[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafsteinn Númason er fæddur 22. mars 1951 í Reykjavík en ólst upp hjá kjörforeldrum sínum á Patreksfirði. „Ég var ættleiddur strax í fæðingu, en þegar ég var orðinn fullorðinn þá hitti ég mína réttu foreldra og kynntist þeim og það var ágætt.

Hafsteinn Númason er fæddur 22. mars 1951 í Reykjavík en ólst upp hjá kjörforeldrum sínum á Patreksfirði. „Ég var ættleiddur strax í fæðingu, en þegar ég var orðinn fullorðinn þá hitti ég mína réttu foreldra og kynntist þeim og það var ágætt.

Þegar ég ólst upp þá var leikvöllurinn á Patreksfirði fjaran, göturnar, fjallið og niðri á höfn. Það var alltaf verið að reyna að banna manni að fara út á höfn en hún var spennandi. Ég man líka þegar ég var lítill að þá var ég með félaga mínum á vorin að sitja yfir fé. Svo fór ég seinna í sveit, var tíma og tíma hjá frændfólki á Haukabergi og Brekkuvöllum á Barðaströnd.“

Hafsteinn gekk í Grunnskóla Patreksfjarðar og byrjaði snemma að vinna á sumrin, m.a. í steypuvinnu frá 12 ára aldri og svo í frystihúsinu eftir fermingu. Eftir grunnskóla fór hann til sjós. „Ég var m.a. sex sumur frá 1969 í Norðursjónum á síldveiðum sem stóðu fram á haust og og svo fram eftir jól. Fyrst var landað í Þýskalandi og svo í Danmörku. Maður kom þá bara rétt heim á haustin þegar tekið var smá frí. Svo þegar ég bjó í Hveragerði var ég hjá Hafskipi á flutningaskipum. Þegar ég flyt á Súðavík var ég fyrst á Haffara og síðan á Bessanum.“ Hafsteinn stundaði sjómennskuna til 16. janúar 1995 þegar snjóflóðin féllu á Súðavík. Þá breyttist líf hans þegar þau Linda misstu þrjú börn sín í flóðinu. Þau fluttu til Reykjavíkur eftir það.

Vorið 1995 tók Hafsteinn meirapróf og starfaði við akstur, fyrst sem flutningabílstjóri og síðar sem leigubílstjóri eftir það. „Hnéð á mér varð ónýtt svo ég hætti að keyra sendibíl og fór á leigubíl, það er minni burður þar. Ég þykist vera að vinna ennþá, ég er alltaf á Reykjavíkurflugvelli eða eins mikið og ég nenni. Þetta er orðið meira hobbí til að brjóta upp daginn, það væri algjör vitleysa að hanga heima allan daginn og gera ekki neitt.“

Hafsteinn hefur verið virkur í starfi stéttarfélaga og stjórnmálum. Hann var formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga í Súðavík í þrjú ár, eða til 1995, var formaður Trausta – félags sendibílstjóra einnig í þrjú ár, eða þar til hann skipti yfir í leigubílinn, sat í stjórn íbúasamtaka Kjalarness og var formaður Félags sjálfstæðismanna á Kjalarnesi til langs tíma, eða frá um 2005 og þangað til í fyrra. „Ég er núna í Hinu íslenska byssuvinafélagi. Ég hef m.a. gaman af að veiða hreindýr og sótti um að fá að veiða núna þrátt fyrir hnéð. Ef ég verð dreginn út þá verður maður að bíta á jaxlinn og göslast áfram.“

Hafsteinn háði harða baráttu við Bakkus og fór í meðferð í janúar 1985 og hefur verið það lánsamur að vera laus við Bakkus síðan. „Það var draumastarf alkans að vera í siglingum hjá Hafskip því þá gat maður nálgast nóg af ódýru brennivíni. Það endaði með því að ég fór yfir um og fór tvisvar í meðferð.“ Þrátt fyrir öll áföllin leitaði Hafsteinn aldrei aftur í flöskuna, en árið 2001 lenti hann í alvarlegu bílslysi þar sem honum var ekki hugað líf og árið 2006 missti hann dóttur sína úr krabbameini. „Ég er svolítið stoltur af því að hafa farið edrú í gegnum öll þessi áföll. Það hefur hjálpað mér að hafa átt góða félaga, bæði í byssuvinafélaginu og hjá vinnufélögum sem maður hefur getað leitað stuðnings til, og þegar áföllin urðu í Súðavík þá stóð öll þjóðin með mér. Það hjálpar.“

Fjölskylda

Fyrri kona Hafsteins var Salvör Jóhannesdóttir leikskólakennari, f. 30.10. 1957. Þau bjuggu í Hveragerði 1980-1984. Þau slitu samvistir. Seinni kona Hafsteins var Berglind María Kristjánsdóttir húsmóðir, f. 12.2. 1963. Þau bjuggu í Súðavík 1986-1995. Eftir snjóflóðið 1995 fluttu þau í Mosfellsbæ og þaðan á Kjalarnes. Þau slitu samvistir 2014.

Börn Hafsteins og Salvarar eru 1) Jóhanna Helga Hafsteinsdóttir, f. 21.11. 1976, d. 1.5. 2006, sambýlismaður hennar var Gustav Pétursson, f. 7.7. 1979. Þeirra dóttir er Katrín Valgerður Gustavsdóttir, f. 17.4. 2003. 2) Valgerður Björg Hafsteinsdóttir, f. 29.9. 1980, hjúkrunarfræðinemi, eiginmaður hennar er Ólafur Brynjar Bjarkason, f. 28.12. 1977. Börn þeirra eru Matthildur Agla Ólafsdóttir, f. 20.8. 2005, Nói Hrafn Ólafsson, f. 25.9. 2007, Sölvi Steinn Ólafsson, f. 11.10. 2012, og Baldur Orri Ólafsson, f. 12.9. 2014.

Börn Hafsteins og Berglindar eru 3) Hrefna Björg, f. 10.8. 1987, d. 16.1. 1995, 4) Kristján Númi Hafsteinsson, f. 7.10. 1990, d. 16.1. 1995; 5) Aðalsteinn Hrafn Hafsteinsson, f. 29.9. 1992, d. 16.1. 1995; 6) Íris Hrefna Hafsteinsdóttir, f. 13.12. 1996, húðflúrari; 7) Birta Hlín Hafsteinsdóttir, f. 25.6. 1998, nemi.

Systir Hafsteins samfeðra er Sigrún Aðalsteinsdóttir, f. 26.4. 1961, húsmóðir, búsett í Danmörku. Systkini Hafsteins sammæðra eru: Sigurður Lárusson, f. 10.4. 1944, kaupmaður, búsettur í Reykjanesbæ; Hafdís Eiríksdóttir, f. 19.11. 1952, d. 15.5. 1953; Guðrún Hafdís Eiríksdóttir, f. 7.6. 1957, framhaldsskólakennari, búsett í Reykjavík; Guðlaugur Eiríksson, f. 16.4. 1959, bifreiðarstjóri, búsettur í Garðabæ; Ásta Ellen Eiríksdóttir, f. 14.9. 1963, stuðningsfulltrúi, búsett í Danmörku.

Foreldrar Hafsteins voru: Aðalheiður Halldórsdóttir, f. 20.5. 1927, d. 17.9. 2005, starfsstúlka, búsett í Reykjavík, og Aðalsteinn Kjartansson, f. 11.5. 1925, d. 27.1. 1991, sjómaður í Reykjavík.

Kjörforeldrar Hafsteins voru hjónin Valgerður Haraldsdóttir, f. 23.8. 1909, d. 6.11. 2002, húsmóðir, og Númi Björgvin Einarsson, f. 1.11. 1915, d. 3.3. 1990, verkamaður og sjómaður. Þau voru búsett á Patreksfirði.