Þórður Magnússon fæddist 17. apríl 1933. Hann lést 9. mars 2021.

Útförin fór fram 18. mars 2021.

Hann er skrítinn þessi tími, stundum er rétt eins og hann standi í stað en stundum flýgur hann áfram og maður heldur ekki í við hann. Það er svo ótrúlega stutt síðan Þórður var fastur liður í okkar hversdagslífi og nú er hann horfinn á braut. Hann kom inn í líf okkar þegar Magnús fór að vinna í byggingarvinnu hjá Áshamri rétt rúmlega tvítugur og þó að aldursmunurinn væri eilítill, upplifðum við hann aldrei í okkar samskiptum. Þegar Magnús var kominn í eigin rekstur voru þeir ófáir tímarnir sem þeir eyddu saman við að rífa í sundur nú eða setja saman það sem bilað var, bera saman bækur og leita eftir aðstoð hvor hjá öðrum ef þurfti.

Nokkrir voru þeir kaffibollarnir sem drukknir voru við eldhúsborðið heima að ræða hinar ýmsu framkvæmdir sem í gangi voru og hvort rétt væri nú staðið að málum.

Þórður var af gamla skólanum, sjálfum sér nógur, gerði við það sem bilaði, gafst ekki upp þótt það gengi ekki í fyrstu tilraun heldur hélt áfram þar til það virkaði.

Allt nýtt og engu hent sem gat verið notagildi í því maður vissi aldrei nema það kæmi að gagni síðar. Við gætum margt lært af þessari kynslóð sem er nú að kveðja okkur hvert af öðru.

Þórður minn, við þökkum þér fyrir þær stundir sem við áttum saman þær eru okkur mikils virði og hlýja okkur nú þegar þú hefur hvatt. Gangi þér vel á nýjum stað, þú heldur áfram að fylgjast með þínu fólki og hver veit, kannski þarf að dytta að einhverju þar líka og þá liggur þú ekki á liði þínu. Hrönn, systrunum og þeirra fjölskyldum sendum við samúðarkveðjur og hlýhug.

Magnús og Sigurlína.