Efniviður „Hér tek ég flatar myndirnar og vinn með hugmyndina um að blása þær út í þriðju víddina,“ segir Claudia Hausfeld um verk sín.
Efniviður „Hér tek ég flatar myndirnar og vinn með hugmyndina um að blása þær út í þriðju víddina,“ segir Claudia Hausfeld um verk sín. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Ég er sífellt að gera tilraunir og kanna möguleika efnanna en það er mér mikilvægt að sköpunarferlið sé skemmtilegt. Ég hef kannski mynd af útkomunni í huganum en alls ekki fyrirframgefna leiðarlýsingu á hvernig ég eigi að ná þangað. Ég vinn út frá ljósmyndaaðferðum fyrri tíma og þegar vel tekst til á næ ég nokkurn veginn á áfangastaðinn sem ég stefni að,“ segir myndlistarkonan Claudia Hausfeld þar sem við skoðum verk hennar í Hverfisgalleríi neðst við Hverfisgötu.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Ég er sífellt að gera tilraunir og kanna möguleika efnanna en það er mér mikilvægt að sköpunarferlið sé skemmtilegt. Ég hef kannski mynd af útkomunni í huganum en alls ekki fyrirframgefna leiðarlýsingu á hvernig ég eigi að ná þangað. Ég vinn út frá ljósmyndaaðferðum fyrri tíma og þegar vel tekst til á næ ég nokkurn veginn á áfangastaðinn sem ég stefni að,“ segir myndlistarkonan Claudia Hausfeld þar sem við skoðum verk hennar í Hverfisgalleríi neðst við Hverfisgötu.

Rumours of Being er heiti þessarar fyrstu einkasýningar Claudiu í galleríinu og verður hún opin frá kl. 16 í dag, laugardag. Á sýningunni eru tólf ný verk unnin í ýmsa miðla, til að mynda kolaprent, prent á hör, steinflísar, sem og ýmiss konar ljósmyndaprent unnin í myrkraherbergi. Í listsköpun sinni einbeitir hún sér, eins og segir í tilkynningu, „að rýmum sem við tilheyrum og leggur áherslu á hliðræna þætti miðlanna sem hún notar. Í verkunum gerir hún tilraunir með efni og yfirborð sem leiða til ljósmyndaverka sem oft eru í formi skúlptúra.“

Claudia Hausfeld býr í Reykjavík en fæddist í Austur-Berlín árið 1980 og stundaði nám í ljósmyndun í Listaháskólanum í Zürich og síðar myndlistarnám við Listaháskóla Íslands. Claudia hefur verið við stjórn fjölmargra listviðburða á Íslandi, í Danmörku og í Sviss. Auk þess að sinna listsköpun sinni stýrir hún ljósmyndavinnustofu Listaháskólans.

Myndir þrívíðar í huganum

Verk Claudiu hafa vakið athygli á undanförnum árum, til að mynda á samsýningum í Gerðarsafni og í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, þar sem hún hefur leikið með tvívítt eðli ljósmyndarinnar og teygt þær út í rýmið í þrívíðum prentverkum. Þar sem hún sýnir mér verkin á sýningunni hef ég orð á því að hún sé í vinnuferlinu eins og gullgerðarmenn fyrri tíma, geri tilraunir með ýmis efni og gamlar ljósmyndaaðferðir, í leit að réttri útfærslu hugmyndanna.

„Þessi verk mín snúast mjög mikið um ferlið sjálft,“ segir Claudia. „Þess vegna hef ég líka áhuga á að vinna með þá spennandi ferla sem analóg-ljósmyndatækni og framköllun býður upp á; galdrar myrkraherbergisins.“

Í verkunum birtast byggingar, bæði hrörlegar og slitnar raunverulegar byggingar en líka hús sem Claudia hefur mótað í leir og síðan tekið raðir mynda af. Í einu horni salarins er til dæmis myndapar þar sem hún hefur prentað myndir af tveimur hliðum sama húss saman á hvort verk og gefur þannig tilfinningu fyrir raunverulegri þrívídd byggingarinnar í hinum annars takmarkaða tvívíða myndfleti. Í annarri röð mynda af byggingum hefur hún varpað myndformum ofan á þær í vinnslunni, til dæmis búið til gluggatjöld á hálfhrunið hús.

„Allar þessar byggingar hafa haft raunverulegt notagildi í sinni þrívídd,“ segir Claudia, til að geta skýlt einhverju og einhverjum. „Ljósmyndir gefa alltaf tilfinningu fyrir þrívídd og raunverulegu rými – en við sem áhorfendur bætum þeirri þrívídd þó alltaf við því vitaskuld er hún ekki til staðar í tvívíðum fletinum. Við gerum myndir þrívíðar í huganum.

Hér tek ég flatar myndirnar og vinn með hugmyndina um að blása þær út í þriðju víddina,“ segir hún og bendir á verk í salnum.

„Annað sem ég vinn með er viðkvæmni. Hús eru venjulega traust og standa lengi en með ljósmyndun reyni ég að sýna niðurbrot bygginganna, hús sem eru að gefa sig eða eru að færast til. Eitthvað sem maður tengir venjulega ekki við hús sem eiga að vera traust og stöðug.“

Mistekst auðvitað sífellt

Rannsóknin á þrívíðum möguleikum tvívíða flatarins tekur á sig ýmiss konar form í verkunum. Claudia segist sem ljósmyndari sem skoðar byggingar og form frá ýmsum hliðum vera eins konar flâneur sem gengur um og örvast af umhverfinu og tekur myndir af strúktúrum, arkitektúr og byggingum. „Svo bregst ég á ýmsa vegu við myndunum, leik mér með þær,“ segir hún. „Stundum læt ég þær vera áfram í tvívíðu formi prentsins en í öðrum tilvikum leik ég mér með að breyta strúktúrunum aftur í þrívídd af tvívíðri tökunni.

Auðvitað mistekst mér sífellt í því ferli því ljósmyndun er bara tvívíð,“ segir hún og brosir.

Claudia vinnur ekki með ljósmyndina sem skráningartæki veruleikans. Hún segir ljósmyndun vera alls staðar í umhverfi okkar, við höfum samskipti gegnum myndir – lifum næstum gegnum ljósmyndir. Og hún spyr hvert sé raunverulegt gildi og innihald mynda í slíku myndflæði. „Ég nota myndir meira sem efnivið í sjálfu sér, frekar en að ég reyni að segja eitthvað með ljósmyndunum sem slíkum,“ segir hún til skýringar.

„Ekkert er varanlegt, ekki í ljósmyndum, ekki í arkitektúr, og í þessum verkum tekst ég meðal annars á við það, á minn hátt.“