Einvígi Alyesha Lovett, t.v, og Denise Palmer, t.h, eigast við í Ólafssal.
Einvígi Alyesha Lovett, t.v, og Denise Palmer, t.h, eigast við í Ólafssal. — Ljósmynd/Árni Torfason
Þóra Kristín Jónsdóttir átti stórleik fyrir Hauka þegar liðið brúaði bilið milli toppliðs úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, með stórsigri gegn Snæfelli í Ólafssal í Hafnarfirði á laugardaginn.

Þóra Kristín Jónsdóttir átti stórleik fyrir Hauka þegar liðið brúaði bilið milli toppliðs úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, með stórsigri gegn Snæfelli í Ólafssal í Hafnarfirði á laugardaginn. Þóra Kristín skoraði 25 stig, þar af sjö þriggja stiga körfur úr ellefu skotum, og þá tók hún einnig átta fráköst og gaf ellefu stoðsendingar en leiknum lauk með 98:68-sigri Hafnfirðinga.

*Þá er Keflavík komin á beinu brautina í deildinni á nýjan leik eftir 74:51-sigur gegn Skallagrími í Blue-höllinni í Keflavík. Leikurinn var í járnum allt þangað til í fjórða leikhluta en þá skoruðu Keflvíkingar 19 stig gegn 5 stigum Skallagríms. Daniela Wallen átti stórleik fyrir Keflavík, skoraði 34 stig og tók nítján fráköst.

*Ásta Júlía Grímsdóttir var stigahæst Valskvenna þegar liðið heimsótti KR í DHL-höllina í Vesturbæ en hún skoraði 20 stig í 87:67-sigri Vals. Valskonur leiddu 47:31 í hálfleik og var eftirleikurinn auðveldur eftir það.

Annika Holopainen var atkvæðamest í liði KR með 21 stig.

*Þá átti Ariel Hearn stórleik fyrir Fjölni þegar liðið fékk Breiðablik í heimsókn í Dalhús í Grafarvog.

Hearn skoraði 37 stig og tók fjórtán fráköst en leiknum lauk með þriggja stiga sigri Fjölnis, 80:77.

Mikið jafnfræði var með liðunum allan leikinn en Breiðablik leiddi með fimm stigum fyrir fjórða leikhluta, 63:58.

Iva Georgieva var stigahæst í liði Breiðabliks með 20 stig.