Í góðum málum Bjartur á Bjöllunni og Bjagga bjarga buddunni.
Í góðum málum Bjartur á Bjöllunni og Bjagga bjarga buddunni.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Bjartur á Bjöllunni hefur lagt sitt af mörkum til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins með reglulegum hnyttnum skemmtiþáttum í ólæstri dagskrá á síðu sinni á fésbókinni undanfarna mánuði. Í nýjasta þættinum kynnir hann Bjöggu til sögunnar og saman bjarga þau buddunni með eftirminnilegum hætti. „Hann er í góðum málum núna,“ segir maðurinn á bak við Bjart, húsasmíðameistarinn Ólafur Sæmundsson, verkefnastjóri TVT og byggingarstjóri Íslandshótels í Lækjargötu í Reykjavík, en Sólveig Magnúsdóttir er í hlutverki Bjöggu.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Bjartur á Bjöllunni hefur lagt sitt af mörkum til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins með reglulegum hnyttnum skemmtiþáttum í ólæstri dagskrá á síðu sinni á fésbókinni undanfarna mánuði. Í nýjasta þættinum kynnir hann Bjöggu til sögunnar og saman bjarga þau buddunni með eftirminnilegum hætti. „Hann er í góðum málum núna,“ segir maðurinn á bak við Bjart, húsasmíðameistarinn Ólafur Sæmundsson, verkefnastjóri TVT og byggingarstjóri Íslandshótels í Lækjargötu í Reykjavík, en Sólveig Magnúsdóttir er í hlutverki Bjöggu.

Í fyrrahaust fór Ólafur ásamt tengdasyni sínum norður á Sauðárkrók og keyptu þeir Volkswagen-bjöllu, árgerð 1967. Fluttu þeir bjölluna á vagni sem þeir drógu suður. Ólafur fylgdist með umferðinni á eftir þeim og sagði tengdasyninum hvað eftir annað að hann þyrfti að víkja því einhver væri að reyna að komast fram úr. „Gamli karlinn í bílnum fyrir aftan lét mig ekki í friði, kom til mín öllum stundum og var stöðugt í kollinum, og svo fór að ég byrjaði að leggja honum orð í munn, ýmsa frasa og misskilning, sem ég heyrði hér og þar,“ segir hann um tilurð Bjarts. „Ég hef lengi haft gaman af því að segja örsögur og grínsögur til þess að létta andrúmsloftið, hef þá gjarnan notað orðfæri líðandi stundar í helstu málum sem grunn.“

Upphaflega voru þættirnir hugsaðir til að létta lund landsmanna í veirufaraldrinum. „Yfir 60.000 manns horfðu á fyrsta þáttinn og það gaf mér byr undir báða vængi,“ segir Ólafur. Þá var hávær umræða um að ökuskírteini væru komin í símann og Bjartur var fljótur að tileinka sér tæknina; varð sér úti um gamlan, svartan Ericsson-borðsíma, þar sem hann kom fyrir skírteinum og peningum, og þegar lögreglan bað hann um ökuskírteinið tók hann fram tækið og dró skírteinið úr því. „Síðan hefur hann dröslast með símann í öllum þáttunum, því hann borgar allt með símanum. Fyrir jólin uppfærði hann svo hlunkinn, festi gamla litla myndavél á hann, því allir eru með myndavél í símanum.“

Grímuskylda í um 40 ár

Gríma Elva Ársælsdóttir, eiginkona Ólafs, benti honum eitt sinn á er þau voru á akstri heim á leið, að hann gæfi ekki stefnuljós. Það varð til þess að Bjartur gaf lögregluþjóni að gefnu tilefni stefnuljós í einum þættinum. „Þið eruð allir eins, þessir ungu menn, haldið að maður geti gefið og gefið,“ hermir hann eftir Bjarti. „Ég skal bara gefa þér þetta stefnuljós.“

Ólafur er frá Patreksfirði og ólst þar upp. Hann byrjaði ungur að herma eftir körlunum í þorpinu og stundum þjóðþekktum persónum, segir að það hafi verið hálfgerð þjóðaríþrótt þar eins og víða annarsstaðar. Ekkert sjónvarp hafi verið á fimmtudögum og þá hafi frændur gjarnan komið í heimsókn til föður síns og sagt sögur með tilheyrandi látbragði. „Þótt þeir væru bara tveir var eins og allir þorpsbúar væru samankomnir og Barðstrendingar líka, því þeir hermdu eftir öllum og bjuggu til sögur. Þetta var eins og besti skopleikur hverju sinni og ég féll fyrir þessu formi.“

Með árunum hefur það æxlast svo að Ólafur er oft beðinn um að vera veislustjóri og uppistandari. Meðal annars var hann með uppistand sem hluta viðamikillar dagskrár fyrir 1.600 manns í Hörpu og fékk atriði hans mikið lof gesta. Eitt sinn var hann með tölu á samkomu þar sem Pálmi Gestsson leikari var staddur, en hann hafði þá verið tilnefndur til Edduverðlauna, sem voru afhent sama kvöld. „Ég vakti athygli á því en benti jafnframt á að sjálfur hefði ég fengið Grímuverðlaunin fyrir mörgum áratugum en það var þegar elskulegur tengdafaðir minn gaf mér dóttur sína, hana Grímu mína. Þegar rætt hefur verið um andlitsgrímur í faraldrinum hef ég líka bent á að mín Grímuskylda hafi byrjað fyrir tæplega 40 árum.“

Bjartur er, eins og Ólafur, mikill stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og trúr stefnunni. „Í akstri tekur Bjartur helst ekki vinstri beygju og svið eru uppáhaldsmatur hans en hann borðar bara hægri kjammann, því hann er bestur,“ segir Ólafur og líkir eftir Bjarti. „Þetta er góður karl, stundum aðeins pirraður, en hann vill vera sjálfstæður framsýnn alþýðumaður.“