Anna María Elísabet fæddist á Stóra-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi 10. júní 1927. Hún lést 10. mars 2021 á Hjúkrunarheimilinu Eir.
Elsa, eins og hún var alltaf kölluð, var dóttir Rósu Lárusdóttur frá Breiðabólsstað á Skógarströnd, f. 3. febrúar 1904, d. 17. mars 1987, og Þórarins Árnasonar frá Stóra-Hrauni, f. 8. ágúst 1898, d. 8.ágúst 1990.
Systur Elsu eru: Kristín Guðríður, f. 1922, látin, Lára Arnbjörg, f. 1924, látin, Anna María Elísabet, f. 1926, dó ung, Elín, f. 4.11. 1929, dó ung, Inga Erna, f. 31.10. 1930, dó ung, Elín, f. 2.2. 1932 látin, Inga Erna, f. 8.11. 1933, og Gyða f. 28.4. 1935.
Þann 28. október 1949 giftist Elsa Stefáni Ólafi Gíslasyni, f. 9. júní 1927, d. 23. október 2019. Foreldrar Stefáns voru Guðborg Ingimundardóttir frá Staðarhóli í Saurbæ í Dalasýslu, húsmóðir, f. 20. desember 1896, d. 21. ágúst 1931, og Gísli Jónsson frá Galtavík, bóndi, f. 3. mars 1895, d. 27. nóvember 1929.
Börn Stefáns og Elsu eru: 1) Þórarinn Örn, f. 14.2. 1950, fv. bankastarfmaður, giftur Piyu Damalee, f. 1972. Börn þeirra eru Árni, f. 1993, Stefán, f. 1999, og Sonja, f. 2002. 2) Gísli, f. 10.1. 1952, dagskrárstjóri, kvæntur Huldu Arndísi Jóhannesdóttur, f. 1959. Börn þeirra eru Guðrún, f. 1980, gift Dennis Erixon, f. 1982, og Elísabet, f. 1984. 3) Rósa, fv. skrifststm., f. 31.7. 1953, gift Óskari Sveinbirni Jóhannessyni, f. 1954. Börn þeirra eru Elsa, f. 1976, gift Birgi Jónssyni, f. 1970, eiga þau tvö börn. Eva Sigrún, f. 1981, maki Einar Kristjánsson, f. 1980, þau eiga þrjár dætur. Stefán Örn, f. 1987, maki Erna Arnardóttir, f. 1989, þau eiga eina dóttur. 4) Erna viðskiptafræðingur, f. 30.3. 1962, gift Axel Skúlasyni, f. 1960. Dætur þeirra eru Anna María, f. 1988, gift Atla Steini Valgarðssyni, f. 1988, og eiga þau tvö börn, Karen, f. 1990, gift Margeiri Stefánssyni, f. 1986, og eiga þau tvö börn. Hlín, f. 1997, maki Þórarinn Leví Traustason, f. 1997.
Elsa ólst upp á Stóra-Hrauni til 18 ára aldurs en þá flutti hún með foreldrum sínum og yngri systrum á Drangsnes. Þar ráku foreldrar hennar matsölu í tvö ár og starfaði Elsa þar. Hún var tvítug þegar hún flutti suður með foreldrum sínum og fékk vinnu á Prjónastofu Ólafs. Eftir að börnin fæddust var hún heimavinnandi. Elsa tók virkan þátt í störfum eiginmanns síns, eins og rekstri Bílaleigunnar Fals hf. og byggingarframkvæmdum. Elsa var mikil handavinnukona og eru ófá útsaumsstykkin sem liggja eftir hana.
Útför Elísabetar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 22. mars 2021. Sökum aðstæðna verða aðeins nánustu ættingjar og vinir viðstaddir.
Elsku amma Elsa,
það er margt sem fer í gegnum hugann þegar ég hugsa til þín. Þegar ég hugsa til þín og afa. Þið voruð eitt í mínum huga og þannig leyfi ég því að vera, huggun harmi gegn að þið séuð nú saman aftur. Minningarnar eru svo góðar og svo margar. Ég rifjaði upp margar af mínum bestu minningum með þér síðustu vikurnar og það sem mátti hlæja að sumum þeirra. Ein sú sem okkur fannst alltaf jafn fyndin var þegar þú vildir ekki að ég og Guðrún færum niður að hliði fyrir vestan svo þú sagðir okkur að það væri krókódíll í ánni og þegar við heyrðum svo í kind jarma uppi í hlíð þá vorum við nokkuð vissar um að það væri krókódíllinn svo við hlupum eins og fætur toguðu aftur heim. Þar beiðst þú og veltist um af hlátri. Ekki hlóstu minna þegar þú lést mig skræla kartöflur fyrir vestan í fyrsta skipti 12 ára. Þar bakaðir þú líka bestu flatkökur í heimi, bestu kleinurnar og vínarbrauðið góða. Fyrir vestan kenndir þú mér líka að spila og leggja kapal og þú varst alltaf til í að spila við mann. Lengi fórum við á hverjum laugardegi ýmist í Húnabúð eða Breiðfirðingabúð að spila félagsvist og aðra staði ef það var í boði.
Þar til um síðustu áramót bjuggum við fjölskyldan á Sogaveginum þar sem þið afi áttuð lengi heima. Það var alltaf eitthvað svo notalegt að búa í húsinu ykkar enda minningarnar margar. Þar gafstu okkur suðusúkkulaði og kaffi með til að dýfa í, og áttir alltaf PK-tyggjó og súkkulaðirúsínur. Ég fékk líka oft að gista hjá þér þegar afi var að fljúga og maður fékk aldrei nóg af því að skoða alla skartgripina þína. Það er fyndið að hugsa til þess að mér fannst alltaf svo leiðinlegt þegar þú fékkst gesti því þá fann ég að ég hafði ekki óskipta athygli þína á meðan.
Það er ekki hægt að tala um minningar nema minnast á Flórída. Fyrir utan allar fjölskylduferðirnar okkar þangað yfir jól og áramót erum við öll orðin ansi heimavön í Dunedin þar sem þið afi dvölduð löngum stundum á meðan heilsan leyfði. Ég fór líka í eitt skiptið ein með ykkur afa og þegar þér var hætt að lítast á alla bolina sem ég keypti mér var ég farin að fela þá undir dýnunni minni. Ég held að ég hafi samt ekki átt þessi innkaupagen langt að sækja amma, þér fannst skemmtilegast að kaupa fínar snyrtivörur næstum til þess eins að fá gjöfina sem fylgdi með í kaupbæti. Þú varst líka svo glæsileg, alltaf vel til höfð, með nýlagt hár, lakkaðar neglur og varalit. Líklega í nýrri blússu líka. Ekki furða að þú hafir verið kölluð drottning til síðasta dags.
Amma, þú varst líka góð og ég sagði þér að mér þótti svo vænt um hvað þú varst dugleg að hafa samband við mig þegar við misstum Helenu Ósk, til að athuga hvernig við hefðum það.
Síðasta ár var erfitt, það var erfitt að fá ekki að hitta þig eins og vanalega, sérstaklega þar sem afi, kletturinn þinn, var þá nýlega farinn. Þá kom iPadinn sér vel.
Elsku amma, söknuðurinn er mikill en ég brosi vitandi af þér hjá afa. Kysstu hann frá okkur.
Við sjáumst seinna amma mín.
Þín
Eva
Það er eiginlega ekki hægt að tala um mömmu án þess að tala um pabba því svo náin voru þau. Samband þeirra einkenndist af ást, væntumþykju og virðingu. Þau voru ekki bara foreldrar mínir heldur einnig mínir bestu vinir.
Mamma var hörkudugleg, hávaxin, glæsileg og alltaf vel til höfð. Á vorin voru allir veggir gerðir hreinir með Handy Andy, gardínur þvegnar og helst húsgögnum raðað upp á nýtt. Á haustin tók hún slátur, úrbeinaði, saltaði í tunnu og setti í súr. Pabbi keypti risa bakarofn í Ameríku þegar þau fluttu í Hátúnið svo hún gæti bakað nógu mikið í einu. Hjá henni voru matar- og kaffitímar á réttum tíma og ekki má gleyma kvöldkaffinu. Þegar árin færðust yfir var baksturinn samstarfverkefni hjá mömmu og pabba. Aldrei var sparað við okkur systkinin í mat og berum við þess öll merki.Mamma var hins vegar alltaf grönn og mikil skvísa.
Mamma hafði mjög gaman af að spila, ólst upp við það í gamla daga. Hún kenndi öllum barnabörnunum, líka vinum þeirra, að spila á spil. Hún spilaði bridge með vinkonum í mörg ár og eru margar góðar minningar tengdar spilaklúbbunum. Hún var með sérstakt spilaborð, spiladúk og spilaservéttur allt í stíl. Seinni árin stunduðum við mæðgur félagsvist út um allan bæ. Mamma var oft mjög heppin í spilum. Mér er sérstaklega minnisstætt eitt skiptið þegar við vorum að spila í Kópavogi. Mamma vann nánast öll 24 spilin og endaði með 197 slagi.
Mamma var mikil handavinnukona. Nú yljar manni að horfa á gersemarnar sem eftir hana liggja. Ef öllu væri raðað á einn stað gæti maður ekki ímyndað sér að nokkur manneskja hefði áorkað öllum þessum listaverkum. Mamma gerði mikið af krossgátum í gegnum tíðina og sagði að það héldi minninu við. Hún virðist hafa haft á réttu að standa, nema það séu líka Stóra-Hrauns-genin. Alla vega var hún með allt á hreinu fram til hinstu stundar.
86 ára fékk hún sér iPad. Hún opnaði Facebook svo hún gæti fylgst með og talað við fjölskylduna, notaði Youtube og lagði kapal. Hún var alveg óhrædd við að fikta. Pabba fannst oft nóg um og spurði hvort hún ætlaði ekki að reyna að klára frekar teppið sem hún væri að sauma, frekar en að hanga í þessari tölvu.
Mamma kvartaði aldrei og var lagin við að gera gott úr öllu. Þetta síðasta ár reyndi virkilega á. Ég hafði miklar áhyggjur af henni því hún var mikil félagsvera. Hún gaf alltaf sama svarið, „ég hef það svellandi fínt“ og bað mig að hafa ekki áhyggjur af sér. Henni tókst alltaf að hugga mig og hughreysta.
Nú eru mamma og pabbi saman á ný og hafa það „svellandi fínt“ í sumarlandinu.
Þín dóttir
Erna.
Fyrstu minningar mínar um ömmu eru af Sléttuveginum en þar bjuggu amma og afi frá því ég var þriggja ára gömul. Á heimili ömmu og afa var alltaf svo gott að vera, bæði hlýtt og notalegt. Þegar ég lít til baka er ilmurinn af nýbökuðu bakkelsi ömmu mér einstaklega minnisstæður. Allt sem hún hafði fram að færa var svo ómótstæðilega gott, hvort sem það var nýbakaðar flatkökur, vínabrauð eða appelsínukakan hennar fræga. Amma sat oft í stólnum sínum við gluggann og var að sauma í en eftir að hún fékk sér iPad eyddi hún miklum tíma í honum. Það er mér svo minnisstætt þegar við amma horfðum saman á þættina með Hemma Gunn og börnunum. Það sem við gátum hlegið saman yfir þessu, aftur og aftur.
Amma var svo mikil drottning í alla staði. Amma dvaldi gjarnan í Flórída og á unglingsárum mínum fór hún oft fyrir mig í Forever 21 þar sem hún vissi alveg hvað væri í nýjustu tísku. Þegar við amma fórum saman í búðir vissi ég alltaf hvar ég ætti að finna hana, þar sem veskin voru. Þar gat hún sko eytt tímanum. Þótt amma væri komin í hjólastól stoppaði það hana ekki frá því að fara í búðir. Hún notaði rafskutlu og keyrði um á fleygiferð milli rekka, það má nánast segja að hún hafi verið stórhættuleg á henni.
Vesturferðirnar okkar einkenndust af mikilli spilamennsku. Amma kenndi mér að spila þegar ég var lítil og gaf sú gamla yfirleitt ekkert eftir. Amma vildi helst spila allan daginn og varð hún yfirleitt móðguð ef ég vildi frekar fara út eða horfa á sjónvarpið. Skemmtilegast var að fara upp í rúm til ömmu og hlusta á sögurnar hennar á kvöldin, ég mun varðveita allar þessar sögur sem mér þykir svo óskaplega vænt um.
Amma hafði alltaf mikinn áhuga á því sem ég var að gera og það var alltaf svo gaman að spjalla við hana um daginn og veginn. Alltaf nennti hún að hlusta á mínar vangaveltur varðandi lífið og tilveruna og veita mér ráðleggingar. Amma hafði mikinn áhuga á náminu mínu í hjúkrunarfræði og hefur veitt mér mikinn stuðning síðustu ár. Hún var alltaf reiðubúin að aðstoða mig, hvort sem það var að taka viðtal við hana fyrir verkefni, undirbúningur fyrir verklegt próf þar sem ég skoðaði hana bak og fyrir eða hugsa til mín þegar ég var í prófum. Við amma hlökkuðum mikið til útskriftarinnar í vor og því ætluðum við sko aldeilis að fagna og skála saman með vodka í Sprite! Þótt amma verði ekki í þeirri mynd sem ég hefði viljað á þeim degi veit ég að hún verður með mér í anda og skálar við mig að ofan.
Elsku amma mín, takk fyrir umhyggjuna, stuðninginn, húmorinn og allar yndislegu og ógleymanlegu stundirnar okkar saman. Ég mun sakna þín þangað til við hittumst á ný.
Þín vinkona
Hlín.
Þú varst einstök kona, hreinskilin og með húmorinn í lagi. Þú varst alltaf glæsileg. Þér fannst gaman að hafa þig til og hafðir mikinn áhuga á fötum og skarti. Þú varst aldeilis ánægð þegar ég fór í Snyrtiskólann og notaði þig sem tilraunadýr fyrir ýmsar snyrtimeðferðir. Þegar ég nuddaði á þér fæturna þá lygndirðu aftur augunum og sagðist vera komin í himnaríki.
Þú varst dugleg að baka og alltaf nóg til með kaffinu, enda kaffitímarnir mjög heilagir hjá ykkur afa. Það var alltaf notalegt hjá ykkur afa inni á Sléttuvegi. Það var gaman að koma í heimsókn og spjalla um daginn og veginn. Þið rifjuðuð gjarnan upp gamla tíma og sögðuð mér frá ævintýrum sem þið lentuð í á ferð ykkar og flugi. Samband ykkar afa var einstaklega fallegt. Þið voruð svo samstillt að þið voruð eins og eitt.
Ég er heppin að hafa átt margar dýrmætar stundir með þér í gegnum árin. Allar Flórídaferðirnar þar sem við versluðum eins og brjálæðingar. Þegar fæturnir á þér voru farnir að gefa sig léstu það sko aldeilis ekki stoppa þig í búðunum. Þú náðir þér í rafmagnshjólastól og „knúsaðir“ um allt. Það tók smá tíma að venjast rafmagnshjólastólnum og ég man að þú bakkaðir niður nokkrar manneskjur meðan þú vast að ná tökum á þessu. Þú lést það samt ekki stoppa þig og hlóst að þessu öllu saman.
Ég á margar góðar minningar af þér og afa í Gerði. Eitt skiptið á leiðinni vestur keyptir þú heilan kassa af happaþrennum sem tók okkur heilan dag að skafa með litlum sem engum gróða. Þegar vestur var komið var uppáhaldsdrykknum þínum, vodka og Sprite, hellt í fínu kristalsglösin og ABBA sett á fóninn þannig að hljómaði um alla sveit. Eftir kvöldmatinn var spilað enda varst þú sannkölluð spiladrottning. Ég lærði fljótt að það voru engir sénsar gefnir hjá þér þegar kom að spilum. Á morgnana var svo gaman að skríða upp í rúm til þín og þú sagðir mér sögur frá því þegar þú varst lítil. Sumar sögurnar voru svo lygilegar að ég vissi oft ekki hvað var satt og hvað var logið. Allar sögunar áttu það samt sameiginlegt að vera bráðfyndnar, þú varst bæði fyndinn og góður sögumaður.
Elsku amma, takk fyrir allar dýrmætu stundirnar og skemmtilegu sögurnar þínar sem ég mun halda áfram að segja alla ævi. Ég veit að nú eruð þið afi sameinuð á ný á betri stað. Ég veit að þið afi munuð áfram passa upp á okkur og fólkið ykkar eins og þið gerðuð alla tíð. Í kvöld mun ég setja ABBA á fóninn og fá mér vodka og Sprite þér til heiðurs. Skál fyrir þér, elsku amma mín, þú varst einstök kona sem ég mun aldrei gleyma. Ég elska þig amma mín.
Þín ömmustelpa,
Anna María Axelsdóttir.