Skotárás Heilbrigðisstarfsfólk sést hér yfirgefa kjörbúðina í Boulder þar sem tíu létust í skotárás í fyrrinótt.
Skotárás Heilbrigðisstarfsfólk sést hér yfirgefa kjörbúðina í Boulder þar sem tíu létust í skotárás í fyrrinótt. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Saksóknarar í Boulder í Colorado-ríki ákærðu í gær hinn 21 árs gamla Ahmad Alissa fyrir morð á tíu manns, en maðurinn hóf skotárás í kjörbúð í fyrrinótt. Átti fólk fótum fjör að launa áður en árásarmaðurinn var loks yfirbugaður af lögreglunni og dvaldist hann á sjúkrahúsi í gær, undir eftirliti, vegna skotsára sem hann hlaut í viðskiptum sínum við lögreglumenn.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Saksóknarar í Boulder í Colorado-ríki ákærðu í gær hinn 21 árs gamla Ahmad Alissa fyrir morð á tíu manns, en maðurinn hóf skotárás í kjörbúð í fyrrinótt. Átti fólk fótum fjör að launa áður en árásarmaðurinn var loks yfirbugaður af lögreglunni og dvaldist hann á sjúkrahúsi í gær, undir eftirliti, vegna skotsára sem hann hlaut í viðskiptum sínum við lögreglumenn.

Fórnarlömbin voru á aldrinum 20 til 65 ára, og var einn þeirra, Eric Talley, lögregluþjónn og sjö barna faðir. Lögreglan í Boulder sagði í gær að enn væri óvíst um ástæður þess að Alissa lét til skarar skríða.

Þetta er önnur stóra skotárásin í Bandaríkjunum í einni viku, og hafa árásirnar opnað enn á ný viðkvæma umræðu um byssulöggjöf sem geisað hefur til margra ára í Bandaríkjunum. Dómsmálanefnd öldungadeildarinnar hugðist þegar halda fund um leiðir til þess að fækka skotárásum í gær, en þingmenn hafa skipst í tvö horn eftir flokkslínum.

Demókratar hafa kallað eftir strangari löggjöf, sem meðal annars feli í sér að bakgrunnur allra sem kaupi sér skotvopn sé kannaður í þaula áður en kaupin séu samþykkt. Repúblikanar hafa hins vegar talið að fara verði gætilega í slíkar ráðstafanir, þar sem 2. viðbót stjórnarskrárinnar kveði sérstaklega á um að ekki megi skerða rétt Bandaríkjamanna til þess að búa sig vopnum.

Óþarft að bíða „mínútu lengur“

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og leiðtogi demókrata í deildinni, sagði í yfirlýsingu sinni að aðgerða væri þörf þegar í stað til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi „faraldur skotárása“, sem væri að hrella bandarískt samfélag.

Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína í gærdag vegna árásarinnar, og kallaði þar eftir því að þingið samþykkti bann gegn svonefndum árásarvopnum. Sagði Biden að hann þyrfti ekki „að bíða mínútu lengur, hvað þá klukkustund, til að stíga skref til almennrar skynsemi sem muni bjarga mannslífum í framtíðinni og til að hvetja kollega mína í fulltrúa- og öldungadeild til aðgerða.“

Sagði Biden að hægt væri að banna aftur árásarvopn og skothylkjahólf sem geti geymt fjölmörg skothylki, en Bandaríkjaþing samþykkti árið 1994 bann til tíu ára á slík vopn. „Þetta er ekki og ætti ekki að vera flokkspólitískt mál. Þetta er bandarískt mál. Það mun bjarga mannslífum, bandarískum lífum, og við verðum að grípa til aðgerða,“ sagði Biden í ræðu sinni.

Skoðanakannanir benda til þess að mikill meirihluti Bandaríkjamanna styðji hertari byssulöggjöf, og lýsti Biden því yfir í síðasta mánuði að hann vildi að þingið samþykkti lög um að kanna bakgrunn allra sem kaupa skotvopn. Sagði hann þá að ríkisstjórn sín myndi ekki bíða eftir næstu stóru skotárás til þess að grípa til aðgerða.

Reynt að loka glufum

Fulltrúadeildin samþykkti fyrr í mánuðinum tvö frumvörp um kannanir á bakgrunni fólks, en með þeim var stefnt að því að loka fyrir glufu í gildandi lögum, þar sem þeir sem keyptu sér skotvopn á byssusýningum gátu fengið það afhent án tafa. Var sú glufa talin hafa átt þátt í skotárás árið 2015 á kirkju í Charleston.

Frumvörpin tvö munu hins vegar ekki að óbreyttu ná í gegnum öldungadeildina, þar sem 60 atkvæði af 100 þarf fyrir flesta almenna lagasetningu til að ná í gegn. Flokkarnir tveir hafa nú hvor um sig fimmtíu þingsæti.

Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, sagðist hins vegar staðráðinn í að leggja frumvörpin fyrir deildina, þannig að þingmenn hennar gætu rökrætt og reynt að taka á ógninni sem stafaði af síendurteknum skotárásum.