Pétur Björn Pétursson fæddist 31. janúar 1946. Hann lést 7. mars 2021.

Útför hans fór fram 19. mars 2021.

Það var vorið 1980 sem ég minnist þess að hafa séð Pétur Björn (PB) mág minn fyrst. Þá skokkaði ég í hádeginu á Melavellinum gamla. Samtímis var sveit vaskra manna, sem nefndi hóp sinn Lunch United, að spila fótbolta. Í hópnum var hávaxinn, herðabreiður, myndarlegur, skeggvaxinn maður sem augljóslega var hrókur alls fagnaðar. Þar var Pétur Björn mættur. Ekki minnist ég þess að við höfum talað mikið saman á þessum tíma. Það gerðist síðar, nánar til tekið á árinu 1982, þegar ég fór á fjörur við konuna mína, Bobbu systur hans. Tókst þá strax með okkur einstakur og traustur vinskapur.

Þessa áratugi höfum við vinirnir brallað margt minnisstætt saman. Árið 1984 þegar hann bjó í Svíþjóð heimsóttum við Bobba fjölskylduna. Á öðrum degi, þegar mikil veisla var undirbúin, fórum við PB saman í sænska ríkið sem bauð upp á úrval vína. Smekkur okkar var einfaldur á þessum árum. Helst bárum við okkur eftir góðum lagerbjór og léttum rauðvínum. Það var um það bil að breytast. Minnist ég vel augnabliks þegar við vorum komnir með bjór og nokkrar vínflöskur í innkaupakerruna. Þá er PB litið á vínflöskur í glerskáp sem stóð í miðri búðinni. Hann horfir um stund á flöskurnar sem allar voru dýrar, mjög dýrar að mati manns með einfaldan vínsmekk, og segir svo: „Óli, hvað fær menn til að greiða svona pening fyrir flösku af víni?“ Við horfðum um stund þöglir hvor á annan. Þarna vaknaði vínáhugi okkar vinanna. Flaskan var keypt og um kvöldið öðluðumst við skilning á því hvers vegna öll vín eru ekki ódýr. Ævintýri var hafið. Nokkrum mánuðum síðar stofnuðum við fyrsta sameiginlega rekstur okkar, Vín- og matarklúbbinn, smökkunarklúbb þar sem smökkuð voru eðalvín og góður matur. Rákum við klúbbinn í nokkur ár og smökkuðum þar mikið af athyglisverðum vínum í góðra vina hópi. PB ritaði samhliða afar athyglisvert rit um eðalvín og smökkun.

PB var um margt einstakur maður. Auk ljúfmennskunnar var tvennt áberandi þeim sem kynntust honum, það var hve hugmyndaauðugur og lausnamiðaður hann var í nálgun vandasamra verkefna. Á þetta tvennt reyndi mjög í fjölmörgu sem við brölluðum í löngum vinskap. Árið 1993 stofnuðum við Sumarskólann ehf. Uppbygging skólans var eftir frábærri hugmynd sem PB hafði fengið. Skólann rákum við saman í 14 ár.

Þegar litið er um öxl leita á hugann minningar um margt skemmtilegt, ekki síst öll ferðalögin sem við fórum saman. Á sumrin voru það langar innanlandsferðir með fjölskyldunni, á veturna fórum við í borgaferðir þar sem borgirnar sjálfar voru ekki einasta skoðaðar heldur einnig og ekki síst veitingastaðir með einstakan mat og vín. Einnig var það lengi nánast regla hjá okkur að hittast um helgar, borða saman og spjalla.

PB gekk í Frímúrararegluna árið 1996. Hann tók þátt í stofnun frímúrarastúkunnar Njarðar árið 1999. Frímúrarastarfið átti hug hans síðustu ár. Starfaði hann þar mikið, m.a. sem yfirmaður stúkunnar.

Sorg fjölskyldu og vina er mikil sem nú horfa á eftir einstökum dreng með eftirsjá.

Gangi þér vel í síðustu ferðinni kæri vinur.

Ólafur Haukur Johnson.

Rauðvín, nautalundir, humar og annað góðgæti kemur upp í hugann þegar hugsað er til Péturs Björns. Auðvitað er þetta hégómi miðað við mannkosti þá sem Pétri Birni voru gefnir. Velvildin og glettnin voru hans aðalsmerki í bland við dugnað, gestrisni og hjálpsemi sem hann sýndi vinum sínum. Hann var mikil félagsvera og hafði yndi af því að vera veitandi. Við hjónin nutum gestrisni þeirra Kristínar oftar en tölu verður á komið.

Eftir að við eignuðumst okkar annað heimili í Breiðdal hjálpuðu þau Pétur Björn og Kristín okkur iðulega, fyrst á sauðfjárbúi okkar bæði vor og haust og enn meira þegar við hófum rekstur á litlu hóteli. Þá var leitað til þeirra hjóna um allt sem sneri að veitingum. Pétur tók að sér matreiðslu á hótelinu í nokkrar vikur á ári í mörg ár. Gestir, sem flestir voru erlendir, báru mikið lof á matreiðslu hans. Þá þurfti hagfræðingurinn Pétur Björn oft að veita upplýsingar um efnahagsástand landsins og horfurnar fram undan. Fyrir störf þeirra hjóna verður ekki fullþakkað.

Pétur Björn hafði mikla ánægju af því að ferðast á nýjar slóðir og kynnast menningunni þar, ekki síst matarmenningunni. Hann átti auðvelt með að eignast vini hvar sem hann fór og fræddist af þeim. Hann starfaði sem leiðsögumaður hér innanlands á síðari árum og naut þess að sýna erlendum ferðamönnum náttúru Íslands og kynna þeim menningu landsins ásamt sögu lands og þjóðar.

Við fórum með þeim Kristínu og Pétri Birni í nokkrar ferðir út fyrir landsteinana og nutum mjög þeirrar samveru. Síðastliðið haust fórum við saman í hringferð um landið með viðkomu í Breiðdalnum. Var gaman að kynnast því hve hótel- og veitingaþjónustunni hefur fleygt fram hér á landi á síðustu árum með aukinni ferðamennsku og kröfum sem til hennar eru gerðar. Pétur Björn var hreykinn af þessum framförum enda málið honum skylt þar sem hann starfaði í mörg ár við Hótel- og veitingaskólann við MK.

Við kveðjum Pétur Björn með þakklæti í huga.

Fjölskyldu Péturs Björns og ástvinum öllum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Péturs Björns.

Guðrún Sveinsdóttir,

Jón B. Stefánsson.

Látinn er gamall vinur okkar, Pétur Björn Pétursson. Þó að leiðir Péturs og okkar hafi ekki legið saman í allmörg ár, er vert að minnast góðs drengs, sem við störfuðum með og gerðum okkur oft glaðan dag saman. Á árunum 1980-2000 var fjöldi ungra kennara starfandi í FB, sem bundust miklum vinaböndum. Einn af þeim sem var í forystu fyrir þessum vinahóp var P.B.P. og var hann ódrepandi í að finna upp á einhverju sem héldi hópnum saman. Matarboð, vínsmökkun, veiðiferðir, innanhússfótbolti svo eitthvað sé nefnt sem hann stóð fyrir. Þess má geta að hann var frábær kokkur og kynnti okkur oft fyrir framandi réttum, sem hann útbjó handa okkur af mikilli snilld. Á þessum árum var stofnað Hið íslenska tipparafélag í FB að hans undirlagi og er þetta félag enn þá starfandi undir nafninu HÍT. Við unnum einu sinni þann stóra og sá Pétur um að skipuleggja ógleymanlega ferð fyrir okkur til Lundúna á fótboltaleik. Þeir sem fóru í þessa ferð minnast hennar enn þá með bros á vör. Pétur var þægilegur í umgengni, vinamargur og frábær kennari. Pétri lá ekki hátt rómur, en það sem hann sagði náði eyrum nemenda og annarra.

Þó að gamli vinhópurinn sé ekki lengur til staðar, leitar hugurinn til baka þegar við fréttum um andlát Péturs Björns. Nú er Pétur genginn á vit forfeðra sinna, en við gömlu samstarfsfélagar hans úr FB minnumst góðs drengs.

Við vottum fjölskyldu Péturs innilega samúð.

Fyrir hönd gamalla samstarfsmanna úr FB.

Stefán Benediktsson.

Það dimmdi yfir þegar ljóst var í hvað stefndi með Pétur Björn. Eftir að hafa fengið einhverja slæmsku í lungu, sem virtist í sjálfu sér ekki hættuleg, leið ekki nema mánuður þar til hann var allur. Þetta gerðist allt svo hratt og óvænt.

Erfiðar og sárar tilfinningar hellast yfir okkur eftir því sem við áttum okkur betur á þeirri staðreynd að Pétur Björn sé farinn.

Við áttum ógleymanlegar og ómetanlegar stundir með Pétri Birni og Kristínu í gegnum árin. Minningarnar ylja og gleðja og munu þær alltaf fylgja okkur. Þeirri tilhugsun fylgir mikil sorg og söknuður að samverustundirnar með honum verði ekki fleiri.

Á þeim rúmlega aldarfjórðungi sem leiðir okkar hafa legið saman styrktist vináttan með hverju árinu. Við höfum notið „ferðalagsins“ með Pétri Birni og Kristínu í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Ófáar eru endurminningarnar: Ferðalögin þar sem Pétur Björn lék stórt hlutverk, enda var hann oftar en ekki helsti hugmyndasmiður, skipuleggjari og höfuðpaur í því sem tekist var á hendur. Heimsóknirnar á Smáraflötina þar sem nostrað var við bæði gesti og veitingar af sérstakri alúð, og ánægjan yfir vel heppnaðri kvöldstund fór ekki fram hjá neinum. Þau Kristín voru algerlega samtaka í þessu sem öðru. Allt var notalegt og áreynslulaust.

Pétur Björn hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og lá ekkert á þeim. Hann gat verið hvass og afdráttarlaus þegar honum mislíkaði eitthvað. En hann var sannarlega vinur vina sinna og naut þess með hverri taug að gleðja þá sem honum þótti vænt um. Þá var ekkert til sparað; rausn og höfðingsskapur á öllum sviðum, eins og honum var eiginlegt. Hann var hlýr og traustur vinur og samferðamaður. Þakklæti fyrir að hafa fengið að fylgjast að í þennan tíma er okkur efst í huga þegar við minnumst hans.

Hafðu þökk fyrir öll þín spor.

Það besta, sem fellur öðrum í arf,

er endurminning um göfugt starf.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Það tók þau Kristínu og Pétur Björn dálítinn tíma að finnast á lífsleiðinni, en þegar þar að kom var strax ljóst, að þau voru ætluð hvort öðru.

Þau bættu hvort annað upp, mynduðu sterka einingu og voru sannarlegir sálufélagar. Nú er þessi sterka eining brotin upp; nýr veruleiki blasir við og nýjar brautir þarf að feta.

Elsku Kristín, megi ljósið lýsa leiðina þína og allar góðar vættir styðja þig og styrkja. Við vottum aðstandendum Péturs Björns okkar dýpstu samúð.

Björg og Bjarni Snæbjörn.