Á aðalfundi Festar í vikunni var greint frá því að félagið hefði fram að síðustu áramótum greitt óháða kunnáttumanninum tæpar 56 milljónir króna fyrir vinnu sína. Það gera að meðaltali um tvær milljónir króna á mánuði.

Á aðalfundi Festar í vikunni var greint frá því að félagið hefði fram að síðustu áramótum greitt óháða kunnáttumanninum tæpar 56 milljónir króna fyrir vinnu sína. Það gera að meðaltali um tvær milljónir króna á mánuði. Óháði kunnáttumaðurinn er skipaður til október 2023. Ef greiðslur til hans halda áfram að nema tveimur milljónum á mánuði mun heildarkostnaður Festar nema um 120 milljónum króna. Ef vel er vandað til verka er aldrei að vita nema búið verði að selja verslunina á Hellu fyrir þann tíma.

Eitt sinn, þegar framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta fundaði með kröfuhöfum erlendis, hafði einn hópverja tekið með sér blaðaúrklippu með auglýsingu um útdrátt í íslenska lottóinu. Hann benti kröfuhöfum kurteisislega á að lottó-vinningurinn þá helgina væri sambærilegur því sem þeir væru að greiða slitastjórnarmönnum um hver mánaðamót.– Þær upphæðir höfðu ekki þótt mikið tiltökumál í heimi kröfuhafa en þarna sáu þeir hversu galnar þessar upphæðir voru í íslensku samhengi.

Flestum blöskraði það hvernig slitastjórnirnar mjólkuðu þrotabú bankanna eftir hrun. Það var vissulega hægt að færa ýmis rök fyrir því að starf slitastjórnanna væri umfangsmikið og flókið og í því tilliti væri við hæfi að greiða myndarlega fyrir þá vinnu. Hér heima fór umræðan þó fljótt út í þá sálma að það að stýra slitastjórn væri eins og að vinna í lottó hverja helgi, nokkur ár í röð. Það eru fáir sem eiga þess kost.

Við höfum einstaka sinnum séð gagnrýni á skiptastjóra þrotabúa, sem eru sakaðir um að mjólka þau í eigin þágu með háum reikningum. Slík mál hafa meira að segja ratað fyrir dómstóla og þess eru dæmi að skiptastjórar þurfi að endurgreiða þrotabúinu.

Tvær milljónir á mánuði

Lúðvík Bergvinsson, lögmaður og fv. þingmaður Samfylkingarinnar, hefur frá því í október 2018 starfað sem „óháður kunnáttumaður“ í kjölfar sáttar sem gerð var við Samkeppniseftirlitið við samruna olíufélagsins N1 og verslunarkeðjunnar Festar. Óháða kunnáttumanninum er ætlað að fylgjast með því að skilyrðum sáttarinnar sé framfylgt. Í því felast meðal annars gífurlega flókin og umfangsmikil verkefni sem er ekki á hendi hvers sem er að leysa, til dæmis að selja matvöruverslun í eigu Festar á Hellu.

Á aðalfundi Festar í vikunni var greint frá því að félagið hafi fram að síðustu áramótum greitt óháða kunnáttumanninum tæpar 56 milljónir króna fyrir vinnu sína. Það gera að meðaltali um tvær milljónir króna á mánuði. Óháði kunnáttumaðurinn er skipaður til október 2023. Ef greiðslur til hans halda áfram að nema tveimur milljónum á mánuði mun heildarkostnaður Festar nema um 120 milljónum króna. Ef vel er vandað til verka er aldrei að vita nema búið verði að selja verslunina á Hellu fyrir þann tíma.

Um svipað leyti og unnið var að samruna N1 og Festar var jafnframt unnið að samruna Olís og Haga. Þar var einnig skipaður óháður kunnáttumaður en kostnaður Haga vegna starfa hans er umtalsvert minni. Frá því var greint í fyrra að kostnaður Festar væri um átta sinnum hærri en kostnaður Haga. Það liggja ekki fyrir neinar skýringar á þessum mikla mun en varla er hægt að halda því fram að umsvif og rekstur Haga og Olís hafi verið svo mikið einfaldari en N1 og Olís.

Hrós á Festi

Viðskiptafjölmiðlar hafa bent á að Lúðvík og Ásgeir Einarsson, aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins, séu góðir vinir og því hefur ekki verið mótmælt af þeirra hálfu. Hér skal því þó ekki haldið fram að það útskýri þessar háu upphæðir. Það er þó full ástæða til að hrósa stjórnendum Festar fyrir að greina frá þessum upphæðum og þeirri stöðu sem félagið er í vegna hinnar svokölluðu sáttar. Það hefði verið mun einfaldara að bíta í tunguna og borga þá reikninga sem félaginu berast.

Samkeppniseftirlitið tilkynnti nýlega að það hygðist hefja rannsókn á mögulegum brotum Festar gegn sáttinni og óskaði eftir upplýsingum og nánari skýringum frá félaginu á nokkrum atriðum, þar með talið sölu verslunarinnar á Hellu. Einhver hefði haldið að óháði kunnáttumaðurinn væri með þau gögn sem þyrfti að skoða og hefði yfirsýn yfir málið, en gott og vel.

Það er ástæða fyrir því að fyrirtæki veigra sér við því að leita leiðbeininga hjá Samkeppniseftirlitinu og það er ekki á hendi allra að glíma við stofnunina eða stjórnendur hennar. Það verður í það minnsta áhugavert að fylgjast með framvindu mála í samskiptum Festar og Samkeppniseftirlitsins. Stór hluti atvinnulífsins fylgist með, í hljóði.