[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Bayern München gæti mætt Manchester City og Liverpool gæti mætt Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar karla í fótbolta, takist þessum liðum að vinna leiki sína í átta liða úrslitunum.

*Bayern München gæti mætt Manchester City og Liverpool gæti mætt Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar karla í fótbolta, takist þessum liðum að vinna leiki sína í átta liða úrslitunum. Dregið var til þeirra í gær og þar mætast Bayern – París SG, Manchester City – Dortmund, Real Madrid – Liverpool og Porto – Chelsea. Leikið verður 6. og 7. apríl og aftur 13. og 14. apríl í átta liða úrslitum en undanúrslitin fara fram frá 27. apríl til 5. maí.

*Yfirmaður knattspyrnumála hjá Örebro í Svíþjóð segir að með því að semja við Cecilíu Rán Rúnarsdóttur sem er komin til félagsins frá Fylki hafi Örebro krækt í einn af efnilegustu markvörðum Evrópu. Cecilía, sem er 17 ára gömul, á að fara beint í stöðu aðalmarkvarðar Örebro í úrvalsdeildinni þar sem aðalmarkvörður liðsins, Moa Öhman , verður frá keppni allt tímabilið.

*Sjö leikmenn frá Evrópumeisturum Bayern München eru í þýska landsliðinu í knattspyrnu sem mætir því íslenska í Duisburg 25. mars en Joachim Löw landsliðsþjálfari tilkynnti 26 manna hóp í gær. Leikmenn Bayern eru þeir Manuel Neuer , Niklas Süle, Serge Gnabry, Leon Goretzka, Joshua Kimmich, Leroy Sané og hinn 18 ára gamli nýliði Jamal Musiala . Toni Kroos frá Real Madrid er leikjahæstur með 101 landsleik. Hópinn í heild sinni má sjá á mbl.is/sport/fotbolti.

*Í Evrópudeildinni er mögulegt að ensku liðin Manchester United og Arsenal mætist í úrslitaleik í vor því þau geta ekki lent saman fram að því. Í 8-liða úrslit í drógust í gær saman Granada – Manchester United, Arsenal – Slavia Prag, Ajax – Roma og Dinamo Zagreb – Villarreal. Leikið er 8. og 15. apríl í átta liða úrslitum og 29. apríl og 6. maí í undanúrslitum. Í undanúrslitum leikur Arsenal eða Slavia við Dinamo eða Villarreal og sigurvegarinn hjá Manchester United og Granada mætir Ajax eða Roma.

*Áfrýjunardómstóll HSÍ hefur úrskurðað að leika þurfi að nýju leik Stjörnunnar og KA/Þórs í Olísdeild kvenna í handknattleik sem fram fór í Garðabæ 13. febrúar og lauk með sigri KA/Þórs, 27:26. Handbolti.is greindi frá þessu í gær en áður hafði dómstóll HSÍ úrskurðað, þann 1. mars, að úrslitin skyldu standa. Eftir leik kom í ljós að mistök voru gerð í fyrri hálfleik þegar mark sem aldrei var skorað var skráð á KA/Þór.

* Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, sagði við netmiðilinn Akureyri.net í gær að KA/Þór sætti sig ekki við niðurstöðuna þar sem hvorki HSÍ né áfrýjunardómstóllinn hefðu látið Akureyringa vita að málinu hefði verið áfrýjað. „Allar reglur í réttarfarsríki eru brotnar. Þetta er mál sem KA/Þór fer með lengra,“ sagði Sævar og fram kom að KA/Þór myndi í það minnsta óska eftir endurupptöku málsins.

* Pep Guardiola , knattspyrnustjóri Manchester City, sagði á fréttamannafundi í gær að eitt það hættulegasta við lið Everton væru aukaspyrnur sérfræðingsins Gylfa Þórs Sigurðssonar . Everton og City mætast síðdegis í dag í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á Goodison Park. Báðir aðalmarkverðir Everton, Jordan Pickford og Robin Olsson , eru meiddir og hinn 21 árs gamli Joao Virginia mun því verja mark liðsins í leiknum.

* Árni Vilhjálmsson er genginn til liðs við knattspyrnulið Breiðabliks og skrifar hann undir tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt. Árni, sem er 26 ára gamall, lék síðast með Kolos Kovalivka í úkraínsku úrvalsdeildinni. Framherjinn er uppalinn í Kópavoginum en hann á að baki 75 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 29 mörk. Hann hefur leikið sem atvinnumaður með Lilleström í Noregi, Janköpings Södra í Svíþjóð, Termalica Nieciecza í Póllandi, Chornomorets Odesa í Úkraínu og nú síðast Kolos Kovalivka á ferlinum. Þá á hann að baki einn A-landsleik fyrir Ísland og 33 leiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann hefur skorað níu mörk.

* Raphinha skoraði sigurmark Leeds þegar liðið heimsótti Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Craven Cottage í London í gær en leiknum lauk með 2:1-sigri Leeds. Patrick Bamford kom Leeds yfir á 29. mínútu áður en Joachim Andersen jafnaði metin fyrir Fulham á 38. mínútu. Leeds er í ellefta sæti deildarinnar með 39 stig.