Gasmælingar Andri Stefánsson, prófessor hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, ásamt nemendum við mælingar m.a. á samsetningu gastegunda.
Gasmælingar Andri Stefánsson, prófessor hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, ásamt nemendum við mælingar m.a. á samsetningu gastegunda. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Karítas Ríkharðsdóttir karitas@mbl.is „Þetta gas sem er að koma upp hérna er vatnssnautt gas. Þetta er eiginlega bara vatn sem kemur frá kvikunni, en ekkert grunnvatn.

Karítas Ríkharðsdóttir

karitas@mbl.is

„Þetta gas sem er að koma upp hérna er vatnssnautt gas. Þetta er eiginlega bara vatn sem kemur frá kvikunni, en ekkert grunnvatn. Svo er hátt hlutfall á milli koltvíoxíðs (CO2) og brennisteinsoxíðs (SO2),“ sagði Andri Stefánsson, prófessor hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið þar sem hann stóð norðaustan megin við gíginn og mældi hlutföll gastegunda í loftinu í Geldingadölum í gær, en búist var við mikilli gasmengun á svæðinu.

Beint úr möttli

Andri sagði einnig að slíkt gas sé ekki hægt að mynda nema kvikan komi af 10 til 15 kílómetra dýpi, nær 15 kílómetrum. „Og hún er ekkert að stoppa á leiðinni að neinu ráði. Þá erum við að segja að hún er ekki stopp í áratugi eða neitt slíkt. Hún er bara að koma beint upp úr möttli, þar sem kvika verður til, og kemur svo bara hérna í gegnum sprunguna.“

Spurður hvernig hægt sé að meta hvort kvikan stöðvist ekki á leiðinni segir hann að gasið hefði öðruvísi samsetningu hefði kvikan stöðvað að einhverju ráði á leiðinni. „Þetta er eina leiðin til að búa til svona gas. Einnig er hægt að styðjast við samsetninguna á berginu,“ sagði Andri. „Það er magnesíumríkt og títansnautt og þetta þýðir bara að það er mjög frumstæð bráð sem kemur.“

Kvikugangur eins og strompur

Hann segir kvikuganginn sem leiðir að gosinu ekki vera stóran, heldur langan og mjóan, frekar eins og stromp í laginu. „Hversu lengi ástandið mun vara fer eftir því hversu stór þessi kvikupoki, á miklu dýpi, er,“ sagði Andri.

„Ef hann er töluvert stór gæti gosið varað í nokkurn tíma. Við erum að tala um mánuði eða ár. En ef hann er ekki stór gæti þetta dáið út á morgun. Við vitum ekkert hvað hann er stór en við vitum að hann er á miklu dýpi.“ Með Andra í för voru nemar við jarðfræði og jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Öll kennsla í þeim greinum fór fram á gossvæðinu í gær.