Öskjuhlíðin Aparólan mun liggja frá útsýnispalli Perlunnar, fara yfir hverinn Strók og enda í skógarlundi neðar í hlíðinni. Þetta er tilraunaverkefni.
Öskjuhlíðin Aparólan mun liggja frá útsýnispalli Perlunnar, fara yfir hverinn Strók og enda í skógarlundi neðar í hlíðinni. Þetta er tilraunaverkefni.
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Aparólan langa (Zip-línan) í Öskjuhlíð verður sett upp eftir allt saman.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Aparólan langa (Zip-línan) í Öskjuhlíð verður sett upp eftir allt saman. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hafði hafnað beiðni Perlu norðursins um verkefnið en nú hefur borgarráð fallist á að línan verði sett upp sem tilraunaverkefni í eitt ár. Jafnframt samþykkti borgarráð að veita fyrirtækinu afnot af 65 fermetra svæði í Öskjuhlíð undir neðri stöð Zip-línunnar.

Eins og fram hefur komið í fréttum hyggst Perla norðursins ehf. setja upp tvær 235-250 metra langar Zip-línur sem liggja frá pöllum Perlunnar í suðurátt niður í skógarlund þar fyrir neðan. Tvær stálburðargrindur munu halda línunum uppi. Efri burðargrindin verður tengd við Perluna til að tryggja stöðugleika.

Verði umhverfinu til sóma

Neðri burðargrindin, sem verður á afnotasvæðinu sem borgin leigir út, verður byggð ofan á tvo gáma. Gámarnir og burðargrindin verða hífð á staðinn svo allt rask verði í algjöru lágmarki. Framkvæmdin öll skal miðast við að þegar gámarnir verða teknir í burtu verði umhverfisáhrif lítil sem engin, segir í samningi borgarinnar og leigutakans.

Grafa þarf fjórar holur og koma fyrir steyptum stöplum sem leigutaki skal fjarlægja við lok leigu. Leigutaki skal greiða fyrir þær framkvæmdir sem ráðist verður í á svæðinu. Allur frágangur og klæðning á gámum verði umhverfi til sóma. Fyrir afnot af lundinum í Öskjuhlíð greiðir Perla norðursins 100 þúsund krónur á ári.

Zip-línur, öðru nafni aparólur, er að finna víða um land, en þær sem settar verða upp í Öskjuhlíð verða með þeim allra lengstu. Tveir geta rennt sér í einu og er reiknað með allt að 200 gestum á hverjum degi.

Þegar skiplulagsfulltrúinn fjallaði um ósk Perlu norðursins var henni hafnað með þeim rökum að uppsetning línunnar samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi fyrir Öskjuhlíðina, né sé það vilji borgarinnar að breyta skipulaginu til að koma slíkri starfsemi inn á skipulag.

Það sé meginstefna í skipulagi Öskjuhlíðar að svæðið þjóni áfram hlutverki sínu sem einn helsti útivistarskógurinn innan þéttbýlissvæðis borgarinnar.

Fulltrúar í borgarráði hafa aðra skoðun á málinu og þar sem um tilraunaverkefni er að ræða verður ekki ráðist í vinnu við deiliskipulag.