[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Landsnet hefur hafið undirbúning að lagningu Holtavörðuheiðarlínu sem liggja á frá tengivirkinu á Klafastöðum við Grundartanga og að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Landsnet hefur hafið undirbúning að lagningu Holtavörðuheiðarlínu sem liggja á frá tengivirkinu á Klafastöðum við Grundartanga og að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði. Ekki hefur verið ákveðið hvar nýja línan mun liggja en meðal annars er litið til þeirra háspennulína sem fyrir eru, Vatnshamralínu 1 og Hrútatungulínu 1 sem liggja úr Hvalfirði í Hrútafjörð.

Holtavörðuheiðarlína er liður í styrkingu byggðalínunnar á milli Suðvesturlands og Austurlands með uppbyggingu 220 kV háspennulínu. Framkvæmdir eru hafnar við Hólasandslínu 3 og Kröflulínu 3 sem liggja á milli Akureyrar og Fljótsdals og unnið að mati á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 sem tengir Akureyri við Blönduvirkjun. Eftir er þá umrædd Holtavörðuheiðarlína og önnur háspennulína frá Holtavörðuheiði að Blönduvirkjun.

Elín Sigríður Óladóttir, samráðsfulltrúi Landsnets, segir að ekki sé búið að ákveða staðsetningu nýs tengivirkis á Holtavörðuheiði eða línuleiðina. Það sé verkefni matsferlis vegna umhverfismats. Tekur hún þó fram að það sé stefna Landsnets að nýta þau mannvirki sem fyrir eru. Þess vegna sé núverandi línuleið einn af þeim kostum sem skoðaðir verða.

Rætt við landeigendur

Landsnet er nú að hefja opið samráð við landeigendur og aðra hagsmunaaðila. Elín segir að þessa dagana sé verið að hafa samband við alla landeigendur á núverandi línuleið til að kynna þeim verkefnið og bjóða þeim á opinn fjarfund annað kvöld, fimmtudag. Jafnframt er verið að skipa verkefnaráð um framkvæmdina, með sama hætti og Landsnet hefur gert vegna stærri framkvæmda síðustu árin. Verður fulltrúum frá sveitarfélögunum fjórum, náttúruverndarsamtökum, atvinnuþróunarfélögum, fræðasamfélaginu og fleirum boðið að taka sæti í því. Fyrsti fundur verkefnaráðsins veður einnig á morgun. Segir Elín að á fyrsta fundi verði framkvæmdin kynnt, sagt frá samráðsferlinu og hvernig umhverfismat fer fram. Reikna megi með því að verkefnaráðið fundi frekar oft í upphafi. Það mun starfa út undirbúnings- og framkvæmdatímann.