Fræðakaffi verður á Borgarbókasafninu í Spönginni í dag kl. 17.15. Þá mun Særún Lísa Birgisdóttir þjóðfræðingur segja frá samskiptum hermanna og íslenskra pilta á hernámsárunum hér á landi. „Í skugga ástandsins eins og við flest þekkjum það blómstraði menning sem litlar sögur fóru af. Ef til vill mætti kalla það hinsegin ástandið. Eftir að landið var hernumið opnuðust dyr inn í nýjan heim hjá fjölda manna sem fram til þessa höfðu lifað í einangrun og felum með kynhneigð sína. Hafnarsvæðið og þar um kring ásamt nýuppsprottnum kaffi- og dansstöðum urðu þeir staðir þar sem karlmenn hittust og fáa grunaði nokkuð, enda augu flestra á samskiptum hinna erlendu dáta við íslenskar stúlkur,“ segir í tilkynningu um viðburðinn.
Særún er með MA-próf í þjóðfræði frá Háskóla Íslands og hefur í rannsóknum sínum horft til þess hvernig hinir ýmsu jaðarhópar birtast í sögnum, þjóðtrú og orðræðu hvers tímabils með sérstakri áherslu á samkynhneigða.