Bólusetning Fólk fætt 1939 og fyrr fékk seinni skammt af bóluefni Pfizer.
Bólusetning Fólk fætt 1939 og fyrr fékk seinni skammt af bóluefni Pfizer. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Tæplega 4.000 manns hafa í vikunni fengið seinni skammtinn af Pfizer-bóluefninu í Laugardalshöll.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Tæplega 4.000 manns hafa í vikunni fengið seinni skammtinn af Pfizer-bóluefninu í Laugardalshöll. Að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, er um fólk fætt 1939 og eldra að ræða. Að auki fá um eitt þúsund manns sem fæddir eru árið 1945 bóluefni frá Moderna í vikunni.

Í næstu viku verður haldið áfram að gefa seinni skammtinn af bóluefni Pfizer. Þá verður lokið við að bólusetja árganga 1940, 1941 og 1942 að sögn Ragnheiðar, alls um 3.000 manns. „Hugsanlega náum við eitthvað að bæta við það, narta aðeins í '46-árganginn,“ segir hún.

Ragnheiður segir að útlit sé fyrir að staðan batni til muna eftir páska. „Þá fer þetta að glæðast, mér sýnist að skammturinn tvöfaldist til okkar. Þá höfum við nóg til að endurbólusetja þessa hópa og ná nokkrum árgöngum eftir það. Ég hugsa að fyrstu tvær vikurnar eftir páska náum við alla vega niður að 70 ára markinu.“

Enn er óvíst hvenær hægt verður að ljúka bólusetningu á heilbrigðisstarfsmönnum utan stofnana að sögn Ragnheiðar. Beðið er eftir ákvörðun sóttvarnalæknis um AstraZeneca-bóluefnið. Sama gildir með hóp fólks 64 ára og yngri sem er með undirliggjandi áhættuþætti. Báðir þessir hópar eru í biðstöðu.

Alls er nú búið að bólusetja 54.868 einstaklinga á Íslandi að því er fram kemur á covid.is. Af þeim eru 16.906 fullbólusettir.