Guðrún Freysteinsdóttir fæddist í Kennaraskólanum við Laufásveg 2. ágúst 1932. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 10. mars 2021. Foreldrar hennar voru Freysteinn Gunnarsson, skólastjóri Kennaraskólans, f. 28.8. 1892, d. 27.6. 1976, og Þorbjörg Sigmundsdóttir, f. 11.11. 1900, d. 1.12. 1976. Bróðir Guðrúnar var Sigmundur verkfræðingur, f. 30.9. 1934, d. 15.7. 2016, eftirlifandi eiginkona hans er Sigríður Jónsdóttir.
Guðrún giftist 28. mars 1959 Garðari Inga Jónssyni loftskeytamanni, f. 28.10. 1932. Þau eignuðust fimm dætur: 1) Ólöf sagnfræðingur, f. 29.6. 1959. Dætur hennar eru: a) Katla Ísaksdóttir, f. 11.7. 1984, gift Guðlaugi Hávarðarsyni, f. 4.6. 1981. Sonur þeirra er Styrkár, f. 5.7. 2011. b) Guðrún Heiður Ísaksdóttir, f. 14.1. 1989, gift Sveini Steinari Benediktssyni, f. 7.7. 1981. Dóttir þeirra er Dýrfinna, f. 3.7. 2014. 2) Sigríður, starfsmaður hjá Cargolux í Lúxemborg, f. 6.1. 1963, sambýlismaður hennar er Romain Gales, f. 22.2. 1958. Sonur þeirra er Jón Pol, f. 24.2. 1995, sambýliskona hans er Joëlle Donven f. 5.2. 1995. 3) Ingunn kennari, f. 21.8. 1964. 4) Rúna Björg kennari, f. 12.6. 1971, sambýlismaður hennar er Sæmundur Oddsson, f. 7.4. 1969. 5) Steinunn umhverfisskipulagsfræðingur, f. 17.8. 1976, sambýlismaður hennar er Ari Rafn Sigurðsson, f. 9.5. 1969. Börn þeirra eru Pia María, f. 6.9. 2007 og Kár Rafn, f. 29.1. 2010.
Guðrún og Garðar héldu fyrst heimili á Hagamel 43 í Reykjavík og síðan á Háaleitisbraut 32. Árið 1972 fluttu þau til Lúxemborgar. Árið 1988 fluttu þau aftur heim og bjuggu eftir það í húsinu sem þau byggðu í Byggðarenda.
Guðrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953 og kennaraprófi 1955. Hún kenndi einn vetur við Melaskólann, var um hríð bankaritari í Landsbankanum en lengst af var hún heimavinnandi húsmóðir.
Útför Guðrúnar fer fram frá Bústaðakirkju 22. mars 2021 kl. 13.
Guðrún Freysteinsdóttir tengdamóðir mín er fallin frá. Alltaf tók hún vel á móti mér með bros á vör og sló á létta strengi. Guðrún vildi hafa líf í kringum sig, helst hafa fólkið sitt hjá sér en hélt líka góðum tengslum við vini sína. Alltaf var manni boðið eitthvað í gogginn og oftar en ekki var það eitthvað heimabakað. Hún var viljug að bjóða fólki bæði í mat og kaffi. Lengi vel mættu þau Guðrún, Garðar og Inga í mat til okkar á mánudögum. Eftir matinn horfðum við á fréttirnar og Kastljósið og sumir fengu sér líka blund yfir sjónvarpinu.
Á Byggðarenda tókum við oftar en ekki í spil og þá varð rommí fyrir valinu, keppnin var hörð þótt sumir segðu að þeim væri sama hver ynni. Henni fannst líka gaman að leggja kapal. Hún var mikil handavinnukona og var alltaf með eitthvað á prjónunum. Hún tók handavinnuna með sér hvert sem hún fór og prjónaði í bílnum ef farið var út úr bænum.
Við Rúna Björg ferðuðumst töluvert með þeim hjónum Guðrúnu og Garðari, meðal annars til Lúxemborgar. Þaðan átti Guðrún góðar minningar og var gaman að fá að heimsækja hennar fornu slóðir með þeim Garðari. Við fórum líka eftirminnilega ferð í kringum landið og aðra til Vestmannaeyja en þangað hafði Guðrún aldrei komið áður. Guðrún vildi fara í Ribsafari en úr því varð ekki því það vorum við sem þorðum ekki en Guðrún var hvergi bangin. Ef veðrið var gott fórum við stundum í bíltúr í Hverahlíð, sumarbústaðalandið á Reykjum í Ölfusi þar sem faðir hennar byggði bústað sem Guðrún dvaldi mikið í sem barn með foreldrum sínum og seinna einnig með sínum börnum. Þessi staður var henni afar kær. Eftir að bústaðurinn var rifinn útbjó fjölskyldan litla laut með nestisborði og þar höfum við ósjaldan gætt okkur á dýrindisnesti og drukkið heitt súkkulaði með.
Ég minnist Guðrúnar af hlýhug og er þakklátur fyrir að hafa kynnst henni. Margs er að minnast og minningarnar lifa áfram.
Sæmundur.
Takk fyrir allar góðu stundirnar elsku amma mín.
Pia María ömmustelpa.
Veistu ef þú vin átt
þann er þú vel trúir
og vilt þú af honum gott geta.
Geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.
(Úr Hávamálum)
Kári Rafn.
Sígur fögur sól í hafið
sveipar myrkur hljóða strönd.
Auðn og skuggum allt er vafið,
óðar hyljast dagsins lönd.
Birta og hlýja er horfin skjótt.
Hljóð og þögul ríkir nótt.
Svo er lífið, líkt og dagur,
liðið fyrr en nokkur veit.
Hinsti geislinn gullinfagur
glitrar yfir foldar reit.
Eftir liðinn ljúfan dag
ljósið dvín við sólarlag.
Dimmt er yfir hér í heimi,
harmaskuggi daginn fól.
Samt ei dvínar guðs í geimi
geislaskin af lífsins sól.
Bak við dauðans dimma haf
degi nýjum ljómar af.
(Freysteinn Gunnarsson)
Guðrún Heiður Ísaksdóttir
Fyrstu árin mín bjuggu amma, afi og þrjár móðursystra minna í Lúxemborg. Ein af mínum fyrstu minningum er þegar ég lagði land undir fót fjögurra ára gömul og heimsótti þau í „Bolandið“. Minningin er góð. Ég átti afmæli og fékk gjafir, en amma orðaði það oft hversu mikið hún hafi vorkennt mér að vera fjarri mömmu minni. Henni var annt um að nánir væru saman. Sjálf vildi hún alltaf hafa okkur hjá sér, stelpurnar og barnabörnin, og síðar barnabarnabörnin tvö. Tengdabörnin áttu líka sérstakan stað í hjarta hennar.
Amma mín var án efa færari en flestar húsmæður. Það átti hún að þakka því hversu mikla gleði hún upplifði við umönnun dætra sinna og afkomenda, þeirri natni sem hún sýndi við húsverk og heimilishald, og ekki síst við matseld. Heima hjá ömmu og afa á Byggðarenda átti ég alltaf góða máltíð vísa og desert að henni lokinni. Það var huggun að koma þangað á unglingsaldri og njóta þess að borða góðan mat og spila rommí við ömmu.
Þegar Gulli, maðurinn minn, kom til sögunnar komum við oft á Byggðarenda í fjölskylduboð og áttum góðar stundir með ömmu, afa og frænkum mínum. Þar ríkti væntumþykja og gleði, og eftirminnilegt hversu bjart var yfir okkur í borðstofunni og sparistofunni, prýddri dásamlegum útsaumuðum púðum eftir hana ömmu mína.
Amma var hógværust hannyrðakvenna og tók aldrei í mál að vera hrósað fyrir verk sín. Á kvöldin kom hún sér fyrir í sjónvarpsherbergi þeirra hjóna og prjónaði, saumaði út eða stoppaði í sokka. Hún var iðin við lestur og las bækur af skyldurækni, hvort sem henni líkaði þær eður ei. Eins sóttu þau afi leikhúsin og fóru þangað snyrtileg til fara eins og þau voru alltaf. Amma lét okkur vita hvort henni hefði líkað verkin eða ekki. Hún fylgdist með bókmenntum og listum, sótti sýningar sér til fræðslu og gamans, og las blöðin daglega.
Þegar leið á ævikvöld ömmu þótti mér vænt um hversu náin tengsl hún átti við Piu Maríu frænku mína sem verður fermd nú í vor. Ég minntist þess oft að hafa sjálf verið lítil ömmustelpa og fann þá hve dýrmæt ævin er, og hvernig hlutverk okkar breytast. Amma varð sýnilega glöð í hjartanu þegar Pia birtist í dyragættinni. Henni leyfðist að knúsa ömmu sína og kyssa þrátt fyrir faraldurinn. Ég er viss um að þessi faðmlög voru ómetanleg fyrir ömmu á þessu stigi lífs hennar og fann oft hversu þakklát ég var fyrir þessa litlu björtu manneskju, og eins fyrir yngri bróður hennar, hann Kára Rafn, og fyrir Styrkár son minn og Dýrfinnu systurdóttur mína. Börnin áttu það til að spila á hljóðfæri fyrir ömmu sína sem henni þótti mjög vænt um.
Guðrún Freysteinsdóttir var elskuverð og elskandi eiginkona, móðir, amma og langamma, tengdamamma og tengdaamma. Verk hennar, brosmildi og hlýja báru elsku hennar alltaf ótvírætt vitni.
Ég dái þig að eilífu, amma! Takk fyrir að sýna mér leyndarmálið um húsverkin.
Þín Katla
Katla Ísaksdóttir
Jón Sigmundsson (Nonni)