Við höfum þraukað saman í tólf mánuði undir áföllum af Covid 19. Fólkið í landinu er búið að færa ómældar fórnir með einangrun, samgöngutakmörkunum og grímuskyldu.

Við höfum þraukað saman í tólf mánuði undir áföllum af Covid 19. Fólkið í landinu er búið að færa ómældar fórnir með einangrun, samgöngutakmörkunum og grímuskyldu. Tæplega 30 manns hafa dáið ótímabærum dauða vegna pestarinnar, fjölmörg önnur hafa glímt við veikina og eftirköst hennar, þúsundir setið í sóttkví og einangrun. Þjóðin hefur sýnt mikinn sjálfsaga og samstöðu. Við höfum tekið af allan vafa um að okkur er kleift að standa saman og ganga í takt þegar hætta steðjar að. Eftir þrjár smitbylgjur sem aldrei skyldu verið hafa, hefur okkur nánast tekist að útrýma veirunni hér innan lands. Það er samtakamáttur okkar sem hefur skilað þessum árangri.

Dýrkeypt reynsla síðustu tólf mánaða hefur þó kennt okkur að þetta ástand er afar viðkvæmt meðan okkur hefur ekki tekst að bólusetja nema örlítið brot af þjóðinni. Ekki þarf nema einn Covid-sýktan einstakling til að koma fjórðu bylgju faraldursins af stað. Þá myndu hvorki erlendir ferðamenn né Íslendingar sjálfir ferðast í sumar. Það er algjörlega loku fyrir það skotið að fá svör ríkisstjórnarflokkanna um ábatann sem við hefðum af því að taka þá áhættu sem nú er tekin og felur í sér frekari tilslökun á landamærunum. Það er eitt að setja sér markmið og láta sig dreyma um að vera búin að bólusetja þjóðina fyrir sumarvertíðina og allt annað að horfast í augu við staðreyndir. Bóluefnaklúður stjórnvalda á ekki að bitna á samfélaginu í heild.

Flokkur fólksins fordæmir þessar ótímabæru og hættulegu tilslakanir. Það er galið að fara í þessar aðgerðir núna þegar við sjáum ljósið í enda ganganna. Þetta snýst ekki um að vantreysta fólki sem hefur verið bólusett eða mælist með mótefni gegn veirunni. Þetta snýst um áhættuna sem fylgir því að sýktir einstaklingar komi með fölsuð bólusetningarskírteini til landsins og orsaki fjórðu bylgju þessa andstyggðarfaraldurs. Athugum að víða í löndunum í kringum okkur er allt enn í fári vegna Covid-19 og nóg að líta til stórra hluta Noregs í því sambandi.

Stórfurðulegt er að heyra ráðamenn svara sem svo, að líklega muni tilslakanir ekki skipta miklu máli því ferðaviljinn erlendis frá sé ekki mikill. Þess frekar kalla slík svör á fleiri spurningar, svo sem til hvers í ósköpunum sé þá verið að taka þessa óþarfa áhættu. Hvaða öflum er ríkisstjórnin að þjóna?

Ég er sannfærð um að flestir landsmenn hafi verið reiðubúnir að þrauka nokkra mánuði í viðbót þar til búið hefði verið að bólusetja þjóðina og þannig gera okkur í stakk búin til að taka á móti gestum án þess að senda fjórðu bylgju faraldursins yfir þjóðina.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.

Höf.: Inga Sæland