Hraunrennsli Glóandi hraunkvikan streymdi úr iðrum jarðar í Geldingadölum í gær. Í baksýn má sjá gígstrompinn sem gaus án afláts.
Hraunrennsli Glóandi hraunkvikan streymdi úr iðrum jarðar í Geldingadölum í gær. Í baksýn má sjá gígstrompinn sem gaus án afláts. — Ljósmynd/Jón Kjartan Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Nokkrir kostir eru í stöðunni varðandi framhald eldgossins í Geldingadölum, að mati dr. Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Nokkrir kostir eru í stöðunni varðandi framhald eldgossins í Geldingadölum, að mati dr. Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

„Einn er sá að gosið hætti áður en það fer að renna úr Geldingadölum, annar að það haldi áfram og fylli dalinn. Gígurinn getur stíflað rennslið til vesturs ofan í dalinn. Þá getur það fyllt þessa litlu skvompu sem er austan til og þá er miklu styttra í að hraun renni úr dalnum í Nátthaga eða Merardali ef það þá nær svo langt,“ sagði Magnús Tumi. „Það verður ekki fyrr en búið er að kortleggja þetta aftur út frá því hvernig hraunið er að byggjast upp sem við sjáum hvort það eru líkur á einhverri breytingu á hraunrennslinu.“

Hann sagði að eldgosið hefði verið rólegt og smátt í sniðum. Hraunrennsli af þessari stærðargráðu geti ekki farið mjög langt. Magnús Tumi sagði að ekki sjáist skýr merki um að dragi úr gosinu og það geti vel haldið áfram nokkurn tíma.

Kvikan sem kemur upp er ekki merki um að kvikugangurinn sé að tæmast. Inn í hann streyma sennilega 5-10 rúmmetrar á sekúndu. Ekki sjást enn sem komið er skýr merki um spennubreytingar í jarðskorpunni eftur að gosið hófst. Á meðan gosrásin er opin og gígarnir virkir eru ekki miklar líkur á að gossprunga opnist annars staðar, að mati Magnúsar Tuma. Ekkert er þó hægt að útiloka það.

Ekki hafa orðið stórir jarðskjálftar frá því eldgosið byrjaði. Magnús Tumi sagði vísbendingar um að á meðan pláss var neðanjarðar hafi kvikugangurinn stækkað í báðar áttir. Hann hætti að lengjast til suðurs og útlit fyrir að möguleikar til að glenna hann í sundur hafi minnkað. Þá fór gangurinn að hækka sem endaði með eldgosi þegar kvikan valdi auðveldustu leiðina upp á yfirborðið.

Mjög lærdómsríkt ferli

Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga austur að Kleifarvatni. Eru líkur á að virknin færist austur í Brennisteinsfjöll?

„Það eru engar vísbendingar um kvikuhreyfingar eða landris á því svæði,“ sagði Magnús Tumi. Jarðskjálftar og kvikuinnskot vestar á Reykjanesskaga valda spennulosun þar. Ekki er útilokað að það geti stuðlað að aukinni spennu í jarðskorpunni á skaganum austanverðum. Hann líkti þessu við margþættan kaðal. Bresti einn þátturinn eykst álagið á hina. „Það urðu stórir skjálftar í Brennisteinsfjöllum 1929 og 1968. Það má segja að það sé kominn tími á skjálfta. En honum þarf ekki endilega að fylgja neitt meira,“ sagði Magnús Tumi.

Jarðsagan sýnir að venjulega hefur ekki nema eitt eldstöðvakerfanna á Reykjanesskaga verið virkt í einu. Hver eldstöð hegðar sér með sínum hætti og það er ekkert geirneglt í þessu, eins og Magnús Tumi orðaði það. „Þetta eru fyrstu eldsumbrotin á Reykjanesskaga sem mælingar ná til. Menn voru lítið með jarðskjálftamælingar á 13. öld! Við erum því að fylgjast með þessum ferlum í fyrsta skiptið með mælingum. Þetta er mjög lærdómsríkt ferli,“ sagði Magnús Tumi.

Líkist dyngjugosbergi

„Þetta er tiltölulega frumstætt basalt og öðruvísi en það sem kom upp í sprungugosum á Reykjanesskaga á 9.-13. öld. Það líkist svolítið dyngjugosbergi sem er í eldri dyngjum á skaganum,“ sagði dr. Guðmundur Heiðar Guðfinnsson, bergfræðingur við Raunvísindastofnun HÍ. Hann greindi kviku úr eldgosinu í Fagradalsfjalli. Hún hefur meiri einkenni úthafshryggjabasalts en þess sem yfirleitt finnst á Íslandi. Að kvikan sé frumstæð þýðir að hún hefur verið tiltölulega stutt í jarðskorpunni frá því að hún kom úr möttlinum.

Á næstu dögum er von á niðurstöðum úr snefilefnagreiningum sem segja meira um kvikuna. Samsetning glers og kristalla bendir til að kvikan hafi verið 1.180-1.190°C heit eða um 20°C heitari en Holuhraunskvikan þegar hún kom upp.