Samtals 128 íbúðir í nýbyggingum á Elliðabraut 12-22 eru uppseldar.
Samtals 128 íbúðir í nýbyggingum á Elliðabraut 12-22 eru uppseldar. — Morgunblaðið/Eggert
Það er víðar en í miðborginni sem gengið hefur vel að selja íbúðir á þéttingarreitum. Í fyrsta lagi er búið að selja 212 af 213 íbúðum í nokkrum fjölbýlishúsum í Smárabyggð, suður af Smáralind, að því gefnu að fyrirliggjandi tilboð nái fram að ganga.

Það er víðar en í miðborginni sem gengið hefur vel að selja íbúðir á þéttingarreitum.

Í fyrsta lagi er búið að selja 212 af 213 íbúðum í nokkrum fjölbýlishúsum í Smárabyggð, suður af Smáralind, að því gefnu að fyrirliggjandi tilboð nái fram að ganga.

Að sögn Ingva Jónassonar, framkvæmdastjóra hjá Klasa, fer næsta hús líklega í sölu í haust en þar verða 84 íbúðir sem verða afhentar 2022.

Skammt frá Smárabyggðinni stendur yfir uppbygging á Nónhæð, á mörkum Kópavogs og Garðabæjar. Kristján Snorrason byggingarmeistari segir að um síðustu áramót hafi verið búið að selja allar 40 íbúðirnar í 1. áfanga verkefnisins. Álíka margar komi í sölu eftir um ár.

Þá eru allar íbúðirnar seldar á Elliðabraut 12-22 í Norðlingaholti í Reykjavík, eða alls 128 íbúðir í sjö húsum, að sögn Vignis S. Halldórssonar, stjórnarformanns MótX.

Þar við hlið er Þingvangur að reisa fjölbýlishús með 83 íbúðum á Elliðabraut 4-6. Að sögn Pálmars Harðarsonar, framkvæmdastjóra Þingvangs, skráðu 250 manns sig á biðlista eftir íbúðunum. Áformað sé að hefja sölu þeirra í maí.