— Morgunblaðið/Eggert
Við sama tækifæri í síðustu viku voru nefnd nýleg skrif um Joe Biden ættuð úr amerískri útgáfu af Spectator. Þar var sagt að svo væri komið að næstum mætti flokka það undir grimmd að hefja um það umræðu opinberlega. En um leið væri það sýnu meira grimmdarverk af hálfu Demókrataflokksins að fara svona illa með hrakandi eldri mann, og blekkja kjósendur í kosningum og halda því áfram eftir þær, og svívirða með því lýðræðið.

Við sama tækifæri í síðustu viku voru nefnd nýleg skrif um Joe Biden ættuð úr amerískri útgáfu af Spectator. Þar var sagt að svo væri komið að næstum mætti flokka það undir grimmd að hefja um það umræðu opinberlega. En um leið væri það sýnu meira grimmdarverk af hálfu Demókrataflokksins að fara svona illa með hrakandi eldri mann, og blekkja kjósendur í kosningum og halda því áfram eftir þær, og svívirða með því lýðræðið.

Hálaunaðir hjálparkokkar

Og vissulega er það einskonar sjálfspynding að fylgjast með þróuninni og hvernig hið raunverulega fórnarlamb er teymt á hvern flóttann á fætur öðrum til að freista þess að draga það að blekkingin komist að endimörkum.

Biden er ekki sendur í sjónvarpssamtöl nema til innvígðra og eiðsvarinna. Síðast var einn helsti hjálparkokkur í Hvíta húsi Clintons, George Stephanopoulos, fengin til að sjá um „spurningarnar“ en forsetinn sat með svarmiðana sína í kjöltunni, enda er ekki lengur reynt að fela að velviljaðir innanbúðarmenn líti aðeins á samtölin sem gagnkvæman upplestur. En þótt sá hafi örugglega ekki ætlað sér annað en að forða gestinum frá heimilisslysum, þá fór það svo að Biden missti það út úr sér að Pútín forseti „væri morðingi.“ Og þegar forsetinn bætti því við að Pútín ætti eftir að gjalda það þungu verði að hafa haft áhrif á forsetakosningarnar 2020 fór í enn verra.

Það hefði verið meira í stíl hefði karl nefnt kosningarnar 2016. En að svo miklu leyti sem „átt var við“ kosningarnar 2020 sá Demókrataflokkurinn um það allt sjálfur. Um það er í rauninni ekki deilt heldur eingöngu hvort að allt það umfangsmikla fikt „að og frá og í kjörkössunum“ hafi ráðið úrslitum þá eða ekki.

Varðandi „afskipti Rússa“ af kosningunum 2016 þá var það allt rannsakað í mörg ár af sérstökum saksóknara sem safnað hafði í kringum sig tugum annarra saksóknara, nær allra úr hópi demókrata, og voru margir þeirra frægir fyrir vægðarleysi og harkaleg og jafnvel einkennileg vinnubrögð.

Það var því örugglega ekki þeim að kenna að ekkert hafðist upp úr öllu krafsinu þótt eytt væri milljörðum í verkið og fjöldi manna var handtekinn og komið í fangelsi, en flestir síðar náðaðir.

Morðingjastimpillinn

En það er að minnsta kosti harla óvenjulegt að sitjandi Bandaríkjaforseti tilkynni óvænt í „beinni útsendingu,“ að starfsbróðir hans í Rússlandi sé morðingi. Það má gefa sér að Biden hafi ekki átt við að Pútín gengi um prívat og persónulega sveiflandi skammbyssunni eins og væri hann með lögheimili í Síkakó vestra og dræpi mann og annan eins og henti jafnvel bestu menn í gömlum íslenskum skinnbókum.

En hvað átti hann þá við?

Þess má minnast að 26. febrúar var tilkynnt að Joe Biden hefði gefið og látið framkvæma fyrstu fyrirmæli sín um árás á annað ríki og varð Sýrland fyrir valinu. Pentagon taldi að ekki færri en 22 hefðu látist í árásinni og hún hefði einnig að öðru leyti heppnast vel því að eyðilegging á mannvirkjum og búnaði hefði verið í samræmi við væntingar. Stutt er að minnast þess að John Bolton, öryggisráðgjafi Donalds Trumps, hvarf úr því starfi og skrifaði í kjölfarið bók til að styrkja fjárhagslega stöðu sína, eins og tíðast þar vestra. Þar kom m.a. fram að ágreiningur varð á milli þeirra þegar að forsetinn hafnaði tillögu um hefndarárás á Íran eftir að klerkastjórnin skaut niður bandarískan herdróna.

Ráðgjafinn og herinn höfðu fundið skotmark sem þeir mæltu eindregið með. „Er gert ráð fyrir manntjóni,“ spurði forsetinn. Ekki var talið að það yrði umtalsvert, og nefnt var matið 5 tugir manna. „Það fórst enginn þegar að dróninn okkar var eyðilagður. Ég hefni hans ekki með því að farga 50 mannslífum,“ var svar forsetans.

Bolton taldi ákvörðunina sýna að forsetinn væri veiklundaður.

Hvenær drepa forsetar mann og hvenær ekki?

En spurning dagsins er hins vegar sú, hvort að Biden teldi í lagi ef Pútín kallaði hann morðingja af þessum velheppnuðu aðgerðum í Sýrlandi. Það má ekki gleyma því að Obama hefur sjálfur sagt frá því að hann hafi tekið þátt í því að velja og samþykkja skotmörk á Arabíuskaga. Það voru í meginatriðum fólk, meintir skæruliðar eða hermdarverkamenn, sem fengu kveðju frá honum úr heiðskíru lofti enda lítið um hervirki þar.

Það má reyndar alls ekki útiloka að réttlæta hafi mátt margar þessara árása. En það liggur þó rækilega fyrir að það voru ekki hin sérvöldu fórnarlömb ein sem féllu í þessum árásum. Þar voru þeir sem saman fá það óvirðulega heiti „collateral damage.“ Stundum voru fórnarlömbin jú að tala í farsíma sína og vissu ekki að símarnir þeirra leiðbeindu drónunum á skotmarkið. Og drónarnir „vissu“ ekki hverjir voru í næsta nágrenni við hinn dauðadæmda spjallara og var nokk sama um það, af því að þeir eru drónar.

En Obama varð friðarverðlaunahafi Nóbels fyrir það eitt að ná kjöri gegn McCain forsetaframbjóðanda hinna. Nefndin gerði aldrei minnstu athugasemd við val Obama á fórnarlömbum úr órafjarlægð í algjöru öryggi í Hvíta húsinu. Og ekki að hann skyldi taka þátt í og heimila „vorhreingerninguna“ fyrir „botni Miðjarðarhafs,“ sem er einhver misheppnaðasta aðgerð síðustu áratuga. Þeir velja einungis húmorista í þessa verðlaunanefnd Nóbels.

En það er hins vegar athyglisvert að Obama segir í bók sinni A Promised Land að Joe Biden, þá varaforseti, hafi lagst gegn árásinni á felustað Osama bin Laden nóttina 1.-2. maí 2011. Segir Obama að Biden hafi með því sýnt hugrekki og varfærni í senn þar sem nær allir aðrir í hópnum, sem naut trúnaðar til að vera nærri þeirri ákvörðun, hefðu viljað láta slag standa.

Skjáskot trufla skrif

Í þessum skrifuðu orðum birtast myndir á skjánum þar sem Biden forseti fer upp stigann inn í reisulega forsetaflugvélina og fellur um koll. Það getur alltaf gerst og fátt um það að segja. En framhaldið varð einkennilegt. Hann stendur upp, en fellur þá aftur. Og enn stendur Biden upp og heldur brattur af stað en fellur þá enn og er það fall hvað mest.

Eftir nokkurt mas og óþægilegt upplit fyrir áhorfendur, hefur forsetinn sig þó sjálfur upp og fer svo bærilega léttstígur upp síðustu tröppurnar og kveður.

Það eru alltaf fordæmi

Þeir, sem telja lítinn vafa á að Biden sé alls ekki bær til að gegna valdamesta forsetaembætti veraldar, vegna veiklaðra krafta, bæði líkamlegra sem andlegra, telja þetta atvik örugglega styrkja sinn málstað. En aðrir geta minnt á svipuð atvik þar sem aðrir forsetar eiga í hlut. Gerald Ford var allt að því frægur fyrir að detta um koll á óþægilegum opinberum stundum. Og ekki bara það. Hann hleypti vælandi hundi sínum út að pissa í Hvíta húsinu og hurðin skall á eftir honum og hann komst ekki aftur upp í forsetaíbúðina og náði ekki í nokkurn mann til að hjálpa sér og varð að ráfa þar um furðu lengi. Og Biden hafði það fram yfir Ford að hann datt í flugvélarstiganum á leiðinni upp hann, en hin leiðin er mun varasamari eins og Ford fékk að finna fyrir.

Það var alþekkt að Trump forseti átti erfitt með að fara niður stiga eða halla, eins og í Rósagarðinum, og gætti sín augljóslega vel. Eitt sinn greip hann þéttingsfast í Theresu May (sem hann treysti ekki að öðru leyti) er þau gengu frá „Oval“ skrifstofunni í aflíðandi halla.

Bush eldri sat dýrðlegan hátíðarkvöldverð í boði japanska forsætisráðherrans, að viðstöddu prúðbúnu fjölmenni, þegar honum varð bumbult og kastaði skyndilega kröftuglega upp svo að minnstu munaði, að fyrrverandi góðgætið færi allt í kjöltu næsta manns, sem var forsætisráðherrann.

Þessir valdamiklu menn lúta með öðrum orðum svipuðum lögmálum um flest og aðrir í lægri þrepum mannheima.

Biden hefur svo oft orðið fótaskortur á tungunni upp á síðkastið að það var eiginlega orðið tímabært að fótaskorturinn yrði loksins þar sem hann á helst heima. En það væri ósanngjarnt, eins og fyrrnefnd dæmi og önnur sýna, að leggja þessi fótaskortsdæmi saman í eitt.

En það var sérstaklega eftirtektarvert hvernig Pútín brást við útnefningu Bidens á honum sem morðingja. Hann gerði það í tveimur harla ólíkum skrefum. Hann kallaði sendiherra Rússlands í Washington tafarlaust heim þaðan. Það er mjög hart viðbragð á mælikvarða diplómatíunnar. En hitt var úthugsað og snjallt. Hann bauð forseta Bandaríkjanna til opinberrar umræðu um hið klaufalega útspil hans. Boðinu var þegar í stað hafnað. Og um allan heim var sagt manna á milli: Biden á ekkert í slíkan slag við Pútín. Pútín situr reglubundið á margra klukkutíma blaðamannafundi með hundruðum fréttamanna. Situr einn við borð sitt með aðstoðarmenn langan veg frá. En Biden? Hann hefur enn ekki lagt í að halda opinn fund með blaðamönnum vestra.

Boð Pútíns og viðbrögðin við því voru mjög óþægileg, þótt engum dytti í hug að það yrði þegið og enginn gat vitað hvort það væri í alvöru meint.

Veit að hverju er stefnt en veldur ekki viðbrögðum

En eitt vekur spurningar. Biden hlýtur að vera meðvitaður um það, að þeir sem settu mark sitt á söguþráðinn um karlinn í kjallaranum, sem kæmist undan veruleika kosningabaráttu í krafti kóvíð, létu sér ekki það nægja. Karlinn í kjallaranum var aðeins upphafið. Alþekkt er að forsendan fyrir farsælum reyfara er að lokapunktur hans hafi verið í greip höfundarins alveg frá upphafi og snilldin felst svo í að skrifa sig í átt að honum, án þess að lesandinn fái neitt við ráðið.

Kamala Harris hafði metnað í metravís. En almennum demókrötum féll ekki við hana og hún féll snemma út úr prófkjörsbaráttunni. Hún náði hins vegar vopnum sínum á ný í gegnum stjórnmálalegan rétttrúnað um lit og kyn og aldur, en ekkert af þessu bauð Biden lengur upp á.

Hún eygir nú að komast bakdyramegin inn í höll valdsins, sem kjósendur voru alls ekki spenntir fyrir.

Tekið er eftir því að hún er látin hringja í leiðtoga fjarlægra ríkja sem forsetinn hefur ekki þrek til að standa í. Hann tekur það sem hann neyðist til en ekki meira.

En Biden og ekki síst frú hans ættu að vera mjög meðvituð um hvernig þessi reyfari endar. Og eins hitt að klukkan gengur mjög hratt á þau og því eru aðeins efni í mjög stuttan söguþráð.

Það er þó ekkert víst að Biden fyrirtækið hafi samþykkt þennan þráð, þennan hraða og þessi sögulok, þótt þau séu meðvituð um hann og telji hann hugsanlega óhjákvæmilegan, en vilji reyna að ráða nokkru um það.

Það er mikið í húfi fyrir soninn og bróðurinn og milljarðana alla sem þeir hafa haugað saman í krafti þess gamla í áratugi. Biden, hin farsæla peningamylla þeirra frænda, fær ekki að fara úr sínu sæti fyrr en hann hefur notað það vald sem er mikilvægast fyrir þá. Og Biden þekkir söguna og veit hvað er hægt að leyfa sér. Fordæmi flokksbræðranna eru fræg. Á seinasta degi í embætti sínu náðaði Bill bróður sinn Roger. Og hann náðaði líka bróður Hillary, Tony Rodham.

En það skrítna er að þótt Biden og Jill kona hans, sem vakir yfir hverju skrefi Joe (nema í stiganum), hljóti að vera óþægilega meðvituð um fyrirliggjandi söguþráð í öryggishólfi demókrata, ná þau ekki að gæta sín. Og ekki Kamala Harris heldur. Sýnd eru brot í sjónvarpi við ólík tækifæri þar sem Biden verður hvað eftir annað á að kalla varaforseta sinn „Harris forseta (President Harris).“ Vandinn er að þeir sem útbúa minnismiðana fyrir forsetann höfðu ekki haft ímyndunarafl til að passa þetta. En það óþægilega er að Kamala Harris hefur iðulega og eins og óviljandi, að erlendum gestum viðstöddum, talað um Harris og Biden forsetateymið (Harris and Biden administration). Hefðin er sú að ráðuneytið er aðeins kennt við forsetann einan, rétt eins og ráðuneyti hér og annars staðar eru kennd við forsætisráðherrann einan.

En kannski þykir klókt að venja landa sína sem fyrst við hið óhjákvæmilega og að tryggja að breytingin komi svo eins og af sjálfu sér.

Og það hafi allir alltaf vitað.