Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Mun það vera á mörgu smetti. Má það finna hrossi á. Hrikalegt á Huldukletti. Hljóðfæri það kalla má. Eysteinn Pétursson svarar: Hver með nefi sínu syngur. Svo er nefið hrossum á.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Mun það vera á mörgu smetti.

Má það finna hrossi á.

Hrikalegt á Huldukletti.

Hljóðfæri það kalla má.

Eysteinn Pétursson svarar:

Hver með nefi sínu syngur.

Svo er nefið hrossum á.

Ásýnd neflaus augu stingur.

Á svo klettum nef má sjá.

Knútur H. Ólafsson á þessa lausn:

Á andliti hverju er oftast nef,

einnig á hnakki reiðmannsins.

Kostulegt séð hef ég klettanef,

kveður við hátt í nefi söngmannsins.

Guðrún B. leysir gátuna svona:

Nef stendur hátt á henni.

Hnakknef á sumum jó.

Að Hulduklettsnefinu nenni.

Með nefi sínu lag bjó.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Nef oss er af Guði gefið.

Á Grána mínum konungsnef.

Kunnuglegt er kletta nefið.

Kveður fugl með nefi stef.

Þá er limra eftir Guðmund:

Þið kannist við Afa frá Knerri,

sem kverkmæltur skrollar á erri,

með ógnar stórt nef,

og ef hann fær kvef

kemur út úr því risastór hnerri.

Og síðan ný gáta eftir Guðmund:

Næturkyrrð mig núna sveik,

náttúruöflin fóru á kreik,

gátu samt ég sendi þá,

sem í skyndi hrökk mér frá:

Mörg á akri megum sjá.

Mörg þau koma skáldum frá.

Dömum þarfaþing ég tel.

Þykja skreyta herra vel.

Ég hitti Ingimund Jónsson í Kaffivagninum og hann kenndi mér þessa stöku:

Enginn fyrir endann sér

á alheims covid-stríði

en mikilvægast enn þá er

að allir hlýði Víði.

Örn Arnarson kvað:

Mér varð allt að ís og snjó.

Oft var svalt í förum.

Ekki skaltu undrast þó

andi kalt úr svörum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is