Teymið Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari, Eiður Smári Guðjohnsen aðstoðarlandsliðsþjálfari og Halldór Björnsson markvarðaþjálfari skipa þjálfarateymi íslenska liðsins ásamt Lars Lagerbäck sem er líka mættur til Þýskalands.
Teymið Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari, Eiður Smári Guðjohnsen aðstoðarlandsliðsþjálfari og Halldór Björnsson markvarðaþjálfari skipa þjálfarateymi íslenska liðsins ásamt Lars Lagerbäck sem er líka mættur til Þýskalands. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýskaland Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Arnar Þór Viðarsson, nýráðinn landsliðsþjálfari karla, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrsta verkefni sínu með íslenska landsliðið. Ísland mætir fótboltastórveldinu Þýskalandi í Duisburg annað kvöld, í fyrsta leiknum í undankeppni heimsmeistaramótsins, en Arnar sagði við Morgunblaðið í gær að það væri ágætt að byrja á því að mæta Þjóðverjum.

Þýskaland

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Arnar Þór Viðarsson, nýráðinn landsliðsþjálfari karla, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrsta verkefni sínu með íslenska landsliðið. Ísland mætir fótboltastórveldinu Þýskalandi í Duisburg annað kvöld, í fyrsta leiknum í undankeppni heimsmeistaramótsins, en Arnar sagði við Morgunblaðið í gær að það væri ágætt að byrja á því að mæta Þjóðverjum.

„Nú byrjar ný undankeppni og fyrirfram á þetta að vera erfiðasti leikurinn, sá leikur þar sem við höfum engu að tapa. Sá leikur þar sem allir reikna með þýskum sigri og þeir gera sjálfir alltaf ráð fyrir því að vinna alla heimaleiki sína í svona undankeppni,“ sagði Arnar en honum til halds og trausts eru aðstoðarþjálfarinn Eiður Smári Guðjohnsen, Lars Lagerbäck, sem er tæknilegur ráðgjafi og er með þeim í Þýskalandi, og markvarðaþjálfarinn Halldór Björnsson.

„Þetta þýðir að við sem nýtt þjálfarateymi byrjum ekki keppnina á því að leika undir mikilli pressu. Vissulega er hún til staðar en þetta er ekki hápressa-lífshætta. Við hittum hópinn í fyrsta sinn í gær, erum byrjaðir að koma inn okkar hugmyndum, sem tekur sinn tíma, og það er ágætt að fá strax alvöruandstæðing og alvöruleik þar sem við getum strax kallað fram það sem við viljum sjá. Svo leitum við að sjálfsögðu eftir góðum úrslitum. Við erum óhræddir við að segja að við viljum ná í hagstæð úrslit og við teljum okkur geta það,“ sagði Arnar þegar Morgunblaðið ræddi við hann eftir æfingu gærdagsins.

Íslenska liðið dvelur í Düsseldorf og æfði þar í gær og á mánudaginn en fer til Duisburg í dag og æfir á keppnisvellinum þar, sólarhring fyrir leik. Aðeins eru 28 kílómetrar á milli borganna og því um stutt ferðalag að ræða.

Búinn að kanna aðstæður

Arnar var þegar búinn að fara í könnunarferð til Duisburg og Düsseldorf ásamt Sigurði Þórðarsyni, starfsmanni KSÍ.

„Við komum hingað fyrir um það bil sex vikum þar sem við skoðuðum aðstæður, æfingavöllinn, keppnisvöllinn og hótelið. Ég fór ekki inn á völlinn sjálfan í Duisburg en hann er lítill á þýskan mælikvarða og á meðan engir áhorfendur eru á leikjunum horfa þeir eflaust til þess að vera á lítið notuðum velli sem er á þægilegu svæði. Þeir spiluðu á stærri völlum í Þjóðadeildinni í haust en þetta er eflaust þægilegra á þessum tímum, þegar leikið er án áhorfenda.“

Eins og fram hefur komið eru Gylfi Þór Sigurðsson og Björn Bergmann Sigurðarson ekki með liðinu en þeir drógu sig út úr hópnum eftir að hann var valinn. Þá hafa verið vangaveltur um hvort Jóhann Berg Guðmundsson sé leikfær. Arnar sagði að þeir sem væru komnir til Þýskalands væru almennt í góðu standi.

„Ástandið á hópnum er bara gott. Jóhann Berg var aðeins með á æfingunni í gær en ekki í dag. Við erum að reyna að stýra álaginu á honum, eins og hann er vanur að sé gert í Burnley, varðandi hvíld og æfingar. Við reiknum með því að keyra upp tempóið á honum á æfingunni á morgun og við höldum öllu opnu með hann ennþá. Við búumst við að geta notað hann gegn Þjóðverjum, en það er samt ekkert ákveðið. Með hann og fleiri er spurningin hvort hægt sé að nota þá í öllum þremur leikjunum, eða kannski bara tveimur. Þetta er í raun álagsstýring á öllum hópnum. Fyrsta skrefið var að fá alla leikmennina hingað, kynna fyrir þeim hugmyndir okkar í þjálfarateyminu, æfa, og púsla síðan saman liðinu í samvinnu við læknateymið og þolþjálfarann. Við reynum að finna út hverjir spila, hversu oft og hversu mikið.

Leikmenn eru misjafnlega staddir, sumir eru ekki byrjaðir á sínu tímabili og ekki komnir í form til að spila þrjá heila leiki, aðrir eru búnir að spila mjög marga leiki. Þetta eru allar þjóðir að glíma við núna, eftir að landsleikjaglugginn var stækkaður úr tveimur leikjum í þrjá og þetta er mjög erfitt fyrir öll landsliðin. Um leið vilja félagsliðin að þeirra menn spili sem minnst og vilja ekki fá þá handónýta til baka. Þetta er mjög eðlileg hugsun og þessar þriggja leikja tarnir vegna Covid hafa flækt hlutina verulega,“ sagði Arnar.

Stórþjóð og frábærir leikmenn

Íslenska liðið gæti á morgun mætt sex eða sjö leikmönnum úr Evrópumeistaraliði Bayern München ásamt mörgum öðrum sem leika með liðum í fremstu röð en á móti kemur að í liði Íslands býr gríðarleg reynsla. Arnar sagði aðspurður að þessi atriði myndu væntanlega vega hvort á móti öðru.

„Þjóðverjar eru og hafa alltaf verið stórþjóð í knattspyrnu og eru með marga frábæra leikmenn úti um alla Evrópu. Þeir eru líka með frábæra deild heima fyrir og hafa úr mörgum leikmönnum að velja. Á móti kemur að við erum með mjög samstilltan og reyndan hóp, ásamt mjög efnilegum leikmönnum. Þetta eru mikilvægir styrkleikar – við getum aldrei sagt að við eigum að vinna Þýskaland á útivelli hvenær sem er, en við megum hins vegar aldrei vanmeta okkar styrkleika því þeir eru miklir,“ sagði Arnar.

Fjarvera Gylfa er tækifæri fyrir aðra

Fjarvera Gylfa er að sjálfsögðu umtalsvert áfall fyrir íslenska liðið enda hefur hann verið lykilmaður þess um árabil.

„Já, auðvitað vildum við helst hafa haft Gylfa með okkur hérna, það er ekkert leyndarmál. En ég reyni að horfa á hlutina út frá þeim tækifærum sem gefast. Ég tel að þetta sé gott tækifæri fyrir aðra leikmenn til að stíga fram og sýna sína styrkleika. Það er líka alltaf þannig að þegar vantar sterka leikmenn fær liðið og hópurinn tækifæri til að sýna að íslenska landsliðið sé ekki byggt á einum leikmanni. Slík tækifæri gefast þegar sterkir einstaklingar á borð við Gylfa eru ekki með okkur,“ sagði Arnar Þór Viðarsson.