Jóhannes Þór Skúlason
Jóhannes Þór Skúlason
Andrés Magnússon andres@mbl.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

„Allar fréttir af tiltölulega skaðlausu gosi, sem lítur fallega út á myndum, hjálpa alveg örugglega til sem landkynning og nýtast í markaðssetningu almennt,“ segir Jóhannes Þór Skúlason hjá Samtökum ferðaþjónustunnar í samtali við Morgunblaðið.

„Ég veit ekki hversu mikið það ýtir beinlínis undir að fólk ferðist til landsins í sumar, en við höfum reynslu fyrir því að slíkt getur vakið mikinn áhuga á landinu.“

Hann segir að gosið hafi nú þegar hreyft við ýmsum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, ekki síst kannski þyrlufyrirtækjunum, sem ekki hafi haft undan við að fara með fólk í útsýnisflug yfir gosstöðvarnar.

„Áhrifin af gosinu eru þess vegna jákvæð á ýmsa lund, en ég treysti mér ekki til að segja hverju það skili þegar upp er staðið,“ segir Jóhannes Þór.

Hann segir að ýmis fyrirtæki í ferðaþjónustu séu þegar farin að nota myndir af gosinu til almennrar kynningar á landinu. „Mikilfenglegar myndir af eldgosum fara fljótt á flug um heiminn, þar sem ógurleg fegurð náttúrunnar í sinni hrikalegustu mynd hefur mikil áhrif. Þetta vekur alltaf mikla athygli og hún nýtist okkur.“

Jóhannes játar að ekki saki, að landið sé ögn að opnast. „Ákvörðunin um að opna fyrir bólusettu fólki utan Schengen og þá sem hafa mótefnavottorð, hún mun hjálpa mjög til við það. Svo verðum við að sjá hvernig og hvenær flugið kemst í gang, en við erum þegar farin að finna fyrir auknum áhuga erlendra flugfélaga.“