Ólafur Hauksson fæddist á Akranesi þann 28. desember 1946. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík þann 20. mars 2021. Foreldrar hans voru hjónin Ástdís Sigurðardóttir, f. 23. ágúst 1914, d. 20. júlí 1968, og Haukur Ólafsson, f. 4. september 1916, d. 23. september 1972. Systur Ólafs eru þær Dagný, f. 24. janúar 1940, Jóhanna, f. 14. febrúar 1945, d. 30. júní 2007, og Sigríður, f. 23. mars 1950.

Dætur Ólafs eru 1. Kristín Ásta, f. 2. júlí 1979. Eiginmaður hennar er Jóhannes Reykdal og synir þeirra eru Kári Björn og Bjarni Gunnar. 2. Þórhildur Edda, f. 28. mars 1983. Eiginmaður hennar er Guðmundur Arnar Þórðarson og synir þeirra eru Bjarni Þór, Arnar Már og Þórður Örn.

Ólafur gekk í skóla á Akranesi þar sem hann ólst upp en hann bjó síðar víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu, lengst af í Mosfellsbæ. Hann starfaði mestan hluta ævi sinnar sem bílstjóri á ýmsum vettvangi.

Útför Ólafs fer fram í Lágafellskirkju í dag, 24. mars 2021.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast föður míns sem nú er látinn. Hann var mikill bílakarl og hafði gaman af öllu sem þeim tengdist, sérstaklega jeppaferðum um hálendið. Hann gerði akstur að atvinnu sinni, keyrði ýmsar gerðir vöru- og flutningabíla og var laginn kranamaður. Hann gerðist líka rútubílstjóri og sameinaði þannig áhuga sinn á akstri og ferðalögum. Hann fór ófáar ferðir um landið með ferðamenn og oft sagði hann sögur af ferðunum og fólkinu sem hann kynntist. Hann átti auðvelt með að spjalla við fólk og gaf mikið af sér, þekktur fyrir greiðvikni við vini og nágranna. Hann hafði áhuga á hestum og saman vorum við félagar í hestamennskunni þegar ég var að alast upp. Hann var afar stoltur af dætrum sínum og barnabörnum og hann átti það til að gerast montinn af afrekum afkomendanna. Ég fann alltaf fyrir miklum stuðningi frá pabba, bæði í námi og starfi, og hann hefði fært fyrir mig himin og haf hefði hann getað. Hann vissi samt að ég gæti allt sem ég ætlaði mér. Pabbi var trúaður maður og trúði því staðfastlega að eftir dauðann biði okkar nýtt líf í himnasölum Herrans. Ég ylja mér við tilhugsunina um að nú sé hann laus við sjúkdóminn sem lék hann svo illa undanfarin ár og að honum líði vel í samneyti við gengna ástvini og gamla félaga.

Heyr, himna smiður,

hvers skáldið biður,

komi mjúk til mín

miskunnin þín.

Því heit eg á þig,

þú hefur skaptan mig,

ég er þrællinn þinn,

þú ert Drottinn minn.

Guð, heit eg á þig,

að græðir mig,

minnst, mildingur, mín,

mest þurfum þín.

Ryð þú, röðla gramur,

ríklyndur og framur,

hölds hverri sorg

úr hjartaborg.

Gæt, mildingur, mín,

mest þurfum þín

helzt hverja stund

á hölda grund.

Set, meyjar mögur,

máls efni fögur,

öll er hjálp af þér,

í hjarta mér.

(Kolbeinn Tumason)

Elsku pabbi, þakka þér samfylgdina. Við hittumst aftur síðar.

Þín

Kristín Ásta.