Sigurvíma Íslenska liðið fagnaði vel og innilega í Skopje í gærkvöldi.
Sigurvíma Íslenska liðið fagnaði vel og innilega í Skopje í gærkvöldi. — Ljósmynd/Robert Spasovski
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2021 Bjarni Helgason bjarnih@mbl.

HM 2021

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Ég er ánægður með það hvernig stelpurnar komu inn í leikinn og kláruðu verkefnið með miklum sóma,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið eftir 33:23-sigur íslenska liðsins gegn Litháen í lokaleik sínum í 2. riðli undankeppni HM í Skopje í Norður-Makedóníu í gær.

Ísland er komið áfram í umspil um laust sæti á HM 2021 sem fram fer á Spáni í desember en íslenska liðið hafnaði í öðru sæti riðilsins með 4 stig, tveimur stigum minna en topplið Norður-Makedóníu.

„Það komu kaflar hér og þar sem voru ekkert sérstakir hjá okkur en á sama tíma var þetta þriðji leikur liðsins á þremur dögum og ég er sáttur,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

Íslenska liðið tapaði með sjö marka mun í fyrsta leik undankeppninnar en vann svo tvo mjög góða sigra gegn Grikklandi, 31:19, og Litháen, 33:23, í lokaleikjum sínum í undankeppninni.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með það hvernig stelpurnar mæta í þessa tvo leiki og klára þetta mjög sannfærandi. Leikurinn gegn Norður-Makedóníu var erfiður og það var mikið áfall fyrir okkur að missa Steinunni sem er ekki bara leiðtogi liðsins inn á vellinum heldur líka utan hans.

Við misstum svo Sunnu líka sem er einnig leiðtogi í þessu liði en sem betur fer er fullt af öðrum leiðtogum í þessu liði sem stigu upp þegar mest á reyndi. Ég er ánægður með þessa tvo leiki gegn Grikklandi og Litháen og hvernig við fórum áfram í umspilið.“

Frammistaðan til fyrirmyndar

Þrátt fyrir áföllin í Skopje stigu aðrir leikmenn liðsins upp og þá voru margir leikmenn að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu.

„Það var fullt af jákvæðum punktum í okkar leik, bæði í sókn og vörn. Við missum báða miðverðina okkar út en þeir leikmenn sem komu inn í þetta, Helena Rut [Örvarsdóttir] og Eva Björk [Davíðsdóttir] komu báðar frábærlega inn í vörnina.

Ég fékk mörg góð svör eftir eitt og hálft ár án keppnisleikja og eins er ég gríðarlega sáttur við ungu stelpurnar sem komu inn í þetta. Þær voru að stíga sín fyrstu skref með liðinu og karakterinn og frammistaðan var til fyrirmyndar,“ bætti Arnar við í samtali við Morgunblaðið.

Umspilsleikirnir fara fram 16. eða 17. apríl og 20. eða 21. apríl en leikið verður heima og að heiman.

Dregið verður í umspilið í dag en Ísland verður í neðri styrkleikaflokki þegar drátturinn fer fram og getur mætt Tékklandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Svartfjallalandi, Póllandi, Rúmeníu, Rússlandi, Serbíu, Slóveníu eða Svíþjóð.

Mörk Íslands gegn Litháen: Lovísa Thompson 6, Birna Berg Haraldsdóttir 4, Rut Jónsdóttir 4/1, Tinna Sól Björgvinsdóttir 4, Sigríður Hauksdóttir 4, Ásdís Guðmundsdóttir 4, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Ragnheiður Júlíusdóttir 2, Eva Björk Davíðsdóttir 1.