Dagmar Didriksen fæddist 20. júlí 1929. Hún lést 3. mars 2021.
Útförin fór fram 19. mars 2021.
Hjartahlýtt þakklæti til þín elsku amma.
Á meðan ég sit hérna í hljóði og horfi yfir farinn veg þá eru svo margar minningar sem koma upp í hugann. Þú varst fjölskyldan í orðum og gjörðum, þú elskaðir okkur og ástin þín fyllti líf okkar allra.
Þú sást fyrir því að við fengum sterka fjölskyldumynd með gjafmildi, elju, hugrekki og þolinmæði. Fjölskylduhittingur í Fellsmúla og seinna Grundarlandi var ekki bara vikulegur heldur mörgum sinnum í viku fyrir utan jól, páska og aðrar hátíðir.
Þú kenndir með verkum, ekki með orðum, en þó varstu alltaf tilbúin að setjast niður með mér ef ég þurfti að tala eða deila. Þú og afi sáuð til þess að halda fjölskyldunni saman. Það var aldrei neitt til sparað hvorki í veraldlegum gæðum, tíma né viðveru.
Þú kenndir okkur hugrekki, útsjónarsemi, klárleika og hafðir vilja á við heila þjóð og á sama tíma sem þú lést ekkert fram hjá þér fara léstu líka allt kjurt liggja.
Þú hefur alltaf verið sú sem ert fyrst til að fyrigefa, fyrst til að brosa og þú leyfðir engu að spilla fyrir.
Þú leyfðir öllu að eiga sinn farveg og sást enga ástæðu til þess að hanga neitt í liðinni tíð. Þú kenndir mér að taka ábyrgð og að skilja að við komum inn í lífið til þess að stækka. Þú huggaðir á mjúklegan hátt og sem lítil fékk ég að skríða upp í fangið á þér og vagga með þér í fanginum í „Ömma VioVi“.
Ég gat alltaf leitað til þín.
Margar sögurnar af samskiptum okkar sitja í minningabankanum allt frá því hvernig ég ætti að henda í burtu áliti annarra í hvernig ég ætti að krydda hrygginn og láta ekkert stöðva mig.
Þú kenndir mér að „spinka og spare vil altid vare men sus og snús gör tömt hús“. Þú sagðir að engin erfið tíð myndi vara og kenndir mér að setja á mig rauðan varalit, ganga bein í baki og bursta í burtu angist og innri sálarkvein og sagðir mér að hamingjan lægi innra með.
Þú horfðir á mig með tiltrú og blést í burtu áhyggjunum mínum og minntir mig stöðugt á að ég væri nóg.
Eitt sinn þegar ég var alveg vonlaus einu sinni sem oftar kom ég til þín í pepp og að venju horfðir þú á mig í forundran og sagðir: Hanna mín, þetta er ekkert mál. „Tú bara fert út í horn med rumpuna, brettir upp ermar og svo bara syndir þú skriðsund skref fyrir skref út úr horninu þar til að allt í einu þá ertu búin að öllu sem þú þarft að gera.“ Ég horfði á þig til baka og bara vissi að það sem þú varst að segja var rétt og fór full af krafti til baka í verkefnið og kláraði það með stæl.
Ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér af afa og Kollafjarðarklaninu og er nokkuð viss um að pabbi og Ingvar hafi verið í þeim hópi líka.
Ég veit að þú ert með mér og leiðir mig í gegnum lífið áfram því sannarlega þá sleppi ég ekki takinu á þinni styrku hendi.
Amma ég spila Ömma Ludvik, hún er stór og sterk og svo er hún alltid glad í tilefni af deginum.
Ég skála í ákavíti og opna öllara og klæðist rauðu.
Sjáumst á ný elsku amma mín.
Meira á www.mbl.is/andlat
Hanna Kristín Didriksen.
Kaupmennska var þeim báðum í blóð borin og hófu þau fljótlega rekstur skóverslunar, sem varð að ævistarfi þeirra. Samvinna þeirra hjóna, vinnusemin, vinnugleðin og fjölskyldan sátu alltaf í fyrirrúmi. Ég minnist, með gleði, gagnkvæmra heimsókna á Smáraflötina og í Fellsmúlann og ekki síst heimsóknanna í verslanirnar hjá þeim. Alltaf stóðu þau með útbreiddan faðm og gáfu sér tíma í spjall og kaffibolla. Þau fylgdust af áhuga með högum okkar, frændfólksins og glöddust af einlægni yfir velgengni annarra.
Það er aðdáunarvert hve Shumann og Dagmar, börnin þeirra og barnabörn hafa haldið vel í færeyskan uppruna sinn, hefðirnar og færeyska tungu. Árshátíðir Færeyingafélagsins og annað á vegum félagsins var alltaf svo skemmtilegt. Þá var færeyskur matur á borðum og svo var dansaður færeyskur dans fram á rauðanótt. Hér voru Dagmar og Schumann í broddi fylkingar við skipulagninguna, framtakssemin og orkan sem streymdi frá þeim hreif aðra með.
Þegar ég, kornung, bjó með vinkonu minni á Hávallagötunni, kom Dagmar í heimsókn, henni leist vel á og hún hrósaði okkur fyrir umgengnina á íbúðinni. Það var mér mikils virði að fá hrós frá frænku, það fékk bara sá sem átti það skilið.
Sumarið 1965 vorum við í síld á Raufarhöfn, Dagmar og Rúna frænka, mamma og ég. Þetta var ævintýri og þegar komu tarnir var unnið dag og nótt. Við stelpurnar sofnuðum stundum standandi, en mæður okkar létu engan bilbug á sér finna, enda skiluðu launin sér vel. Á milli tarna var farið í ferðir m.a. í Ásbyrgi og augu okkar opnuðust fyrir stórbrotinni fegurð landsins.
Vinkonurnar fóru saman í húsmæðraorlof, eins og tíðkaðist á þeim árum og fengu þær þar dásamlega viku. Mamma, sem var hagmælt, orti smá vers um allar vinkonurnar, fyrir kvöldvöku. Vísan um Dagmar var á þessa leið:
Dagga fór í finnsku böðin
forðaðist hún að líta í blöðin
fréttir dámuðu henni illa
enda engum tíma að spilla.
Ég efast ekkert um að þær hafa notið orlofsins.
Á níræðisafmæli sínu efndi Dagmar til yndislegrar veislu. Fyrir utan fjölskylduna fjölmenntu þar vinir og ættingjar. Hún var í essinu sínu, svo glöð og kát og drottningu líkust í fallega, síða, rauða kjólnum sem mamma saumaði á hana fyrir allmörgum árum.
Ég og mín fjölskylda höfum átt ógleymanlegar stundir með fjölskyldu frænku og ég það þakka af heilum hug.
Elsku Rúna, Bjarma, Sírí, Rita, Schumann, Júlíus og fjölskyldur. Innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra. Hennar verður sárt saknað.
Minst til að biðja
faðir vár, minst til at
signa teg, tá sendir
Harrin eingil sin at
hjalpa tær á veg.
(H.A. Djurhuus)
Anna Soffía Daníelsdóttir
og fjölskylda, Danmörku.