[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Ekki verða útbúin sérstök stæði fyrir bíla þeirra göngugarpa sem fara af Suðurstrandarvegi að eldstöðinni í Geldingadölum við Fagradalsfjall.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ekki verða útbúin sérstök stæði fyrir bíla þeirra göngugarpa sem fara af Suðurstrandarvegi að eldstöðinni í Geldingadölum við Fagradalsfjall. Einstefna er nú á Suðurstrandarvegi og hafa ökumenn, sem aka leiðina úr Grindavík til austurs, lagt bílum sínum í hægri akrein. Einstefna verður á veginum þannig að eftir göngu þarf fólk að aka áfram austur á bóginn og á höfuðborgarsvæðið með því að fara veginn við Kleifarvatn eða Þrengslin við Þorlákshöfn.

Braut mörkuð stikum er nú komin úr Borgarhrauni við Suðurstrandarveg að eldstöðinni í Geldingadölum við Fagradalsfjall. Alls er þessi leið um 3,5 km löng og ætti að vera flestum greiðfær. Gott er þá að gefa sér eina og hálfa klukkustund hvora leið í gönguna. „Gönguleiðin er greið og örugg,“ segir Otti Sigmarsson hjá björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík „Fyrst og síðast erum við slysavarnafélag og því fórum við í fyrirbyggjandi aðgerðir með því að setja þessa stikur upp. Einnig verður leiðin sett inn á netið í gegnum safetravel.is og víðar eftir atvikum.“

Ferð með jarðfræðingum

Ferðafélag Íslands mun ef aðstæður leyfa bjóða upp á skoðunarferðir að gosstöðvum með reyndum fararstjórum og jarðfræðingum. Fyrirkomulag ferðanna verður kynnt á vefsetri félagsins fi.is . Þar er einnig að finna margvíslegar leiðbeiningar um góðan og nauðsynlegan búnað ætli fólk að ganga þessa leið.

„Við finnum að margir vilja á þessar slóðir og hafa þá traust utanumhald og fá fróðleik um hvað þarna er raunverulega að gerast. Ferðafélag Íslands svarar því kalli. Nú ber að taka fram að gasmengun er viðloðandi á svæðinu og við förum ekki nema aðstæður séu góðar og almannavarnir segi að öllu sé óhætt. Vonandi verður það á allra næstu dögum og nú segja jarðfræðingar að gosið geti staðið í talsverðan tíma. Allt mun þetta svo auka áhuga fólks á ferðalögum og landinu okkar,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.