Hópurinn sigldi mikið um Grænland og myndaði stórkostlega náttúruna.
Hópurinn sigldi mikið um Grænland og myndaði stórkostlega náttúruna. — Ljósmynd/Kidda
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áhugaljósmyndarar á Suðurlandi eru þó nokkrir og eru margir þeirra í ljósmyndaklúbbnum Bliki. Þar hittist fólk á öllum aldri sem deilir ástríðu fyrir ljósmyndun. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Ljósmyndaklúbburinn Blik á Suðurlandi var stofnaður árið 2008 og eru félagar rúmlega fimmtíu. Kristín Snorradóttir Waagfjörð, kölluð Kidda, gekk í klúbbinn fyrir fjórum árum og var fljótlega komin í ferðanefnd og kynningarnefnd.

„Klúbbmeðlimir hittast hálfsmánaðarlega yfir vetrarmánuðina í sal á Selfossi þar sem við erum að sýna hvert öðru myndir og svo fáum við oft atvinnuljósmyndara til að koma og halda fyrirlestra. Við höfum fengið til okkar Rax, Sissu og Spessa svo einhverjir séu nefndir. Þeir hafa verið viljugir að koma og sýna okkur hvað þeir eru að gera og kenna okkur ýmislegt,“ segir Kidda.

„En auðvitað hefur starfsemin okkar mikið legið niðri undanfarið vegna Covid. Við fórum í eina dagsferð í febrúar í fyrra og dagsferð á Þingvallasvæðið, en við förum gjarnan í dagsferðir og tökum myndir. Svo höfum við farið utan í ferðir en 2018 fórum við til Færeyja og 2019 til Grænlands. Ég var að undirbúa ferð til Noregs þegar Covid skall á þannig að hún frestast til 2022,“ segir Kidda og segir hópinn mjög skemmtilegan.

„Þarna er fólk á öllum aldri, af öllum stéttum,“ segir Kidda og segir ekki nauðsynlegt að búa á Suðurlandi til að fá inngöngu í klúbbinn. Hún býr í Reykjavík og keyrir á Selfoss á fundi.

„Ég bjó á Hellu þegar ég byrjaði í klúbbnum. En þótt flestir séu af Suðurlandi eru allir velkomnir í klúbbinn,“ segir hún og tekur fram að fólk þurfi ekki að hafa reynslu á sviði ljósmyndunar, fólk getur skoðað klúbbinn á http://www.blik.is og gengið í hann þar líka.

„Síðustu ár höfum við sett upp ljósmyndasýningar á Hótel Selfossi sem standa í ár í senn,“ segir Kidda sem segir sýninguna opna núna og allar myndir þar eru til sölu.

Ólst upp við ljósmyndun

Kidda hefur verið haldin ljósmyndabakteríunni síðan hún var lítil stelpa.

„Pabbi heitinn átti flottar myndavélar; Hasselblad og Rolleyflex, Leica og fleira. Ég ólst upp við ljósmyndun og lærði að framkalla í skólanum þegar ég er unglingur. Svo keypti ég mér almennilega vél þegar ég var þrítug,“ segir Kidda og segist gjarnan vera með myndavél um hálsinn.

„Ljósmyndun fyrir mér er heilun. Mér finnst gaman að taka myndir af börnum í leik og svo náttúrunni og af dýrum. Ég fjárfesti í góðum linsum í fyrra og ferðaðist mikið um Ísland og myndaði. Ég er svolítið byrjuð í fuglaljósmyndun og náði yfir tuttugu tegundum í fyrra á mynd. Það er þolinmæðisvinna að ná myndum af fuglum.“

Hver er besta mynd sem þú hefur tekið?

„Mynd af lunda á flugi sem ég tók í Flatey á Breiðafirði.“

Fylgst lengi með Rax

Ástríðan fyrir ljósmyndun óx enn meir þegar Kidda fór til Færeyja að mynda um árið.

„Við erum svona tuttugu manna kjarni sem förum saman í þessar ferðir. Að koma til Færeyja er eins og að koma hundrað ár aftur í tímann og algjör heilun. Áhuginn á Grænlandi hefur líka aukist ár frá ári en ég hef fylgst lengi með Rax, sem má segja að sé goðið mitt. Hann kom einmitt til okkar með fyrirlestur rétt áður en við fórum til Grænlands,“ segir Kidda og segir hópinn hafa farið til Narsaq á Suður-Grænlandi.

„Við fórum um allt á bátum og mynduðum, sigldum einar 300 sjómílur samtals og heimsóttum meðal annars Brattahlíð, Hvalsey, Qaqortoq og Landbúnaðarskólann í Quassiarsuk ásamt skriðjöklum sem eru víða á þessu svæði,“ segir hún og segir ferðina hafa verið ógleymanlega.

„Nú er það líka ástríða að skipuleggja ferðir fyrir hópinn. Ég er að plana núna ferð um Austurland í haust,“ segir Kidda en hópurinn er nýkominn úr dagsferð frá Kötlujökli og Mýrdalsjökli.