Eldfjör Gríðarlegur áhugi er á því að skoða eldgosið í Geldingadölum. Þægilegast er að koma þangað með þyrlu.
Eldfjör Gríðarlegur áhugi er á því að skoða eldgosið í Geldingadölum. Þægilegast er að koma þangað með þyrlu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is „Það er enn þá geðveikisleg eftirspurn eftir þessu flugi. Það er bara eins og þetta sé síðasta eldgosið á Íslandi. Við höfum ekki einu sinni náð að svara öllum póstunum,“ segir Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs, í samtali við Morgunblaðið.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

„Það er enn þá geðveikisleg eftirspurn eftir þessu flugi. Það er bara eins og þetta sé síðasta eldgosið á Íslandi. Við höfum ekki einu sinni náð að svara öllum póstunum,“ segir Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs, í samtali við Morgunblaðið.

Ferðaþjónstufyrirtæki, sem hafa þurft að lepja dauðann úr skel í faraldrinum, hafa vart náð að anna spurn eftir þyrluflugi yfir gossvæðið í Geldingadölum við Fagradalsfjall. Á þriðja hundrað manns eru á biðlista eftir þyrluferð með Norðurflugi en fjórtán ferðir voru farnar að gosinu í gær, með tveimur vélum sem taka fjóra manns hvor – einfaldur útreikningur leiðir því í ljós að á aðeins tveimur dögum hafa líklega um hundrað manns stigið upp í þyrlu Norðurflugs og barið gosið augum.

Ferðin kostar 44.400 á manninn og eru á bilinu tvö til þrjú hundruð manns á biðlista hjá Norðurflugi, sem er með þrjár þyrlur á sínum snærum, þar af tvær í gosferðum. Hratt fjölgar í þeim hópi og segir Birgir að fyrirtækið hafi ekki undan að svara tölvupóstum. En hve lengi gætu gosþyrstir þurft að bíða?

„Veðurspáin er ekki góð næstu daga en biðin gæti tekið allt að viku,“ segir Birgir. Gæta þarf fyllsta öryggis þegar ferðast er á svæðið.

Mbl.is náði tali af Birgi á laugardag og hófust þá þyrluferðir að svæðinu klukkan tvö um daginn og haldið með farþega að gosinu þar til fjögur, þar sem veðurspáin leit ekki nógu vel út.

Brjálæði

,,Gosið er á litlum stað í aflokuðum dal, það er margt gangandi fólk þarna og fólk er nánast við hraunið. Síðan eru þarna drónar, þyrlur og flugvélar, ég veit ekki alveg hverju ég á að líkja þessu við. Þetta er svona pinkulítið brjálæði. Það er ekkert hægt að segja neitt annað. Þarna verða menn að gæta fyllsta öryggis, eins og almannavarnir hafa margítrekað við fólk,“ segir Birgir. Spurður hvort algengt sé að drónar fljúgi hátt yfir svæðinu eða trufli umferð segir hann langflesta fylgja þeim fyrirmælum sem gefin hafa verið út, þó komi fyrir að fólk fljúgi drónum of hátt.

„Það er eiginlega engin leið til þess að vera vel búinn undir það – það er alltaf einhver sem fylgir ekki reglunum og flýgur drónanum of hátt. En langflestir fara eftir reglunum,“ segir hann.

Þá séu Íslendingar svolítið fyrir að brjóta reglurnar „enda erum við stórasta land í heimi, eins og Dorrit sagði,“ segir Birgir léttur.

Volcano Helicopter býður einnig upp á þyrluflug að gossvæðinu og á sömuleiðis erfitt með að anna eftirspurn. Fyrirtækið býður upp á þyrluferð að gosinu fyrir 57 þúsund krónur að sögn starfsmanns og var einmitt stofnað í kjölfar Holuhraunsgossins árið 2014.