SS hefur lengi verið í hópi stærstu matvælaframleiðenda Íslands.
SS hefur lengi verið í hópi stærstu matvælaframleiðenda Íslands. — Morgunblaðið/Eggert
Matvælaframleiðsla Athafnamaðurinn Kristinn Gylfi Jónsson gagnrýnir stjórnendur Sláturfélags Suðurlands harðlega vegna þess sem hann vill meina að sé slælegur árangur í rekstri fyrirtækisins.

Matvælaframleiðsla Athafnamaðurinn Kristinn Gylfi Jónsson gagnrýnir stjórnendur Sláturfélags Suðurlands harðlega vegna þess sem hann vill meina að sé slælegur árangur í rekstri fyrirtækisins. Kristinn Gylfi er handhafi svokallaðra B-hlutabréfa í félaginu og hafði gagnrýnina í frammi á aðalfundi félagsins fyrir helgi. Félagið tapaði 259 milljónum króna í fyrra en til samanburðar nam hagnaður þess 561,6 milljónum árið 2016.

„Ég hef metnað fyrir því að þetta fyrirtæki gangi vel og skili arði til hluthafa sinna. Það er hægt að gera mun betur að mínu mati. Ef reksturinn er skoðaður fimm ár eða jafnvel 10 ár aftur í tímann blasir þetta við. Salan hefur verið svipuð síðustu 5 ár eða nær 12 milljörðum króna. Hún lækkaði hins vegar í fyrra í 11,3 milljarða eða um rúm 5%. EBITDA hefur lækkað á fimm árum úr nær 1.200 milljónum í 329 milljónir á síðastliðnu ári og í fyrra tók félagið yfirdráttarlán fyrir rekstri og vegna fjárfestinga.“

Þá segir Kristinn Gylfi að hagnaður fyrir skatta hafi lækkað úr 1,4 milljörðum í 284 milljónir króna á sama tíma og afkoma hafi reynst góð hjá öðrum matvælafyrirtækjum og heildsölum.

„Fjárfest hefur verið fyrir einn milljarð á árunum 2019 og 2020 og ef horft er til fimm ára þá hefur verið fjárfest fyrir rúman 3,1 milljarð króna. Þessi fjárfesting hefur ekki skilað sér í bættum rekstri og stenst því ekki skoðun,“ segir Kristinn Gylfi. Kvað svo grimmt að gagnrýni í máli Kristins Gylfa í garð stjórnenda SS að undir lok framsögu sinnar lagði hann fyrir stjórn og aðalfund að stjórnendum fyrirtækisins yrði öllum skipt út. ses@mbl.is