[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Gauti Reynisson fæddist 24. mars 1981 í Reykjavík. „Það er upp á dag níu árum síðar en bróðir minn og 13 árum síðar en mágur minn og fyrir vikið er 24. mars ár hvert hátíðardagur í minni fjölskyldu.

Arnar Gauti Reynisson fæddist 24. mars 1981 í Reykjavík. „Það er upp á dag níu árum síðar en bróðir minn og 13 árum síðar en mágur minn og fyrir vikið er 24. mars ár hvert hátíðardagur í minni fjölskyldu. Ég ólst upp í Seljahverfinu í Breiðholtinu sem var barnmargt og lifandi hverfi á þeim tíma enda nýbúið að byggjast upp.“

Gauti var mikið í íþróttum og útivist, æfði fótbolta og spilaði fjögur sumur í meistaraflokki með ÍR. Hann æfði líka körfubolta, skíði og golf. „Foreldrar mínir voru mjög duglegir að ferðast þegar ég var barn og ég held að það sé ekki til það tjaldstæði sem ég kom ekki á sem krakki. Þau áttu líka hlut í skútu og við sigldum í kringum Ísland, Mallorca og í gegnum Gíbraltarsund. Ég fór líka í sumarbúðir skáta á Úlfljótsvatni níu sumur í röð.“

Gauti gekk í Ölduselsskóla, Verzlunarskóla Íslands og varð stúdent þaðan 2001. „Ég tók mér í framhaldi frí frá námi til að stunda skíðaíþróttina af fullum hug í Noregi og Austurríki en eftir einn vetur sá ég að mér var ekki ætlaður frami á því sviði og hóf nám í vélaverkfræði við Háskóla Íslands haustið 2002.“ Þaðan útskrifaðist hann með B.Sc.-gráðu vorið 2005 og hóf í framhaldi störf á véladeild verkfræðistofunnar Hönnunar. Haustið 2006 hóf hann framhaldsnám í iðnaðarverkfræði við Háskólann í Minnesota og útskrifaðist með meistaragráðu árið 2008.

Gauti fór því út á vinnumarkaðinn á sjálfu hrunárinu og það hjá Glitni. „Ég hef verið að grínast með það að ég hafi verið sá síðasti sem var ráðinn hjá Glitni, það var í febrúar 2008 og ég upplifði bara niðurleiðina í átt að hruninu. Svo held ég að þeir hafi einfaldlega gleymt mér í hruninu svo ég hélt bara áfram að vinna hjá Íslandsbanka og var þar í sjö ár eða til 2015. Ég var í markaðsviðskiptum, bæði í verðbréfamiðlun og gjaldeyrismiðlun en síðan langaði mig að breyta til og vinna í hefðbundnu fyrirtæki.“

Vorið 2015 hóf Gauti störf sem fjármálastjóri Heimavalla leigufélags, vorið 2019 tók hann síðan við sem framkvæmdastjóri Heimavalla og starfar sem slíkur í dag en nafn félagsins er í dag Heimstaden. „Þetta átti að vera lítið leigufélag með 10 milljarða eignasafn, en varð síðan þegar mest var 55 milljarða eignasafn. Við skráðum félagið í kauphöllina en síðan var það keypt af Norðmönnum og nú er búið að afskrá félagið í kauphöllinni og er alfarið í eigu Norðmanna. Það hafa því orðið miklar stefnubreytingar hjá félaginu á ekki lengri tíma.

Í dag stöndum við vel, erum með mjög öflugan eiganda, Heimstaden, sem starfar í sjö löndum, og erum með skýra sýn á hvað við viljum gera. Við erum fyrst fremst leigufélag fyrir fólk sem kýs að vera á leigumarkaði. Fólk sem leigir hjá okkur býr við meira öryggi, við segjum ekki upp leigusamningi til að selja íbúð eða til að hleypa öðrum að, t.d. frænku sem var að koma heim úr námi.“

Leigufélagið á í dag 1.640 íbúðir, ríflega 50 milljarða eignasafn, og eru stærstu svæðin í Bryggjuhverfinu, Helgafellslandi í Mosfellsbæ, á Hlíðarenda og Ásbrú á Reykjanesi. Félagið á ekki stakar íbúðir heldur heilar fasteignir eða að minnsta kosti heilan stigagang. „Annars getum við ekki boðið upp á þá þjónustu sem við viljum veita. Til að mynda fyrstu tvo mánuðina eftir að fólk flytur inn bjóðum við upp á heimaþjónustu. Ef það vantar t.d. að tengja uppþvottavélina eða hengja upp hillu þá kemur maður frá okkur og græjar það. Þetta hefur mælst vel fyrir, að vísu hefur Covid aðeins þvælst fyrir en við höfum verið að sinna þessu að undanförnu.“

Gauti sat í stjórn Skíðasambands Íslands 2010-2012 og var formaður alpagreinanefndar á sama tíma.

Áhugamál Gauta snúast um íþróttir og útivist eins og á yngri árum. „Á skíðum, hjólandi eða í golfi kann ég best við mig. Hjólaáhuganum er svalað hvort sem er á götuhjóli um borgina eða á fjallahjóli í óbyggðum. Árin 2017 og 2018 tók ég þátt í hjólakeppninni Glacier 360 sem fólst í því að hjóla hringinn í kringum Langjökul á þremur dögum og var það alveg einstök upplifun.

Í seinni tíð eftir að börnin urðu eldri er fátt skemmtilegra en að renna sér með þeim á skíðum og reynum við að nýta hverja helgi til þess yfir vetrarmánuðina. Golfdellan náði mér á yngri árum en hefur verið í fríi á meðan börnin hafa verið lítil og bíður betri tíma. Þessu til viðbótar fékk ég mikinn veiðiáhuga á síðasta ári enda kom maríulaxinn á land og fyrsta rjúpan var skotin.“

Fjölskylda

Eiginkona Gauta er Sigríður Vala Halldórsdóttir, f. 24.4. 1983, verkfræðingur. Þau eru búsett í Akrahverfi í Garðabæ. Foreldrar Sigríðar eru hjónin Halldór Jóhannsson, 9.5. 1948, verkfræðingur og Nína Björg Ragnarsdóttir, f. 24.6. 1949, hárgreiðslukona. Þau eru búsett í Reykjavík.

Börn Gauta og Sigríðar: Thelma, andvana fædd 12. september 2011; Edda Björk, f. 20. október 2012, og Halldór, f. 3. júlí 2014.

Systkini Gauta eru Guðrún Reynisdóttir (Gunna Kilian), f. 1.10. 1967, verkefnastjóri hjá Háskólanum í Minnesota, býr í Lakeville í Minnesota í Bandaríkjunum, og Gísli Reynisson, f. 24.3. 1972, framkvæmdastjóri Spildu fasteignafélags.

Foreldrar Gauta: Reynir Ragnarsson, f. 6.12. 1947, d. 22.10. 2016, starfaði sem löggiltur endurskoðandi frá 1975 til dánardags, lengst af sem eigandi Þrepa ehf. endurskoðunar, og Halldóra J. Gísladóttir, f. 14.11. 1947, starfaði sem grunnskólakennari. Þau gengu í hjónaband 15.6. 1968 og voru í hjúskap allt til dánardags Reynis.