Einar Mäntylä
Einar Mäntylä
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Einar Mäntylä, Hans Guttorm Þormar og Þorkel Sigurlaugsson: "Árangur í listum og vísindum tekur tíma. „Hafðu engar áhyggjur. Það tekur fimmtán ár að verða frægur á einni nóttu.“"

Undanfarin ár hafa einkennst af miklum tækniframförum á sviði upplýsingatækni, en ekki síður á öðrum sviðum tækni og vísinda. Samþætting upplýsingatækni við fjölmörg svið vísinda hefur gerbylt afköstum og árangri rannsókna og úrvinnslu. Framúrstefnulegar lýsingar á tækni í vísindaskáldsögum fyrir 20-40 árum er nú að finna í vasanum, á stofuborðinu, í kennslustofunni eða á skurðstofunni. Framtíðartæknidraumar rætast hraðar en hugur fær haldið – ekki satt Alexa?

Hvað er djúptækni?

Tækniþróun undanfarinna áratuga er byggð á rannsóknum og samþættingu þekkingar sem tekur á sig nýja mynd. Þetta nýja tæknisvið kallast djúptækni. Þar sem beitt er vísindalegri og verkfræðilegri nálgun, oft þverfaglegri, við þróun lausna. Djúptækni þróast upp úr og nýtir hefðbundin fræði svo sem efnistækni, eðlisfræði, verkfræði, líftækni, læknisfræði, hönnun og listsköpun. Að baki liggja niðurstöður grunnrannsókna síðustu áratuga, sem leiða til hagnýtra rannsókna, nýsköpunar, vöruþróunar og hugverka. Slík þróun hugmynda og tækni yfir í djúptækni krefst verulegs, þolinmóðs fjármagns.

Hvernig nýtist djúptækni?

Djúptæknin nýtir til rannsókna, þróunar og hagnýtingar, allt frá smæstu eindum alheimsins, til stærsta og tæknilega fullkomnasta tækjabúnaðar. Langur og kostnaðarsamur þróunartími skilar verðmætum hugverkum. Með hágæða rannsóknum og hugverkavernd ná djúptæknilausnir oft varanlegu samkeppnisforskoti umfram aðrar. Verndun hugverka með einkaleyfum eða annarri hugverkavernd er oft og tíðum forsenda fyrir fjárfestingum og því að ávinningurinn skili sér alla leið til hugvitsmanna og samfélagsins.

Grunnrannsóknir og niðurstöður þeirra eru mikilvæg forsenda hagnýtra rannsókna og nýsköpunar á sviði djúptækni. Til að skapa, þróa og hagnýta þekkingu verður að tryggja að að því starfi fólk með menntun og færni á sviði vísinda, verkfræði, hönnunar, tækniyfirfærslu, hugverkaverndar, fjárfestinga, lögfræði og viðskipta. Gott menntakerfi og áframhaldandi stuðningur við grunnrannsóknir og hagnýtingu er grundvöllur allra tækniframfara, samkeppnishæfs atvinnulífs og hagvaxtar.

Nýjar tegundir skurðlæknaáhalda, ný hárnákvæm efnagreiningartækni fyrir málma, nýjar aðferðir við húðun örþunnra yfirborðslaga og nýjar nálganir við ræktun frumna eru allt dæmi um afurðir djúptæknirannsókna. Sama gildir um nýjar aðferðir við erfðabreytingar og raðgreiningar erfðaefnis lífvera og skaðlegra veira. Dæmi um árangur hvað þetta varðar er samstarf Landspítala, Íslenskrar erfðagreiningar, Háskóla Íslands, Landlæknis, heilsugæslunnar og lögreglu í landinu í baráttu við Covid-19. Unnið er með hið smæsta í veirufræðum upp í stærsta og flóknasta tækjabúnað. Allir takast á við þetta þverfaglega verkefni, sem væri vonlaust án öflugs menntakerfis og þekkingar.

Mikilvægi samstarfs og nálægðar

Í nýsköpun og tækniframförum framtíðarinnar munu þeir standa upp úr sem hafa yfirsýn og getu til að sameina þekkingu milli fræðasviða og skapa þannig nýja hugsun og lausnir. Þetta verður ekki gert með því að hafa tækjabúnaðinn, þekkinguna og reynsluna dreifða úti um allar koppagrundir þótt einhver dreifing sé til staðar. Til þess eru Íslendingar alltof fáir og í heimi tækniþekkingar er kunnátta og notkun tækjabúnaðar ekki gerð í fjarvinnu. Þétting þekkingar er mikilvæg og er myndun frumkvöðla- og tæknisetra, klasa og vísindagarða liður því.

Mörg tæki sem eru nýtt á sviði djúptækni eru ekki á færi einstakra fyrirtækja, stofnana eða háskóla að fjárfesta í. Ekki eru heldur margir sem kunna að reka og fullnýta flóknustu tækin. Samstarf margra aðila svo og styrktarsjóða, ekki síst í okkar litla samfélagi, er grundvallaratriði til að hér geti þróast vísindastarf, rannsóknir og atvinnustarfsemi sem er samkeppnishæf við það besta sem gerist erlendis. Aðstaða, þekking og samskipti gefa af sér hugmyndir og tæknifyrirtæki næstu kynslóða. Þetta er langhlaup sem best er að undirbúa sig fyrir á sama hátt og fyrir maraþonhlaup með stöðugum æfingum, af þolinmæði og þekkingu.

Innviðafjárfestingar og þolinmótt fjármagn

Hagnýtar rannsóknir og nýsköpun á sviði djúptækni eru þegar farnar að skila hagkerfum heimsins umtalsverðum ávinningi og umbreyta mörgum viðskiptamódelum og -venjum. Skilningur er að aukast á því að fjárfesting á sviði djúptækni er langtímafjárfesting sem tekur 10-20 ár að raungerast og krefst þolinmóðs fjármagns til að skila fjárfestum og samfélaginu verulegum ávinningi. Að hlutir taki dágóðan tíma er veruleiki sem ýmsar greinar samfélagsins kannast við. Í nýlegu viðtali við Víking Heiðar Ólafsson kom fram að hann fékk góð ráð á sínum ferli frá austurríska píanóleikaranum Alfred Brendel, sem hann starfaði með um tíma. Brendel stappaði stálinu í píanóleikarann unga og sagði: „Hafðu engar áhyggjur. Það tekur fimmtán ár að verða frægur á einni nóttu.“ Árangur í listum og vísindum tekur tíma. Fjárfesting í menntun og innviðum hefur verið og er áfram hlutverk ríkisins, oft í samstarfi við einkaaðila.

Sjá má merki um aukinn áhuga og sérhæfingu fjárfestingarsjóða á sviði djúptækni. Sameiginleg tæknisetur í eigu og rekstri margra aðila eru oft afsprengi þessarar hugsunar og Ísland getur átt þar hlutverk sem „brú“ á milli heimsálfa eða „hub“, a.m.k. tengslanet þar sem þekking og aðstaða er til staðar. Starfsemi háskóla í háskólaborginni Reykjavík svo og háskólar og háskólasetur víða um land er liður í sókn Íslendinga inn á þetta svið.

Nýtt hlutverk ríkisins

Stjórnvöld eru að átta sig á því að grunnuppbygging á sviði djúptækni er innviðafjárfesting ekki síður en samgöngumannvirki (hafnir, vegir, flugvellir), orkudreifing og orkuvinnsla. Fjárfestingarsjóðir á sviði djúptækni kalla á mikið af þolinmóðu fjármagni, virku samstarfi margra aðila auk sérþekkingar til að hjálpa hugmyndum að raungerast. Meðal nýrra áherslna hjá núverandi stjórnvöldum má nefna frumvarp til laga um aukinn stuðning við nýsköpun og að koma Kríu fjárfestingarsjóði á flug og að flytja verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands til háskóla, stofnana og einkaaðila. Það þarf svo milljarða fjárfestingu í innviðum og sjóðum á sviði djúptækni til að komast hratt og vel inn í hið nýja hagkerfi 21. aldar.

Auk fjárhagslegs ávinnings, bætist við þekking, reynsla og störf á sviði djúptækni við slíkar fjárfestingar. Þetta er grunnurinn að fjórðu iðnbyltingunni sem stjórnvöld á Íslandi þurfa að styðja við af síst minni myndarskap en nágrannaþjóðir okkar gera. Í þjóðhagslegu tilliti er áríðandi að samfella sé í nýsköpunarumhverfinu, innviðirnir í lagi og hraðahindranir séu sem fæstar til að greiða fyrir tækniþróun og framtíðaratvinnu. Í umræðu um innviðafjárfestingu í samfélaginu og fjárfestingu í menntakerfinu má ekki gleyma hlutverki ríkisins á sviði tækniþróunar og djúptækni. Samkeppnishæfni þjóðarinnar og að skapa ný áhugaverð hálaunastörf á mikið undir samstöðu og samvinnu milli ríkis, atvinnulífs, fjárfesta og háskóla. Það eru skilaboð okkar til lesenda með þessari grein.

Einar er framkvæmdastjóri Auðnu Tæknitorgs. Hans Guttormur er líffræðingur, frumkvöðull og er í undirbúningshópi um stofnun djúptækniklasa. Þorkell er ráðgjafi og í undirbúningshópi um stofnun djúptækniklasa.

Höf.: Einar Mäntylä, Hans Guttorm Þormar, Þorkel Sigurlaugsson