinu í Hátúni er að finna vefnaðarvöruverslun. Hún heitir Sauma og þegar inn er komið tekur á móti manni stór, stæðilegur og brosmildur karlmaður á besta aldri. „Það þykir mörgum skrýtið að karl sé að vinna hérna,“ viðurkennir Sveinn Dal Sigmarsson, „og sumir viðskiptavinirnir eru til að byrja með hálfsmeykir við mig vegna þess hvað ég er stór og mikill. Þeir jafna sig þó venjulega fljótt enda tek ég vel á móti öllum. Annars er það séríslenskt fyrirbrigði að konur vinni frekar í búðum af þessu tagi, erlendis eru það langmest karlar.“

Það er nefnilega það.

Ekki þarf að verja löngum tíma með Sveini til að skynja að jafnan er stutt í grínið og hláturinn. „Já, já, ég hef mjög gaman af því að grínast í fólki en auðvitað þarf maður að lesa kúnnana; fólk er misjafnlega móttækilegt fyrir sprelli.“

Hann brosir.

Viðskiptavinirnir eru mest konur en Sveinn hefur þó tekið eftir mikilli aukningu hjá körlum á síðustu misserum enda sæki þeir nú í auknum mæli í nám í fatahönnun. „Saumaskapur hættir aldrei en auðvitað gengur þetta í bylgjum. Alltaf þegar kreppir að eykst til dæmis saumaskapur og fólk sækir í betra efni sem endist,“ segir Sveinn og bætir við að saumaskapur hafi aukist talsvert í kórónuveirufaraldrinum enda þrengi nú að hjá mörgum, auk þess sem ýmsir hafi meiri tíma til að sinna áhugamálum sínum. „Fólk hefur alltaf þörf fyrir að skapa og ótrúlegasta fólk er farið að sauma og selja á Facebook.“

Engin miskunn!

Sveinn er enginn nýgræðingur í vefnaðarvörubransanum en faðir hans, Sigmar Jónsson stórkaupmaður, átti og rak um langt árabil heildverslunina S. Ármann Magnússon. Keypti hana árið 1976 af stofnandanum, Sigurði Ármanni Magnússyni stórkaupmanni, sem meðal annars flutti inn fyrstu Mazda-bifreiðarnar til Íslands. Sigmar einbeitti sér að innflutningi og sölu vefnaðarvara og hóf Sveinn ungur störf hjá föður sínum; við að sendast, pakka efni og bera það inn í verslunina sem í þá daga var til húsa á Hverfisgötu 76. „Það var engin miskunn,“ segir Sveinn sem finnst hann skyndilega við tilhugsunina standa andspænis tveimur tonnum af efni úti á stétt.

Þrátt fyrir að hafa verið viðloðandi vefnaðarvörubransann í meira en fjörutíu ár hefur Sveinn aldrei saumað sjálfur – fyrr en nú. „Auðvitað hefur maður byggt upp ákveðna þekkingu gegnum tíðina og ég hef alltaf verið duglegur að leiðbeina fólki. Það er mér kappsmál að auka áhuga á saumaskap enda sel ég þá meira af efnum.“

Hann glottir.

„Samt hafði ég aldrei saumað sjálfur og ákvað að bæta úr því fyrir nokkrum mánuðum. Kom þá á fót námskeiði í samstarfi við Helgu Rún Pálsdóttur, klæðskera og fatahönnuð sem kann sitthvað fyrir sér í faginu, og skráði mig sjálfur. Við vorum þarna átta karlar og ein kona á herrafatanámskeiði og ég saumaði þennan líka ljómandi fína bomberjakka, þó ég segi sjálfur frá.“

Hann hlær.

Sveinn segir saumanámskeiðum iðulega vaxa fiskur um hrygg þegar kreppir að í þjóðfélaginu og margir hafi skráð sig á slík námskeið í bankahruninu. „Margt af því fólki fór síðan út í rekstur sem það er ennþá með. Þegar fólk missir vinnuna og lífsviðurværið á það auðvitað að spyrja sig: Hvað hefur mig alltaf langað að gera?“

Stakk vin sinn í rassinn

Sveinn fæddist í Reykjavík árið 1963 og var tápmikið barn. Alltaf glaður og kátur en líka skapstór. „Það hefur elst af mér,“ segir hann glottandi. Á ýmsu gekk, eins og þegar Sveini sinnaðist við strák í hverfinu, elti hann með vasahníf á lofti og stakk í rasskinnina. „Sjálfsagt hefði þetta verið lögreglumál í dag en á þeim tíma leystu foreldrar okkar málið bara sín á milli og við vorum byrjaðir að leika okkur saman aftur daginn eftir.“

Feðgarnir voru víst ekki alltaf sammála og þegar hann var sextán ára lenti Sveinn upp á kant við föður sinn með þeim afleiðingum að hann hætti í fússi í heildversluninni. Hann var staðráðinn í að bjarga sér sjálfur og réð sig í togaralöndun. „Þar náði ég því til dæmis að vinna með sting. Það hafa ekki allir gert. Til að byrja með voru menn tortryggnir í garð sonar heildsalans en það lagaðist smám saman og ég vann menn á mitt band. Það var algjört ævintýri að vinna við togaralöndunina.“

Í eitt skipti var okkar maður hætt kominn. Hann var þá að vinna niðri í lest á togara þegar kassastæða sem verið var að hífa upp á dekk rakst utan í lúguna með þeim afleiðingum að kassarnir tvístruðust í allar áttir. „Þegar ég horfði á þetta gerast og allt dótið koma yfir mig var ég ekki í nokkrum vafa: Jæja, núna er ég dauður! Sama héldu aðrir sem urðu vitni að þessu. Nema hvað? Ég var sprelllifandi og hvorki skráma né mar á mér. Af einhverjum ótrúlegum ástæðum höfðu kassarnir raðast allt í kringum mig. Menn áttu ekki orð.“

Sveinn var einnig til sjós í tvö sumur, á Stapafellinu, og varð svo frægur að vera tekinn fyrir smygl í fyrsta túr.

– Hverju varstu að smygla?

„Fjórtán vodkaflöskum og einum plötuspilara. Ég slapp með sekt og fékk að halda plötuspilaranum eftir að hafa greitt toll.“

Undir stjórn Þræla-Jóns

– Átti sjómannslífið við þig?

„Já, það átti ágætlega við mig. Að vísu spúði ég eins og múkki í fyrstu ferðinni. Það kætti yfirmann minn, sem gekk undir því geðþekka nafni Þræla-Jón, óskaplega og hann lét mig losa skítastíflu meðan ég var hvað slappastur. Síðar gekk Þræla-Jón fram af mér og ég ætlaði að berja hann. Þá sagði hann: „Jæja, Svenni minn. Núna erum við góðir.“ Og hann bað aftur um mig sumarið á eftir.“

Sveinn var við nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti á veturna og eftir skólaball fór hann heim með stelpu. Þurfti svo að skreppa á klósettið um nóttina og hverjum haldið þið að hann hafi þá mætt? Jú, laukrétt, téðum Þræla-Jóni. „Mér krossbrá auðvitað en það hvorki datt né draup af Jóni sem bauð mér bara vinsamlega góða nótt. Enda kom á daginn að þetta var alls ekki Þræla-Jón, heldur tvíburabróðir hans, sem kannaðist auðvitað ekkert við mig.“

Hann skellihlær.

Sveinn var mikill hrakfallabálkur á sínum yngri árum; mölbraut til dæmis á sér höndina í svifdrekaflugi. „Ég var níu mánuði í gifsi eftir það slys. Ekki nóg með það; mér tókst á einhvern ótrúlegan hátt að brjóta á mér hina höndina líka. Var sumsé um tíma í gifsi á báðum.“

Höfuðleðrið flettist af

Mesta áfallið var þó þegar hann keyrði spíttbát óvart upp á land þegar hann var sextán ára. Sveinn var þá að draga mann á sjóskíðum á Þingvallavatni og með þrjá unga pilta með sér í bátnum. Honum hlekktist á með þeim afleiðingum að báturinn keyrði upp í harðaland. Sjóskíðamaðurinn og tveir piltanna slösuðust lítið sem ekkert en þriðji pilturinn festist undir bátnum mikið slasaður. „Það var skelfileg aðkoma. Höfuðleðrið var að hluta farið af svo skein í kúpuna sem hafði brotnað. Hann sat fastur undir bátnum og ég fylltist einhverjum fítonskrafti og tókst að lyfta bátnum upp þannig að hægt var að ná drengnum undan. Fólk dreif að úr nærliggjandi bústöðum og honum var komið til þess að gera hratt undir læknishendur. Ég var í algjöru sjokki og áttaði mig ekki strax á því að ég var mikið slasaður sjálfur; miltað hafði til að mynda sprungið.“

Sveinn og pilturinn voru báðir fluttir á gjörgæslu þar sem þeir lágu næstu dagana. Fjölskylda Sveins var úti á landi og komst því ekki strax að sjúkrabeðinum. „Við lágum hlið við hlið og aumingja drengurinn grét látlaust í tvo sólarhringa. Það var gríðarlega erfitt. Það sem kom mér í gegnum þetta var afstaða móður hans sem sat hjá okkur. Hún sagði öllu máli skipta að við jöfnuðum okkur, síðar mætti fara yfir hvað fór úrskeiðis. Sem betur fer greri drengurinn sára sinna og náði fullri heilsu á ný. Þetta slys kemur oft upp í hugann enda mín mesta eftirsjá í lífinu. Þetta hafði djúpstæð áhrif á mig.“

Það leit ekki kona við mér

Sveinn var réttnefnt partíljón á sínum yngri árum og kveðst um tíma hafa verið eins og eitt af húsgögnunum á skemmtistaðnum Hollywood, sem naut mikillar hylli á níunda áratugnum. Nokkurt bakslag kom hins vegar í kvenhylli hans eftir að ljósmynd birtist af honum í tímaritinu Samúel, þar sem hann var staddur á balli hjá Samtökunum '78. „Það kom þannig til að systir mín leigði með samkynhneigðum manni og ég hafði skutlað þeim á umrætt ball. Samúel var vinsælt blað og eftir að myndin birtist var ég stimplaður samkynhneigður. Það leit ekki kona við mér í tvö ár á eftir.“

Hann hlær dátt.

Eftir stúdentspróf fór Sveinn aftur að vinna í heildverslun föður síns enda erjur þeirra feðga löngu gleymdar. Þar var hann til 27 ára aldurs eða þar til örlögin gripu í taumana. Sveinn var þá tekinn fyrir ölvunarakstur og missti bílprófið. Álpaðist svo til að keyra próflaus og var nappaður á ný sem þýddi að refsingin var framlengd. Hann vann mikið við útkeyrslu fyrir heildverslunina og þar með var grunninum kippt undan starfinu. Og hvað gera menn þá? Jú, skella sér í háskóla í Flórída.

Sveinn skráði sig í nám í fjármálum og fjármögnun og undi hag sínum vel í sólinni þar vestra. Var aukinheldur kominn með bílpróf og bíl eftir eina viku. Lítil samskipti voru víst milli lögreglunnar á Flórída og í Reykjavík á þessum árum.

Samband, börn og skilnaður

Hann sneri heim að þremur árum liðnum, með háskólagráðu og sænska konu, Jenny, upp á arminn. Eftir skamma dvöl hér heima lá leið þeirra til Lundar, þar sem Sveinn fór í meistaranám í Evrópufræðum. „Mér þótt það blasa við enda stefndi Ísland hraðbyri inn í Evrópusambandið á þessum tíma.“

Það fór á annan veg, eins og við þekkjum.

Að námi loknu fór Sveinn að vinna sem fjármálastjóri hjá Norðurlandadeild samtaka alþjóðlegra flugfélaga í Stokkhólmi, IATA, og Jenny hjá tæknirisanum Ericsson. IATA er milliliður milli flugfélaga og ferðaskrifstofa og peningaflæðið um 600 milljarðar á ári, að sögn Sveins. Þau eignuðust tvö börn saman á þessum tíma en á endanum komu brestir í sambandið. „Við vorum bæði mjög metnaðargjörn og fjarlægðumst smám saman hvort annað. Við bárum þó sem betur fer gæfu til að skilja í góðu og erum fínir vinir í dag. Ég grínast gjarnan með að börnin hafi allt það versta frá mömmu sinni en það er auðvitað algjört kjaftæði – þau hafa það allt frá mér.“

Hann hlær.

Sonur Sveins og Jenny, Alfreð Dal, býr á Íslandi en dóttirin, Embla Júlía, er að ljúka háskólanámi í Bandaríkjunum, auk þess að spila körfubolta, eins og móðir hennar gerði á sinni tíð. Þær eru báðar hávaxnar, Jenny 191 cm og Embla Júlía 186 cm. Alfreð er einnig í hærri kantinum, 206 cm. „Þegar hann var fjórtán ára vildi hann prófa að búa á Íslandi og hefur verið hér síðan. Embla Júlía er líka mjög stolt af íslenskum uppruna sínum en hefur ekki viljað búa hér. Við erum samt í góðu sambandi og hún kemur oft í heimsókn,“ segir Sveinn.

Við eigum saman dóttur!

Þegar sambandinu við Jenny lauk sneri Sveinn heim til Íslands, eftir þrettán ár í útlöndum. Þá biðu hans óvænt tíðindi. Kona sem hann hafði átt einnar nætur gaman með í Hollywood löngu áður knúði óvænt dyra og tjáði honum að þau ættu saman dóttur – sem þá var nýfermd. DNA-próf staðfesti mál konunnar. „Það var mikil upplifun að „eignast“ nýfermda dóttur með spangir – gallharða gelgju. Mamma var að setja í uppþvottavélina þegar ég kom hálfskömmustulegur að færa henni þessi tíðindi. Hún leit snöggt upp og sagði: „Svona er að vera ríðandi úti um allt!“ Og hélt svo áfram að setja í uppþvottavélina.“

Þið getið rétt ímyndað ykkur að núna er dátt hlegið.

Fyrsti fundur þeirra feðgina var heldur stirður. Sveinn bauð dóttur sinni, Kolbrúnu, í bíltúr og hún svaraði fyrirspurnum hans bara með einsatkvæðisorðum, nei eða já. „Ég var engu nær eftir þennan bíltúr en þegar hún var komin út úr bílnum sneri hún við til að segja eitthvað. Ég rúllaði rúðunni spenntur niður og þá sagði Kolla: „Fegin að losna við hinn. Bæ.“ Þar átti hún við manninn sem áður hafði gegnt þessu hlutverki. Eftir þetta fór hún að kalla mig pabba og við erum mjög góðir vinir. Í dag á hún sjálf börn og afinn er kominn upp í manni. Það var mikil gæfa að fá þessa óvæntu dóttur inn í líf mitt.“

Ekki vissu allir af Kolbrúnu og þegar hún fór sautján ára gömul með föður sínum í fjölmennt fjölskylduboð komu vöflur á suma. „Frændi minn, sem hafði ekki hugmynd um hvernig í málinu lá, kom sposkur á svip til mín og mælti: „Minn aldeilis búinn að yngja upp núna!“ Það sprakk allt úr hlátri.“

– Áttu fleiri börn?

„Nei, ekki sem ég veit um!“

Hann hlær.

Hálfbróðir Jóns Páls

Talandi um fjölskyldu þá var hálfbróðir Sveins landsfrægur á sinni tíð – aflraunamaðurinn ástsæli Jón Páll Sigmarsson heitinn. Þeir ólust ekki upp saman, Sveinn hjá föður þeirra en Jón Páll hjá móður sinni, og kynntust ekki að neinu gagni fyrr en á unglingsárum.

„Samgangur var lítill sem enginn meðan við vorum börn en seinna heimsótti Jón Páll pabba oft í heildsöluna og við fluttum allt dótið inn fyrir hann þegar hann opnaði líkamsræktarstöðina Gym 80. Það var einn þyngsti gámur sem fluttur hefur verið inn til landsins.“

Sjálfur spreytti Sveinn sig aldrei á kraftlyftingum og aflraunum en æfði hins vegar boltaíþróttir á yngri árum. „Aflraunirnar eru ekki okkar megin í fjölskyldunni og ég held að stjúpfaðir Jóns Páls hafi alið upp í honum kraftadelluna.“

Sveinn á tvær alsystur og eina hálfsystur sem móðir hans átti áður en hún kynntist föður hans. Jón Páll átti líka sammæðra systkini, meðal annars bróður sem líka heitir Sveinn. Sem fyrr segir var samgangur milli þessara fjölskyldna ekki mikill og Sveinn var búinn að þekkja eina af sammæðra systrum Jóns Páls í nokkra mánuði þegar í ljós kom að þau áttu sameiginlegan bróður. Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur? Ha, er Jón Páll bróðir þinn? Hann er líka bróðir minn!

„Sem betur fer fór ég ekki að reyna við hana,“ segir Sveinn kíminn. „Annars hefði hún ábyggilega ekki viljað mig.“

Sviplegt fráfall Jóns Páls í janúar 1993 var að vonum mikið reiðarslag en Sveinn var þá við nám í Bandaríkjunum. „Ég var í miðjum erfiðum prófum og komst því ekki í jarðarförina; hefði átt á hættu að verða felldur. Það var rosalega erfitt. Þótt við værum ekki mjög nánir þá tekur á að geta ekki verið með fjölskyldunni á svona erfiðri stundu þegar ástvinur er kvaddur. Pabbi tók fráfall Jóns Páls mjög nærri sér, eins systur mínar.“

Jón Páll er með eftirminnilegri mönnum og Sveinn segir minninguna lifa. Þá sé einkasonur hans, Sigmar Freyr, í góðu sambandi við fjölskylduna. Sigmar, faðir Sveins, lést fyrir þremur árum.

Mamma seldi mig!

Eftir dvölina í Svíþjóð hóf Sveinn aftur störf í heildverslun föður síns. Reksturinn gekk vel á þeim tíma en í hruninu syrti í álinn. „Við vorum með lán í erlendri mynt og sem hendi væri veifað tvöfölduðust afborganir af þeim. Það var meira en við réðum við, þrátt fyrir góða sölu. Pabbi var orðinn fullorðinn á þessum tíma og ég sá um reksturinn þangað til við neyddumst til að selja árið 2010. Ég hefði glaður viljað kaupa pabba og mömmu út en hafði því miður ekki burði til þess. S. Ármann Magnússon rann þá inn í Vogue og ég fylgdi með í kaupunum. Rak Vogue í fimm ár. Segi gjarnan að mamma hafi selt mig! Sérðu ekki fyrirsögnina fyrir þér í gulu pressunni?“

Hann hlær dátt.

Þegar vefnaðarvöruverslunin Virka í Mörkinni lagði upp laupana sá Sveinn sér leik á borði; keypti allt efnið og innréttingarnar og opnaði Saumu í Hátúninu en margvísleg starfsemi hefur verið í því rými gegnum tíðina. „Þetta er góður staður og leigukjörin góð, þannig að ég lét ekki segja mér það tvisvar þegar þessi möguleiki kom upp. Ég áttaði mig á því að lítið er eftir af vefnaðarvöruverslunum og sóknarfærin því klárlega fyrir hendi. Eins og ég segi: Fólk hættir aldrei að sauma. Annars er þetta undarleg þróun; hér áður voru álnavörukaupmenn virtustu menn landsins og ekki að ósekju talað af virðingu um að komast í álnir. Horfðu svo á mig núna!“ segir Sveinn hlæjandi og breiðir út faðminn.

Svo gerist hann alvarlegri á svip. „Að öllu gríni slepptu er þetta enginn gróðabisness en ég er þakklátur fyrir að hafa eitthvað að gera. Ég var atvinnulaus um tíma og hef líklega verið of menntaður og of gamall til að fá vinnu. Hver vill ráða nær sextugan feitan kall til starfa?“

Hann glottir.

Starfsmaður allra mánaða

Sveinn er ekki einn í versluninni en móðir hans, Hlíf Jóhannsdóttir, er þar eins og grár köttur enda þótt hún sé að verða 82 ára. „Mamma er mjög dugleg að hjálpa mér og hefur verið starfsmaður allra mánaða frá því að við opnuðum í október 2018. Þegar mömmu rekur í vörðurnar er hún vön að segja að drengurinn viti þetta örugglega. Þá er ég kannski að stússa á bak við og fólk býst við að sjá ungan dreng í matrósafötum. Fær mig svo fram í öllu mínu veldi.“

Enn er hlegið.

Það er ekki bara efni í Saumu, þar er einnig að finna fjölda forláta gamalla saumavéla af öllum stærðum og gerðum. Búðin er satt best að segja ígildi safns. Spurður hvar hann hafi fengið allar þessar saumavélar svarar Sveinn því til sposkur að hann sé að geyma þær fyrir fólk.

Hann býr einnig að „stærsta tölusafni á norðurhveli jarðar“, sem hann fékk úr versluninni H. Toft sem um árabil var á Skólavörðustígnum. „Hartwig Toft var stórmerkilegur danskur kaupmaður en hann er löngu dáinn. Megnið af þessu er frá honum komið; ætli þetta séu ekki yfir milljón tölur. Ég hef ekki nákvæma tölu á þeim.“

Í blálokin berst talið að starfinu í versluninni og Sveinn upplýsir að hann hafi rosalega gaman af því að standa þarna vaktina enda fái hann allan sinn kraft og næringu úr því að hitta og umgangast fólk. „Eins og ég segi þá tek ég vel á móti öllum en verð þó að segja að mér finnst fulllangt gengið þegar fólk býðst til að borga í blíðu.“

Í andartak er hann grafalvarlegur á svip en springur svo úr hlátri.