Guðni Einarsson gudni@mbl.is Lögreglustjórinn á Suðurnesjum lokaði í gær svæði næst gossprungunni í Geldingadölum. Vísindaráð almannavarna vakti athygli á því að stóri gígurinn gæti brostið og hraunstreymið breytt um stefnu á skömmum tíma.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum lokaði í gær svæði næst gossprungunni í Geldingadölum. Vísindaráð almannavarna vakti athygli á því að stóri gígurinn gæti brostið og hraunstreymið breytt um stefnu á skömmum tíma. Þá var einnig talin hætta á að önnur sprunga opnist.

Jóhann Helgason jarðfræðingur gekk að gosstöðvunum í gær. Hann taldi þessa lokun réttmæta vegna hættu á að svæðið gæti einangrast. Þá kom vatnsgufa upp úr sprungu þarna sem benti til þess að ekki langt þar undir væri kvika. Hann benti á að efnið í strompinum sem gýs væri óstöðugt og gæti gefið sig. „Það var virkilega mikil lífsreynsla að komast svona nálægt þessu og upplifa þetta,“ sagði Jóhann.

Hann gerði skýringarmynd um hraunrennsli í Geldingadölum. Hún er byggð á hæðargögnum frá Landmælingum Íslands (LMÍ). Hann sagði að mat sitt hefði ekki breyst eftir að hann skoðaði gosstöðvarnar.

„Gosstöðin er öll vel innan lægðarinnar. Það er ekki nema það rifni sprunga langt til suðurs eða norðurs sem þetta getur breyst,“ sagði Jóhann. Samkvæmt nýju hæðarlíkani er botn lægðarinnar um 180 m.y.s. Ekki fer að flæða út úr lægðinni fyrr en 209 m.y.s. hæð er náð. Fyllist skálin fer hraun að renna um skarð í henni austanverðri.

Jóhann telur að rennslið getið farið þaðan norðnorðaustur í Merardali en líklegra sé að það fari suðsuðvestur í Nátthaga. Þar er önnur lægð sem þarf að fyllast áður en rennslið getur haldið suðvestur að Ísólfsskála. Sú leið er um tveir kílómetrar. Í gær gaus aðallega í einum strompi og einum litlum hnúði.

„Ég held að um leið og þetta hækkar eitthvað leiti þunnfljótandi helluhraunið í lægri stöðu. Allan tímann sem ég var þarna var rennslið suðaustur úr gígnum svo fór kvikan til norðausturs. Austan við gíginn var hraun að byggjast upp að vestanverðu en þó austan við gíginn. Síðan kom bylgja sem flæddi austur yfir. Hraunið fer í lægstu stöðu þegar það er búið að byggja sig upp á einum stað,“ sagði Jóhann.