— Ljósmynd/Hörður Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Þjóðleikhúsið auglýsti í febrúar eftir nýjum leikritum fyrir börn til að efla starfsemi leikhússins í þágu barna og hvetja til ritunar nýrra íslenskra barnaleikrita og var leikritið Kafbátur eftir Gunnar Eiríksson valið úr 150 verkum sem bárust auk þess sem fleiri handrit verða þróuð áfram. Verkið verður frumsýnt í Kúlunni í dag í leikstjórn Hörpu Arnardóttur og leikarar í sýningunni eru Birgitta Birgisdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Björn Ingi Hilmarsson, Guðrún S. Gísladóttir og Þröstur Leó Gunnarsson.

Heimur sokkinn í sæ

Í Kafbáti segir af tíu ára stúlku, Argentínu, sem ferðast um höfin með föður sínum í heimasmíðuðum kafbáti í framtíðinni þegar öll heimsins lönd hafa sokkið í sæ. Kafbáturinn er heil ævintýraveröld, eins og segir á vef leikhússins, fullur af skrýtnum uppfinningum og pabbi Argentínu segir henni skemmtilegar sögur um lífið eins og það eitt sinn var og þá m.a. af móður hennar sem þau eru að leita að. Dularfullar persónur skjóta upp kollinum og Argentína fer að efast um sannleiksgildi sagna föður síns og hvort fólk hafi virkilega alltaf þurft að búa í kafbátum.

Kafbátur er fyrsta leikrit Gunnars sem er leikari og hefur búið og starfað í Noregi stærstan hluta ævi sinnar. Bergsveinn Birgisson þýddi verkið úr norsku og um tónlist sjá tveir liðsmenn hljómsveitarinnar Moses Hightower, þeir Magnús Trygvason Eliassen og Steingrímur Teague. Leikmynd hannaði finnur Arnar Arnarsson og búninga Ásdís Guðný Guðmundsdóttir, hljóðmynd Aron Þór Arnarsson og myndbandshönnun var í höndum Heimis Freys Hlöðverssonar.

Enginn venjulegur kafbátur

„Þetta er skrítið og skemmtilegt verk um grafalvarlegt mál,“ segir leikstjóri sýningarinnar, Harpa Arnardóttir, spurð að því hvað sé heillandi við verkið Kafbát . Feðginin séu í leit að síðasta ferðaklumpinum til að setja tímavélina af stað og fara aftur í tímann til að finna móður Argentínu. „Þetta er hetjusaga, saga af hetjunni Argentínu sem stendur frammi fyrir stóru vali í lok sýningarinnar og ég vil ekki segja mikið meira um það. En kjarninn í verkinu er að allir geta lagt sitt af mörkum til að hjálpa jörðinni að verða heilbrigð á ný,“ segir Harpa.

Skemmtilegur kafbátur hefur verið búinn til í Kúlunni og segir Harpa hann mikinn ævintýraheim. „Þetta er enginn venjulegur kafbátur og þetta er skemmtileg hugmynd hjá honum Gunnari að velja pínulítið ógnvekjandi umhverfi eins og kafbát fyrir fyndna og skemmtilega sýningu.“

–Í hugum barna er þetta kannski bara ævintýrafarartæki?

„Það gæti nefnilega verið og þetta er lokaður heimur og við erum búin að spá mikið í að jörðin okkar er líka lokuð hringrás, lofthjúpurinn er lokuð hringrás, það kemur ekkert nýtt loft heldur bara stöðug endurnýjun og vatnið er lokuð hringrás. Við skrúfum frá krananum og drekkum risaeðlupiss,“ segir Harpa kímin. Ímyndunaraflið sé hins vegar ekki lokuð hringrás heldur handan tíma og rúms og þar geti allt gerst.

Harpa segir heim verksins mjög skemmtilegan og þá ekki síst af því að pabbi Argentínu er uppfinningamaður og mikið brallað um borð í kafbátnum. „Þetta er allt fullt af alls konar uppátækjum,“ segir hún.

Ungir ræktendur

Í tengslum við sýninguna munu Þjóðleikhúsið og Skógræktarfélag Kópavogs hefja samstarf sem felst í því að öll börn sem koma á barnasýningar Þjóðleikhússins út leikárið munu fá birkifræ að gjöf sem þau munu geta tekið með sér til gróðursetningar. Harpa segir að þessu geti börnin hjálpað til við að mynda súrefni og bendir á vef félagsins, skogkop.is, þar sem finna megi góðar upplýsingar um hvernig eigi að gróðursetja. „Ég bind miklar vonir við þessa ungu ræktendur. Það er hægt að rækta jörðina, vináttuna og tengslin,“ segir Harpa og þá m.a. tengslin við innri veruleika. Hún bendir á að orðið menning á ensku, „culture“, vísi til ræktunar. Menningarstarf snúist enda um að hlúa að mennskunni og rækta hina innri náttúru, að rækta andann.