Heiðruð Mireya tók við heiðursorðunni í sendiherrabústaðnum í gær.
Heiðruð Mireya tók við heiðursorðunni í sendiherrabústaðnum í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Myndlistarkonan Mireya Samper hlaut í gær æðstu heiðursorðu Frakka fyrir listir og bókmenntir í sendiherrabústað Frakklands.

Myndlistarkonan Mireya Samper hlaut í gær æðstu heiðursorðu Frakka fyrir listir og bókmenntir í sendiherrabústað Frakklands. Orða lista og bókmennta var fyrst afhent árið 1957 til að heiðra þá sem skara fram úr í list- eða bókmenntasköpun jafnt í Frakklandi og annars staðar, segir í tilkynningu.

Mireya Samper lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og í listaháskólanum í Marseille í Frakklandi. Hún hefur sýnt skúlptúra, innsetningar, málverk og útilistaverk um heim allan og þá meðal annars í Frakklandi, Kóreu, Íslandi, Japan og Indlandi. Hún hefur unnið við kvikmyndagerð og við sjónvarp og meðal annars unnið með Solveigu Anspach við heimildarmyndagerð. Mireya sér einnig um listahátíðina Ferska vinda í Garði annað hvert ár og hlaut hátíðin Eyrarrósina 2018.

Sendiherra Frakklands, Graham Paul, afhenti Mireyu orðuna og nefndi í ræðu sinni að hún ætti í sérstöku sambandi við Frakkland og hafi styrkt menningartengsl þess við Ísland.