Þorsteinn V. Einarsson
Þorsteinn V. Einarsson
Eftir Þorstein V. Einarsson: "Frjór jarðvegur er fyrir jákvæða karlmennsku á Íslandi sé tekið mið af frásögnum karla undir myllumerkinu #karlmennskan á Twitter fyrir þremur árum."

Í mars fyrir þremur árum birtust 755 tíst undir myllumerkinu #karlmennskan og þar af 365 frásagnir frá drengjum og körlum. „Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn fór ég inn á klósett og felldi tár (grét) í einrúmi því ég lærði það snemma að karlmenn sýndu ekki þannig tilfinningar #karlmennskan“ er ein frásögnin sem birtist undir myllumerkinu. Töluvert var fjallað um tístin í fjölmiðlum enda ekki algengt að karlar tjái sig opinberlega með þeim hætti sem þeir gerðu þar. Megnið af tístunum innihélt frásagnir frá körlum eða drengjum sem lýstu því hvernig ráðandi karlmennskuhugmyndir höfðu haft neikvæð áhrif á líf þeirra. Frásagnirnar voru skýrt andóf gegn ráðandi karlmennsku og gáfu vísbendingu um að frjór jarðvegur væri til staðar á Íslandi fyrir jákvæða karlmennsku.

Bældar tilfinningar, skömm og feluleikur

„Felldi tár í sumarbústaðaferð með vinahópnum, fimm mánuðum eftir að við misstum son okkar. Sá mig samt knúinn til að segja „sorry með þetta væl í gær“, morguninn eftir,“ skrifaði einn og lýsti átakanlegum afleiðingum menningarbundinna hugmynda um karla sem veita ekki svigrúm fyrir berskjaldaðar og fullkomlega eðlilegar tilfinningar. Stærstur hluti frásagna karla innihélt lýsingar á því hvernig þeir hefðu bælt tilfinningar sínar, falið fyrir öðrum eða skammast sín fyrir að upplifa sorg, kvíða eða vanlíðan. Krafan um að vera „sterkur“, harka af sér og tjá sig ekki um líðan sína var áberandi, sem er í takt við ráðandi karlmennskuhugmyndir. „Fór langleiðina með að taka mitt eigið líf um tvítugt, keypti reipið og reyndi að gera hnút, kunni það ekki. Botninum náð og leitaði hjálpar hjá sálfræðingi, hjálpaði mér mikið og fékk aðra sýn á lífið. Hef ekki sagt fjölskyldu/vinum frá þessu því #karlmennskan – fer í það núna.“ Ráðandi karlmennskuhugmyndir gera mönnum í þessari stöðu ekki auðveldara fyrir með að opna á vanlíðan sína, viðurkenna vanmátt og leita sér hjálpar. Þótt flestar frásagnir fjölluðu um tilfinningar þá snertu þær einnig á fleiri sviðum.

„Ekki nógu karlmannlegur“

Karlar lýstu viðhorfum sem þeir höfðu mætt á sinni lífsleið eða hugmyndum sem þeir höfðu inngrónar um sjálfa sig sem drengi eða karlmenn. Vörpuðu frásagnirnar ljósi á hversu ríkjandi, stýrandi og rótgrónar hugmyndir eru um útlit, hegðun, starfsvettvang, áhugamál eða námsval karla og drengja. „Jújú, ég mátti alveg fara í saum í 8. bekk, en smíðakennarinn spurði hvort ég væri kjelling.“ Það er tæplega hægt að tala um jafnrétti og frjálst val á meðan ráðandi karlmennskuhugmyndum er troðið á börn, sem viðhalda síðar kynbundnu samfélagi sem fullorðnir einstaklingar með inngrónum hugmyndum um sjálfa sig.

Ráðandi karlmennska

Ráðandi karlmennska gerir ráð fyrir að karlar og konur séu náttúrulegt andstæðupar þar sem karlar beri að viðhafa hegðun, útlit og viðhorf á skjön við konur og kvenleika. Ráðandi karlmennska er sú tegund sem flestir þurfa að miða sig við eða taka afstöðu til, en fæstir ná að lifa upp í ímyndina sem sú tegund karlmennsku skapar. Flestir geta þó notið samsektar við ráðandi karlmennsku, einfaldlega með því að hafna henni ekki og tilheyra ákveðnum flokki fólks. Gjaldið sem greiða þarf fyrir að njóta samsektar við slíka karlmennsku getur samt falist í fyrrnefndri bælingu tilfinninga, skömm, sektarkennd og vanlíðan. Þeir sem ekki njóta samsektar eiga erfitt með að innheimta út á völdin sem ráðandi karlmennska veitir öðrum og eru eða geta upplifað sig jaðarsetta. Þetta flækist oft fyrir sumum körlum, sérstaklega þeim sem upplifa gagnrýni á karlmennsku og karllægni sem persónulega árás.

Jákvætt andóf gegn ráðandi karlmennsku

Gagnrýni á ráðandi karlmennsku og karllægni samfélagsins er ekki árás á karla heldur akkúrat þvert á móti til þess fallin að skapa drengjum og körlum aukið frelsi, fleiri tækifæri og meiri lífsgæði sem á sama tíma stuðlar að jafnrétti og mannréttindum. Frásagnirnar á Twitter voru klárlega skref í átt að jákvæðri karlmennsku og andóf gegn ráðandi karlmennsku. Við þurfum ekki á íhaldssömum karlmennskuhugmyndum að halda heldur getum við skapað frekari sess jákvæðari karlmennskuhugmyndum sem byggjast á samkennd og jafnrétti.

Höfundur er kynjafræðingur. @karlmennskan á Instagram

Höf.: Þorstein V. Einarsson