Söngvari Gróskan í íslensku tónlistarlífi er mikil, segir Ólafur Kjartan sem hefur búið í Þýskalandi síðustu árin.
Söngvari Gróskan í íslensku tónlistarlífi er mikil, segir Ólafur Kjartan sem hefur búið í Þýskalandi síðustu árin. — Morgunblaðið/Eggert
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ensk ljóð og íslensk sönglög eru á efnisskrá tónleika sem Ólafur Kjartan Sigurðarson óperusöngvari og Tómas Guðni Eggertsson meðleikari hans halda í kvöld í Vinaminni, safnaðarheimili Akraneskirkju, og hefjast þeir klukkan 20. Mörg undanfarin ár hefur Ólafur Kjartan starfað erlendis og sungið fjölda hlutverka víða í Evrópu, Bandaríkjunum, Ástralíu og í Japan. Fyrir helgina kom hann fram á söngskemmtun Íslensku óperunnar í Hörpu og flutti þar, ásamt Bjarna Frímanni Bjarnasyni, atriði úr nokkrum þeim óperum sem hann hefur fengist við á síðustu misserum. Ólafur Kjartan Sigurðarson var 2001-2004 fyrsti fastráðni söngvarinn við Íslensku óperuna. Síðasta hálfan annan áratuginn hefur hann að mestu starfað erlendis; fyrst í Bretlandi en frá 2007 í Þýskalandi hvar hann fékk þá starf við óperuna í Saarbrücken.

„Í Saarbrücken gat ég „safnað rullum“ eins og sagt er í faginu,“ segir Ólafur Kjartan sem býr í Berlín með fjölskyldu sinni. Er lausamaður í listinni og syngur í óperuhúsum víða. Hefur fengið ýmis hlutverk í óperum meistara tónbókmenntanna og tekur í sumar þátt í árlegri Wagnerhátíð í Bayreuth í Þýskalandi.

Nýr Niflungahringur

„Hátíðin er í óperuhúsi Richards Wagners sjálfs og lengi hefur verið ætlun mín að komast þar á svið. Wagnerhátíðin er merkileg fyrir þær sakir að Wagner reisti þetta óperuhús sjálfur, eingöngu til flutnings á eigin óperum. Það er ómetanlegt fyrir Wagnersöngvara að taka þátt í uppfærslu á þessari hátíð, enda greiðir það leið að jafnvel stærri húsum. Æfingar í Bayreuth hefjast 1. júní og í sumar syng ég hlutverk Biterolfs í óperunni Tannhäuser . Jafnframt byrjum við að æfa nýja uppfærslu á Niflungahringnum sem frumsýnd verður á næsta ári. Óperur Wagners verða meðal minna helstu viðfangsefna næstu ár. Þar með er talin uppfærsla á Valkyrju Wagners sem verður upphafsatriði Listahátíðar í Reykjavík 2022, “ segir Ólafur Kjartan.

Fyrir söngvara sem býr og starfar erlendis er mikilvægt að koma heim endrum og sinnum og heilsa upp á íslenska áheyrendur og samstarfsfólk. „Tengingarnar við mannskapinn hér heima eru nauðsynlegar, ella fennir í sporin,“ segir Ólafur Kjartan. Hér heima eru þau Sigurbjörg Bragadóttir, kona hans, að sinna fjölskyldu og gæta barnabarna og tónleikarnir verða nokkrir.

Spennandi uppfærslur

„Gróskan í íslensku tónlistarlífi er mikil, segir Ólafur Kjartan. „Tilkoma Hörpu hefur gert mikið fyrir tónlistarflutning. Margir eru að gera góða hluti í listinni og þar nefni ég til dæmis meistara Daníel Bjarnason tónskáld og hljómsveitarstjóra sem samdi óperuna Brothers sem var frumflutt í Danmörku árið 2017 og ég tók þátt í. Sú uppfærsla og fleiri staðfesta að óperan er langt frá því að vera staðnað form. Alltaf má búast við nýjum eldgosum í óperuhúsunum; spennandi uppfærslum listafólks sem hefur mikinn metnað.“