Vinsældir Steindór segir að margir séu áhugasamir um kaup á gasmælum og grímum fyrir eldgosaferðir.
Vinsældir Steindór segir að margir séu áhugasamir um kaup á gasmælum og grímum fyrir eldgosaferðir. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við erum að reyna að afgreiða alla sem vilja fá mæla á sem skemmstum tíma en það er mikið álag núna.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við erum að reyna að afgreiða alla sem vilja fá mæla á sem skemmstum tíma en það er mikið álag núna. Það er svo sem hefðbundið við þessar aðstæður,“ segir Steindór Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Dynjanda.

Mikil ásókn hefur verið í verslunina eftir að eldgos hófst í Fagradalsfjalli. Margir huga að ferðum að gosstöðvunum og spyrjast fyrir um búnað, svo sem gasmæla og gasgrímur. Steindór segir að gasmælar séu uppseldir í augnablikinu en von sé til þess að ný sending verði til reiðu eftir næstu helgi. Eitthvað er eftir af gasgrímum í versluninni en verulega hefur þó gengið á birgðirnar.

„Við vorum svo sem byrjuð að undirbúa þetta þegar umræða um gos hófst en þetta hefur engu að síður gerst hratt. Það hefur verið mjög erfitt að fá eins mikið og maður vill af búnaði, Covid hefur truflað alla afgreiðslu, en við komumst þó í góðan skammt af grímum og filterum.“

Svokallaður SO2-gasmælir kostar rétt tæpar 70 þúsund krónur hjá Dynjanda. Steindór segir að vissulega hafi margir einstaklingar spurst fyrir um kaup á slíkum mælum, enda sé um túristagos að ræða. Hins vegar sé meira um að björgunarsveitir, ferðaþjónustuaðilar og fjölmiðlar kaupi mælana.

„Stofnanir og eftirlitsaðilar eiga enn mæla frá síðasta gosi og margir komu með mælana til okkar og létu kanna ástandið á þeim áður en gosið hófst.“