Dagbjartur Dagbjartsson rifjar upp á Boðnarmiði: „Hallgrímur Jónasson var oft fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands.

Dagbjartur Dagbjartsson rifjar upp á Boðnarmiði: „Hallgrímur Jónasson var oft fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands. Eitt sinn í náttstað kom upp koníaksflaska og var henni heilsað með þessum orðum:

Boðnarmjöður borinn er,

bráðvelkominn sértu,

jafnvel strax í gegnum gler

geislavirkur ertu.

Gleði eykur, glæðir von

goðafæðan drjúga.

Þetta sagði Salómon.

Sá var nú ekki að ljúga.“

Um þessa stöku Þorgeirs Magnússonar segir Ragnar Ingi Aðalsteinsson: „Endurvinnsluvísa. Þessi er dásamleg“:

Finni ég löngun, faðir minn,

að fá mér ögn í tána

hönd þín leiði mig út og inn

alla leið á krána.

Hjörtur Benediktsson yrkir við mynd af BBQ-kónginum til skýringar:

BBQ-kóngurinn kveikir eld

úr kolagrillinu rýkur

fullsaddir allir eru í kveld

íbúar Grindavíkur.

Norður í Mývatnssveit yrkir Friðrik Steingrímsson og spyr: „Er ég að missa af einhverju?“:

Latur gjarnan heima hangi

horfi varla á fréttirnar,

mér skilst að það sé gos í gangi,

getur einhver sagt mér hvar?

Hreinn Guðvarðarson svarar:

Inniveru oft þú kaust

(allir hugsa um sig)

Einhver veit það efalaust

en ekki að spyrja mig.

Indriði Aðalsteinsson hnykkir á:

Friðrik ekkert fann í blöðum

fróðleik engan sá á skjá.

Gos er núna á Geldingsstöðum.

Gengur býsna mikið á.

Anna Dóra Gunnarsdóttir segir að ef hún muni rétt hafi einhver verið að leggja til að samin verði klepraverk:

Þegar jörðin skekst og skelfur,

skutlar flákum hrauns um völl,

líst mér eins og eldsins elfur

ætli að hlaða kleprafjöll.

Guðrún Egilson orti eftir hrunið haustið 2008:

Þaðan geisar nú gjaldþrotahrina

og gapuxar benda á hina.

Mér ungri var kennt

og á það skal bent

að auður er valtastur vina.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is