Guðrún Helga Sigurðardóttir fæddist 16. september 1963. Hún lést 20. febrúar 2021.
Útför Guðrúnar Helgu fór fram 8. mars 2021.
Guðrún Helga Sigurðardóttir vinkona mín verður jörðuð í dag. Hún var hrifin frá okkur langt fyrir aldur fram aðeins 57 ára.
Allar minningarnar sem hrannast upp sem perlur um vinkonu mína eru svo skemmtilegar og yndislegar. Þær munu fylgja mér alla ævi. Vinkonuferðir, hittingar, brauðgerð og alls konar í lífi og leik. Við erum fæst búin að átta okkur á að hún sé farin og það mun taka langan tíma.
Guðrún Helga var blaðamaður og ferðafrömuður ásamt svo mörgu öðru. Skarpgreind, snaggaraleg og alltaf til í að standa upp og skreppa eitthvað út í buskann á vit ævintýra. Meir að segja til Berlínar með mér á ITB Berlín og við bjuggum á gistiheimili á fimmtu hæð með enga lyftu. Ódýrt og fínt gistiheimili inni í miðju strippbúlluhverfi Berlínar. Var bara eitt af ævintýrunum sem munu alltaf lifa í hjartanu.
Hún gaf einnig út bókina Traditional Icelandic Food sem margir ferðamenn mínir keyptu í minjagripaverslun Þingvalla. Hún hló mikið þegar hún heyrði af vinsældum bókarinnar hjá körlum frá Indónesíu. Þeir hafa nefnilega fyrir áhugamál að elda og eiginkonur gera þeim mikinn greiða þegar þeir fá að snerta eitthvað í eldhúsinu.
Guðrún Helga og maður hennar Friðrik eiga ferðaþjónustufyrirtæki sem þau stofnuðu og var/er hágæðarekstur í ferðaþjónustu. Sögurnar og minningarnar með Guðrúnu Helgu eru svo ótrúlega margar sem maður man. Hittingar á ferðamannastöðunum. Gistingar á Akureyri, Austfjörðum og víðar þar sem við hittumst hvor með sinn hópinn og áttum svo frístund um kvöld til að eiga vinkonugæðastundir í spjallinu og gönguferð.
Gulli og perlum að safna sér,
sumir endalaust reyna,
vita ekki að vinátta er,
verðmætust eðalsteina.
Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina.
En viltu muna að vináttan
er verðmætust eðalsteina.
(Hjálmar Freysteinsson)
Hvíl í friði elsku vinkona.
Mín dýpsta samúð til eiginmanns og fjölskyldu.
Þórey Anna Matthíasdóttir.