Í Hafnarfirði Ólafur og Libia á sýningu sinni Töfrafundur í Hafnarborg.
Í Hafnarfirði Ólafur og Libia á sýningu sinni Töfrafundur í Hafnarborg. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Sýningin Töfrafundur verður opnuð í Hafnarborg í Hafnarfirði í dag milli kl. 12 og 17.

Sýningin Töfrafundur verður opnuð í Hafnarborg í Hafnarfirði í dag milli kl. 12 og 17. Á henni má sjá verk eftir myndlistartvíeykið Libiu Castro & Ólaf Ólafsson, fjöltæknimyndbandsinnsetninguna „Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland“ sem unnin var upp úr samnefndum gjörningi sem fram fór í Listasafni Reykjavíkur 3. október í fyrra og var á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík en Ólafur & Libia hlutu Íslensku myndlistarverðlaunin fyrir hann á dögunum.

Einnar rásar vídeóútgáfu af verkinu verður sjónvarpað á RÚV meðan á sýningunni stendur, að því er fram kemur á vef Hafnarborgar og verður sú útgáfa verksins líka sýnd einu sinni í Listasafninu á Akureyri, í Skaftfelli listamiðstöð á Seyðisfirði og í Galleríi Úthverfu á Ísafirði.

Í gjörningnum „Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland“ fengu þau Libia og Ólafur til liðs við sig „Töfrateymið“, hóp ólíkra tónskálda, innlendra sem erlendra, tónlistarfólks, samtaka, aðgerðasinna og almennra borgara til þess að skapa í samstarfi fjölradda tónlistar- og myndlistargjörning við allar 114 greinar nýju íslensku stjórnarskrártillögunnar frá 2011, segir á vef safnsins og í Hafnarborg má sjá upptöku af gjörningnum í heild sinni, skissur og teikningar tengdar honum og undirbúningi hans sem og fána, skilti og slagorð sem notuð voru.

Einnig má á sýningunni sjá verkið „Stjórnarskrá er ferli“ sem Ólafur og Libia hafa áður sýnt í Gerðarsafni í Kópavogi. Á vef Hafnarborgar er rifjað upp að ráðist hafi verið í ritun nýrrar stjórnarskrár árið 2008 og fór ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla fram 20. október 2012 þar sem meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði taldi að leggja ætti tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Sú hefur ekki verið lögfest af Alþingi og segir á vef Hafnarborgar að Libia & Ólafur og Töfrateymið vilji „virkja umboð og töfra listarinnar til að takast á við það mikilvæga mál sem krafan um nýju stjórnarskrána er“.

Aðgangur mikilvægur

Ólafur er spurður að því hvort sýningin í Hafnarborg sé samantekt á vinnu þeirra Libiu við stjórnarskrárnar og segir hann hana bæði samantekt en líka snúast um tíma. „Svona gjörningur stendur yfir í einn dag og það stóð alltaf til hjá okkur að taka hann upp og gera mynd og þá er okkar vettvangur, sem myndlistarfólk, sýning,“ segir Ólafur og rifjar upp að fyrir tíu árum síðan hafi þau Libia gert sjónvarpsmynd með RÚV þar sem núverandi stjórnarskrá var flutt í heild sinni með listrænum hætti. Þá, líkt og nú, vilji þau ná til sem flestra með því að sýna líka í ríkissjónvarpinu. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvenær RÚV mun sýna vídeóútgáfu af „Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland“.

Ólafur segir þetta snúast um að ná til fólks og minnir á að einn af grunnþáttum listarinnar sé að ná til fólks. „Við höfum mikinn áhuga á að vinna verkin fyrir fólk og leggjum mikið upp úr því að fólk hafi aðgang að verkunum.“

Varðandi heiti sýningarinnar segir Ólafur að í gjörningnum hafi þau verið í leit að töfrum og nú sé búið að finna þá, í flutningi verksins. „Um leið er fundur samkoma,“ bætir Ólafur við.

Hvað næstu verkefni varðar segir Ólafur að þau Libia séu að vinna í því að sýna verkið í öðrum löndum og þar sem þau séu að vinna með opið samfélagsferli, mál nýju stjórnarskrárinnar sem sé alls ekki lokið, sé ófyrirséð hvort og hvernig verkefnið haldi áfram.

elgisnaer@mbl.is