Gunnar H. Gunnarsson
Gunnar H. Gunnarsson
Eftir Gunnar Hjört Gunnarsson: "Vilji Reykvíkinga er allt sem þarf og samkvæmt samkomulagi borgar og ríkisins á flugið að vera farið úr Vatnsmýri fyrir miðnætti 31. desember 2022."

Jóhann Páll Símonarson ryðst fram á ritvöllinn í Morgunblaðinu þriðjudaginn 16. mars 2021, af mikilli heift í garð þriggja áhugamanna um mannvænt og skilvirkt borgarskipulag.

Skotspænir Jóhanns Páls eru ég undirritaður, höfundur þessarar greinar, og Einar Eiríksson og Örn Sigurðsson félagar mínir. Einar ritaði faglega og vel rökstudda grein um borgarskipulag í þetta blað þann 1. mars sl. Sú grein virðist orsakavaldur bræðiskasts Jóhanns Páls.

Einar Eiríksson og Örn Sigurðsson telja réttilega að ekkert í grein Jóhanns Páls sé svara vert. Ég undirritaður kýs þó að sitja ekki þegjandi undir grófum rógburði.

Jóhann Páll telur að viðstaddir hafi brosað af sælu þegar þáverandi forsætisráðherra Ólafur Thors tók við herflugvellinum í Vatnsmýri úr hendi Breta þann 6. júlí 1946. Líklegt er þó að a.m.k. einum hafi ekki verið hlátur í huga, Bjarna Benediktssyni, þáverandi borgarstjóra í Reykjavík og flokksbróður Ólafs Thors, alnafna og afabróður núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, flokks Jóhanns Páls.

Ekki þarf mikla mannvitsbrekku til að skilja að herflugvöllurinn rataði í rangar hendur. Málið var þó útkljáð á Alþingi þar sem fjórföldu misvægi atkvæða var beitt af mikilli hörku.

Við það tilefni lagði Jónas Jónsson frá Hriflu fram þingsályktunartillögu þess efnis að flugvöllurinn skyldi rifinn og landinu skilað aftur til réttmætra eigenda. Reykjavík fékk jú jarðirnar Þóroddsstaði, Nauthól og Skildinganes úr Seltjarnarneshreppi þann 1. janúar 1932 vegna fyrirsjáanlegs og yfirvofandi skorts á heppilegu byggingarlandi í ört vaxandi höfuðborg.

Yfirtaka ríkisins á Vatnsmýrarsvæðinu 1946 var fjandsamleg og án nokkurrar réttarfarslegrar stoðar. Hún braut í bága við stjórnarskrá, skipulagslög, sveitarstjórnarlög og öll önnur lög og þekktar reglur og venjur um mannréttindi, eignarrétt og samskipti lögaðila. Engin þekkt fordæmi eru um það í nútímasögu Norður-Evrópu að átt hafi sér stað ámóta landtaka án blóðsúthellinga.

Víst er að Ólafi Thors og félögum hans var lögleysan 1946 að fullu ljós. En hins vegar getur verið að hvorki honum né ýmsum öðrum hafi þá verið meðvitaðar þær skelfilegu afleiðingar, sem af hlytust og stigmögnuðust áratug eftir áratug í 75 ár allt til dagsins í dag við það að setja niður flugvöll þar sem átti að koma ný miðborg. Ekkert lát er á eyðingarmætti þessarar vítisvélar.

Landtöku ríkisins fylgdi yfirtaka á allri lofthelgi (í 45 + 14 = 59 m hæð yfir sjávarmáli) yfir Nesinu vestan Elliðaáa og raunverulegt forræði yfir helsta skipulagi og þróun Reykjavíkur og síðar höfuðborgarsvæðisins (HBS).

Samhliða landtökunni í Vatnsmýri afhenti ríkið Flugfélagi Akureyrar herflugvöllinn til frírra afnota án lóðarleigu, stærstu lóð á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Þannig öðluðust Akureyringar mikið áhrifavald yfir borgarskipulaginu í höfuðborginni.

Afleiðingar Vatnsmýrarflugvallar eru að sönnu skelfilegar. Byggð á höfuðborgarsvæðinu er óskilvirk flatneskja, a.m.k. fjórfalt víðáttumeiri en hún hefði ella orðið án flugvallar í Vatnsmýri. Öll erindi borgarbúa eru að meðaltali a.m.k. tvöfalt lengri en ella sem og fjarlægðir frá A til B, lagnir, veitur, götur og stígar og leiðir neyðarþjónustu.

Grunnur nærþjónustu og strætó er löngu brostinn. Hér er eitt mesta bílasamfélag veraldar. Kostnaður allra er gríðarlegur, mengun og útblástur CO 2 eru verulegt vandamál. Líklega má tengja mikinn og viðvarandi landflótta um 600 Íslendinga á ári áratugum saman beint eða óbeint við afleiðingar af flugstarfsemi í Vatnsmýri.

Það eru góðar fréttir fyrir Reykvíkinga af flugvallarmálinu. Ríkið hefur ekkert formlegt vald yfir Vatnsmýrarflugvelli. Vilji Reykvíkinga sjálfra er allt sem þarf og samkvæmt gildandi samkomulagi Reykjavíkurborgar og ríkisins á flugið að vera farið úr Vatnsmýri fyrir miðnætti 31. desember 2022.

Óskandi væri að Jóhann Páll og hans félagar gerðu sér í framtíðinni far um að skoða betur heildarmyndir og samhengi hluta.

Höfundur er verkfræðingur. Hann situr í framkvæmdastjórn Samtaka um betri byggð (BB) gunnarhjortur@outlook.com

Höf.: Gunnar Hjört Gunnarsson