Erla Wigelund fæddist 31. desember 1928. Hún lést 22. febrúar 2021.

Útförin fór fram 12. mars 2021.

Kveðja frá Kaupmannasamtökum Íslands

Erla Wigelund fv. kaupmaður í Verðlistanum er fallin frá. Hún lét sig málefni verslunar og kaupmanna almennt miklu varða, jafnt í hennar sérgrein sem og öðrum greinum verslunar. Innan KÍ voru starfandi ein 16 sérgreinafélög; Félag vefnaðarvörukaupmanna var eitt þeirra. Erla var þar félagi með sína verslun í áratugi og lét mikið að sér kveða í félagsstarfinu, sat í stjórn félagsins og var formaður þess í fjölda ára. Nokkrir stofnlánasjóðir voru starfandi á vegum félaga innan KÍ; stofnlánasjóður skó- og vefnaðarvörukaupmanna var einn þeirra. Við stofnun hans var Erla kjörin í stjórn sjóðsins og sat þar í mörg ár. Hvert sérgreinafélag tilnefndi sinn félaga í fulltrúaráð KÍ. Þar var Erla fulltrúi síns félags um langt árabil. Það voru iðulega fjörlegar umræður á fundum og ætíð tók Erla mikinn þátt í þeim, var tillögugóð og fylgin sér, glaðlynd og skemmtileg. Erla var sæmd gullmerki KÍ og var vel að því komin fyrir langt og gott starf. Stjórn KÍ sendir aðstandendum Erlu innilegar samúðarkveðjur.

Ólafur Steinar Björnsson.