<strong>Chadwick Boseman:</strong> Ma Rainey's Black Bottom.
Chadwick Boseman: Ma Rainey's Black Bottom. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tilnefningar til Óskarsverðlauna voru kunngjörðar í vikunni. Góðkunningja akademíunnar er að finna á listunum tveimur yfir bestan leik í aðalhlutverki í bland við ný og spennandi nöfn. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Þrjár ungar leikkonur og tvær eldri og reynslumeiri bítast um Óskarsverðlaunin fyrir bestan leik í aðalhlutverki.

Elst er hin bandaríska Frances McDormand, 63 ára, sem hlýtur tilnefningu fyrir frammistöðu sína í Nomadland eftir Chloé Zhao. Þar leikur hún konu sem misst hefur eiginmann sinn og vinnuna og bregst við með því að selja allar eigur sínar og leggja land undir fót á húsbíl í leit að nýrri vinnu og eftir atvikum ævintýrum. McDormand er tvöfaldur Óskarsverðlaunahafi í þessum flokki, vann fyrst fyrir Fargo 1997 og síðan fyrir Three Billboards Outside Ebbing, Missouri 2018. Þá hefur hún í þrígang verið tilnefnd fyrir bestan leik í aukahlutverki án þess að fara með styttuna heim; fyrir Mississippi Burning 1989, Almost Famous 2001 og North Country 2006. Sumsé vön manneskja.

Bandaríska leikkonan Viola Davis, 55 ára, hefur einu sinni áður verið tilnefnd fyrir framgang sinn í aðalhlutverki; fyrir The Help 2011. Hún fór ekki með sigur af hólmi í það skipti. Davis vann hins vegar Óskarinn sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir Fences 2016. Hún var einnig tilnefnd í þeim flokki fyrir Doubt 2008. Í ár er Davis tilnefnd fyrir titilhlutverkið í myndinni Ma Rainey's Black Bottom eftir George C. Wolfe. Þar ferðumst við aftur til ársins 1927 og kynnumst virtri þeldökkri blússöngkonu, Ma Rainey, sem komin er á mála hjá hvítum útgefanda – sem ekki var hlaupið að á þeim tíma.

Hin bandaríska Andra Day, 36 ára, er þekktari sem söngkona en leikkona en fékk stóra tækifærið í mynd Lee Daniels The United States vs. Billie Holiday, þar sem hún fer með titilhlutverkið. Þetta er hennar fyrsta tilnefning til Óskarsverðlauna en Day vann á dögunum Gullhnöttinn fyrir bestan leik í dramahlutverki. Myndin fjallar um ævi hinnar ástsælu söngkonu en árið 1940 flæktist hún inn í baráttu yfirvalda vestra gegn fíkniefnum en markmiðið var að fá Holiday til að hætta að syngja lagið umdeilda Strange Fruit.

Hin breska Carey Mulligan, 35 ára, er sú eina af yngri leikkonunum sem áður hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna, fyrir bestan leik í aðalhlutverki í An Education 2009, myndinni sem gerði hana að stjörnu á einni nóttu. Hún vann ekki þá. Mulligan hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína í Promising Young Woman, sem er frumraun leikstjórans Emerald Fennell. Þar leikur hún unga konu sem flosnað hefur upp úr læknanámi og býr heima hjá foreldrum sínum eftir áfall sem hún varð fyrir þegar bestu vinkonu hennar var nauðgað af samnemanda þeirra. Hún svipti sig í framhaldinu lífi. Að því kemur að karakter Mulligan sker upp herör gegn fjölþreifnum körlum og þá sérstaklega nauðgara vinkonu hennar.

Síðast en ekki síst er breska leikkonan Vanessa Kirby, 32 ára, tilnefnd í fyrsta sinn fyrir leik sinn í Pieces of a Woman eftir Kornél Mundruczó. Þar fer hún með hlutverk konu sem missir sitt fyrsta barn í fæðingu. Ljósmóðurinni er í kjölfarið stefnt fyrir vanrækslu og brestir koma í samband foreldranna þegar móðirin ákveður að ánafna vísindunum jarðneskar leifar barnsins. Fram að þessu er Kirby líklega þekktust fyrir að hafa farið með hlutverk Margrétar prinsessu í bresku sjónvarpsþáttunum Krúnunni frá 2016 til 2017.

Gömul nöfn og ný

Hjá körlunum ber fyrstan að telja Wales-verjann Sir Anthony Hopkins, 83 ára, sem tilnefndur er fyrir leik sinn í Father í leikstjórn Florians Zellers. Hann leikur þar eldri mann sem býr hjá dóttur sinni og glímir í vaxandi mæli við minnistap með tilheyrandi angist. Þetta er fjórða tilnefning Hopkins í þessum flokki og hann hefur einu sinni unnið, fyrir Silence of the Lambs 1992. Hinar myndirnar eru The Remains of the Day 1994 og Nixon 1996. Þá var Hopkins tilnefndur sem besti leikari í aukahlutverki fyrir Amistad 1998 og The Two Popes í fyrra.

Annar góðkunningi akademíunnar, Bretinn Gary Oldman, sem heldur upp á 63 ára afmæli sitt í dag, á líka ein Óskarsverðlaun að baki, fyrir túlkun sína á Winston Churchill í Darkest Hour 2018. Hann var einnig tilnefndur fyrir Tinker Tailor Soldier Spy 2012. Að þessu sinni er myndin Mank eftir David Fincher en hún fjallar um handritshöfundinn Herman J. Mankiewicz og glímu hans við handritið að hinni rómuðu mynd Citizen Kane sem hann samdi ásamt Orson Welles og frumsýnd var 1941.

Bandaríkjamaðurinn Chadwick Boseman hlýtur nú sína fyrstu tilnefningu til Óskarsverðlauna að sér látnum en hann tapaði baráttu sinni við krabbamein síðasta sumar, aðeins 43 ára að aldri. Hann leikur hinn sjálfsörugga trompetleikara Levee Green í fyrrnefndri Ma Rainey's Black Bottom í sínu síðasta hlutverki.

Breski leikarinn og tónlistarmaðurinn Riz Ahmed, 38 ára, er líka að fá sína fyrstu Óskarstilnefningu en hann fer með aðalhlutverkið í mynd Dariusar Marders Sound of Metal. Hann er jafnframt fyrsti músliminn til að fá tilnefningu í þessum flokki. Í myndinni leikur hann málmtrymbil sem skyndilega fer að tapa heyrninni. Það reynir verulega á enda maðurinn fíkill í bata og hefur lifibrauð sitt af flutningi háværrar tónlistar sem læknar ráðleggja honum að halda sig frá. Ahmed hefur verið býsna áberandi eftir að hann sló í gegn í Nightcrawler 2014 en hann starfar einnig sem tónlistarmaður og hefur sent frá sér tvær breiðskífur, þá seinni á síðasta ári.

Yngstur á listanum karlamegin er kóresk/bandaríski leikarinn Steven Yeun, 37 ára, en hann er tilnefndur fyrir Minari, sem Lee Isaac Chung leikstýrir. Hann leikur kóresk-bandarískan föður sem flytur með fjölskylduna frá Kaliforníu til Arkansas, þar sem hann hyggst freista gæfunnar og rækta kóreskar vörur. Þetta er fyrsta Óskarstilnefning Stevens Yeuns en margir muna líklega eftir honum úr sjónvarpsþáttunum The Walking Dead.

Megi þau bestu vinna!