Lilja Alfreðsdóttir
Lilja Alfreðsdóttir
Eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur: "Úthlutun styrkja úr sjóðnum hefur aldrei verið hærri en nú."

Íslenska þjóðin hefur um nokkurt skeið verið þátttakandi í stóru og fjölbreyttu grunnnámskeiði í vísindum. Þar er m.a. fjallað um hvernig vísindamenn nýta vísindalegar niðurstöður og aukna þekkingu til að byggja undir stöðumat og mögulega þróun. Þeir hika ekki við að skipta um skoðun eða breyta mati sínu ef vísindalegar mælingar gefa tilefni til, eða til að mæta ófyrirsjáanlegri þróun.

Loðna, jarðhræringar og farsótt

Vísindi og rannsóknir tengjast með beinum hætti mörgum af stóru spurningunum sem Íslendingar leita svara við. Stofnstærðarmælingum á fiskistofnum og aflaheimildum, jarðskjálftavirkni á Reykjanesi og líkum á eldgosi. Aðgerðum sóttvarnalæknis vegna Covid-19, vöktun og viðbrögðum við snjóflóðum og skriðuföllum, hagnýtingu upplýsingatækni og fjarskipta til að halda samfélaginu gangandi í miðjum heimsfaraldri o.s.frv.

Öllum ætti því að vera ljóst að rannsóknir og hagnýting vísindastarfs er mikilvæg forsenda fyrir þróun samfélagsins og er þá enginn hluti þess undanskilinn. Kennsludæmin í námskeiðinu sem við sitjum nú hafa einnig leitt hugann að því frábæra og öfluga vísindafólki og stofnunum sem við eigum.

Í áætlun vísinda- og tækniráðs eru m.a. tilgreindar aðgerðir sem eru á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis. „Mikilvægt er að vísindastarf nýtist íslensku samfélagi í stefnumótun og lýðræðislegum ákvörðunum. Ekki verður unnt að ná tökum á samfélagslegum áskorunum, svo sem lýðheilsuvandamálum og loftslagsvá, nema stefnumótandi aðilar og almenningur hafi greiðan aðgang að áreiðanlegri þekkingu.“ Með þessu er ætlunin að skapa umgjörð sem tryggir sýnileika vísinda, stuðlar að aukinni þekkingu á aðferðum vísinda, eykur skilning, traust og virðingu fyrir niðurstöðum vísinda og sérfræðiþekkingar, tryggir aðgang að gagnreyndum upplýsingum og vinnur markvisst gegn áhrifum falsfrétta og rangra upplýsinga í samfélaginu.

Stærsta úthlutun Rannsóknasjóðs frá upphafi

Rannsóknasjóður gegnir lykilhlutverki við fjármögnun vísindaverkefna hér á landi. Hann styður verkefni á öllum sviðum vísinda og veitir fjórar tegundir styrkja til doktorsnema, nýdoktora, rannsóknarverkefna og öndvegisstyrki til stórra verkefna sem skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega tengingu.

Úthlutun styrkja úr sjóðnum hefur aldrei verið hærri en nú og fleiri ný verkefni njóta stuðnings en áður – alls 82 talsins. Sjóðurinn hefur frá árinu 2004 verið leiðandi samkeppnissjóður hér á landi, en hlutverk hans er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi. Síðustu ár hafa framlög til sjóðsins verið um 2,5 milljarðar kr. en á síðasta ári bættist við 776 milljóna Covid-framlag. Á þessu ári voru fjárveitingar hins vegar hækkaðar í 3,7 milljarða, í samræmi við stefnu vísinda- og tækniráðs frá síðasta ári.

Um 2 milljarðar kr. renna til eldri verkefna en styrkveitingar til nýrra verkefna nema á 1,3 milljörðum kr. á árinu. Rannsóknasjóður styrkir einnig þátttöku íslenskra aðila í mörgum alþjóðlega samfjármögnuðum verkefnum.

Búast má við að heildarframlag vegna nýju verkefnanna verði um 4 milljarðar áður en yfir lýkur, enda ná verkefnin yfirleitt yfir þriggja ára tímabil. Á grundvelli þessara rannsókna, og annarra sem sjóðurinn hefur stutt, skapast þekking sem hjálpar okkur að þróa samfélagið okkar og bæta lífsgæðin.

Skýrt merki um öflugt vísindastarf

Umsóknum í Rannsóknasjóð hefur fjölgað undanfarin ár og árangurshlutfallið hafði lækkað stöðugt þar til nú. Með stækkun sjóðsins hefur þróuninni verið snúið við, því þrátt fyrir 402 umsóknir var árangurshlutfallið nú rúm 20% og hefur ekki verið hærra síðan 2017. Þessi mikla eftirspurn er til marks um öflugt vísindastarf á Íslandi, metnað vísindafólks og vísbending um framtíðarávinning fyrir okkur öll.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.

Höf.: Lilju Dögg Alfreðsdóttur