Kalt stríð Nokkur gjá var á milli Kínverja og Bandaríkjamanna.
Kalt stríð Nokkur gjá var á milli Kínverja og Bandaríkjamanna. — AFP
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að hann væri „stoltur“ af utanríkisráðherra sínum, Antony Blinken, eftir að viðræður hans við Yang Jiechi, formann utanríkismálanefndar kínverska kommúnistaflokksins, í fyrrinótt breyttust í rifrildi...

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að hann væri „stoltur“ af utanríkisráðherra sínum, Antony Blinken, eftir að viðræður hans við Yang Jiechi, formann utanríkismálanefndar kínverska kommúnistaflokksins, í fyrrinótt breyttust í rifrildi og skeytasendingar milli sendinefnda stórveldanna tveggja.

Viðræðurnar fóru fram í borginni Anchorage í Alaska og funduðu sendinefndirnar aftur í gærkvöldi, en tilgangur fundarins var að ræða erfiða stöðu samskipta ríkjanna, sem jafnframt eru tvö stærstu hagkerfi heims.

Hófst fundurinn í fyrrinótt á því að sendinefndirnar tvær lásu upp yfirlýsingar til fjölmiðla, þar sem farið var hörðum orðum um stöðu mannréttindamála í hinu ríkinu.

Sakaði Blinken Kínverja um að grafa undan stöðugleika í alþjóðasamfélaginu með ágengri hegðun sinni, en Jiechi sakaði Blinken um að láta mannalega fyrir framan sjónvarpsvélarnar og um leið sýna af sér niðrandi hegðun gagnvart Kína.

Þá gerðu Kínverjar athugasemdir við fundarstaðinn, en Zhao Lijian, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði að þegar kínverska sendinefndin lenti í Anchorage hefðu „hjörtu þeirra kólnað,“ bæði vegna lágs hitastigs og vegna þess viðmóts sem Bandaríkjamenn hefðu sýnt sendinefndinni.

Austin einn til Indlands

Fundur Blinkens með Kínverjum í Alaska kom beint í kjölfar fundar hans og Lloyds Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, með kollegum sínum í Japan og Suður-Kóreu, en þar voru m.a. sérstaklega ræddar þær áhyggjur sem Bandaríkjamenn hafa af framferði Kínverja. Austin hélt svo einn síns liðs til Indlands í gær, og ræddi við þarlend stjórnvöld um nánari tengsl ríkjanna tveggja.